Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Pottaplönturnar þurfa ekki á áburðargjöf að halda nema frá vori og fram á haust.
Pottaplönturnar þurfa ekki á áburðargjöf að halda nema frá vori og fram á haust.
Mynd / Guðríður Helgadóttir
Á faglegum nótum 26. apríl 2023

Endurræsum pottaplöntur eftir veturinn

Höfundur: Ingólfur Guðnason brautastjóri garðyrkjuframleiðslu hjá Garðyrkjuskólanum Reykjum FSu

Að loknum dimmum vetri beinist athygli blómaáhugafólks að pottaplöntunum sem þá eru oft orðnar hálf ræfilslegar, fölar og guggnar.

Þegar sólarinnar nýtur aftur breyta þær um svip og fá endurnýjaðan þokka og ekki úr vegi að rifja upp hvað hægt er að gera til að þeim líði sem best.

Vor- og sumarumhirða pottaplantna er um margt ólík umhirðu þeirra að vetri, þegar mesta áskorunin er að halda þeim í horfinu, láta þær njóta þeirrar birtu sem völ er á og dregið er úr vökvun og áburðargjöf. Vorið felur í sér aðrar áskoranir. Plönturnar þurfa þá miklu meiri vökvun og þær þurfa aukna næringu til að njóta sín sem best og bæta við vöxtinn. Blómin sem höfð voru á bjartasta stað yfir veturinn getur þurft að færa frá suðurgluggum. Sumar tegundir geta hreinlega eyðilagst af of mikilli beinni birtu að sumrinu. Blöð geta sviðnað, blómin standa stutt og plöntunum hættir við ofþornun. Suðurglugginn getur verið versti óvinur pottablómanna á sumrin

Umpottun

Vorið er rétti tíminn til að huga að umpottun, sé hennar þörf. Rétt er að skoða rótarkerfið og ef það er orðið mjög þétt mun plantan launa fyrir nýja og góða pottamold með auknum vexti og grósku. Nýi potturinn þarf að vera nokkrum sentímetrum víðari en sá fyrri. Ef plantan er mjög stór getur verið erfitt eða ómögulegt að umpotta henni. Þá er reynandi að setja kraftmikla pottamold yfir moldina sem fyrir er og vökva ofan frá fyrstu vikurnar, til að næringin seytli úr henni niður til rótanna. Sumar plöntur eins og kaktusar og margir þykkblöðungar þurfa ekki mjög næringarríka mold og þá er gott að blanda dálitlum vikri saman við pottamoldina sem notuð er. Pottahlífar ættu að vera nógu rúmgóðar til að vel lofti niður á milli brúna hlífar og potts, allan hringinn.

Loftraki

Loftraki í híbýlum er oftast talsvert lægri en plönturnar kjósa helst. Til að draga úr álagi vegna mikillar birtu og aukins lofthita er gott ef hægt er að hækka loftrakann. Úða ætti plönturnar reglulega með fínum vatnsúða. Annað gott ráð er að láta plöntur standa í víðri skál með rökum vikursandi, þannig má hækka loftrakann umhverfis plönturnar.

Einnig er hægt að hafa plöntur margar saman, þó þannig að vel fari um þær. Sá raki sem plönturnar gefa sjálfar frá sér er til þess fallinn að hækka rakastigið nokkuð og plönturnar fá líka skugga hver af annarri.

Þegar kemur að vökvun pottaplantna er helsta reglan sú að þar gildir engin regla, önnur en að vökva hvorki of mikið né of lítið.

Vökvun og næring

Þegar kemur að vökvuninni er helsta reglan að þar gildir engin regla, önnur en að vökva hvorki of mikið né of lítið. Blómapottar í beinni sól geta þornað mjög hratt. Ræktandinn þarf að fylgjast með jarðrakanum, t.d. með því að athuga með fingri hvort moldin sé rök í tveggja sentímetra dýpt eða svo. Einnig gefur þyngd pottsins til kynna hvernig ástatt er. Plöntur með þykk og leðurkennd lauf og stöngla eru líklegar til að þola meiri þurrk en þær sem hafa þunn og stór lauf. Blómstrandi plöntur mega ekki þorna. Plöntur sem standa í leirpottum þorna mun hraðar en séu þær í plastpottum.

Ef ekki eru notaðar skálar undir blómapottana þarf að hafa þær í pottahlíf til að auðvelda vökvun. Dökkleitir pottar og pottahlífar geta tekið til sín mikinn hita frá beinni sól og er hætt við að ræturnar skemmst þess vegna.

Pottaplönturnar þurfa ekki á áburðargjöf að halda nema frá vori og fram á haust. Flestir nota fljótandi pottaplöntuáburð. Auðvitað skiptir máli hvaða tegund ræktuð er, en rétt er að varast of mikla áburðargjöf. Farið eftir leiðbeiningum á umbúðunum og notið jafnvel heldur minna af áburði en þar er gefið upp. Plöntur í miklum vexti má vökva með áburðarblöndu við hverja vökvun, aðrar þurfa aðeins næringu í annað eða þriðja hvert sinn sem vökvað er.

Sumarleyfið

Í sumarfríinu er gott að eiga góðan nágranna til að vökva plönturnar. Að öðrum kosti er hægt að koma plöntunum fyrir á skuggsælum stað, vökva þær hraustlega og hafa hitastigið í lægra lagi. Flestar plöntur þola vel að hafast við vel vökvaðar í gluggalausu herbergi í 1-2 vikur án þess að láta verulega á sjá.

Skylt efni: pottaplöntur

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...