Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Eldiviði fagmannlega staflað til þurrkunar.
Eldiviði fagmannlega staflað til þurrkunar.
Mynd / Pétur Halldórsson
Á faglegum nótum 17. febrúar 2025

Eldiviður og eldiviðargerð

Höfundur: Pétur Halldórsson kynningarstjóri.

Eldiviður er mikilvægur hluti af viðarnytjum. Eftir því sem skógum Íslands hnignaði þurfti þjóðin að reiða sig á annað brenni. Sums staðar var rekaviður fáanlegur og hrísi var safnað í eldinn líka. Tað og mór varð þrautalendingin þótt hvorugt væri fyrirtaksefni í eldinn. Þekkingin á eldiviðargerð glataðist.

Nágrannaþjóðir okkar í Skandinavíu hafa haldið þeirri þekkingu betur en við. Af þeim lærum við nú. Með vaxandi skógum á Íslandi hefur orðið til ný orkuauðlind í formi eldiviðar. Sömuleiðis er farið að vinna úr viðnum sérstaka viðarköggla eða -perlur sem byrjað er að nýta í nokkrum mæli sem orkugjafa, bæði til upphitunar og raforkuframleiðslu. Athyglisvert er að nefna að við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað er viðarkyndistöð sem fer í gang ef rafmagn fer af spítalanum. Rafmagnið er framleitt með íslenskri viðarorku en ekki innfluttri dísilolíu. Það eru jákvæð orkuskipti. En þetta er útúrdúr. Áfram með eldiviðinn.

Mikilvægt er að vinna eldivið rétt, saga í réttar stærðir, kljúfa, þurrka, geyma og líka að kveikja upp. En hvað er svona flókið? Er ekki nóg að höggva eða saga við og henda í eldinn? Nei, svo er nú aldeilis ekki. Til þess að vel gangi skiptir miklu máli að standa rétt að öllum þáttum í ferlinu. Með réttum aðferðum fáum við eldivið sem brennur hreinum bruna með litlum reyk og sóti en góðum hita. Þetta er ekki flókið eða erfitt. En ef rétt er að farið uppskerum við ríkulega og gleðin við að nýta eldiviðinn verður meiri.

Í fyrsta lagi er gott að huga að trjátegundinni sem ætlunin er að nýta í eldivið. Almennt er þægilegast að notast við eldivið úr lauftrjám eins og birki, ösp og reyniviði, sérstaklega ef viðurinn er brenndur í opnum arni eða öðrum opnum eldstæðum. Viður af barrtrjám er ríkari af trjákvoðu sem gerir að verkum að hann brennur gjarnan með braki og brestum, jafnvel þannig að glóð getur spýst út úr eldstæðinu. Slíkur eldiviður er því hentugri í lokuðum eldstæðum. Sumir sækjast reyndar eftir snarkinu og þá er mjög gott að brenna til dæmis lerki sem brakar vel í og smellur.

Nútímaeldstæði eins og vandaðar kamínur eru yfirleitt búin búnaði sem er ekki með öllu óskyldur hvarfakútum í bílum og gerir að verkum að sótefni í reyknum brenna upp áður en þau komast upp úr reykrörinu og út í andrúmsloftið. Til þess að þessi búnaður geri sitt gagn er mikilvægt að eldiviðurinn sé vel þurr og hafi ekki náð að súrna eða fúna áður en hann þornaði. Þetta sama gildir raunar jafnvel þótt enginn hreinsibúnaður sé í eldstæðinu. Því hreinni sem eldiviðurinn er og því fljótar sem góður hiti næst upp, því hreinni og betri verður bruninn.

Við eldiviðarvinnsluna er því mikilvægt að nýta nýlega höggvinn við í stað þess að taka lurka úr stæðu sem legið hefur mánuðum eða misserum saman úti við. Best er að saga viðinn í hæfilega búta og kljúfa þá strax. Og hvers vegna kljúfum við eldiviðinn? Það er til þess að flýta fyrir að viðurinn þorni og koma í veg fyrir að hann taki að súrna og fúasveppur að vaxa inn í hann. Auk þess lokar viðurinn sér smám saman, æðarnar lokast eða falla saman, og það seinkar því að viðurinn þorni. Best er að vinna þessi verk síðla vetrar eða snemma vors. Þá nýtist sumarið til að þurrka viðinn úti við.

Þegar viðurinn hefur verið klofinn skiptir miklu máli að koma honum fyrir í eldviðarstæðu, helst þannig að ekki rigni eða snjói á eldiviðinn. Klofnum eldiviði í jafnstórum bútum er auðvelt að stafla þannig að loft leiki um hvern einasta bút. Þannig þornar hann jafnt og vel. Þegar eldiviðurinn er orðinn sæmilega þurr úti við er ekki verra ef aðstaða er til þess að láta hann fullþorna innandyra. Fólk sem gengur lengst í vandaðri eldiviðargerð hefur gjarnan tvær sams konar eldiviðargeymslur, aðra úti og hina inni. Ef jafnmörg og jafnstór hólf eru í þeim báðum er upplagt að fylla hólfin inni jafnóðum og þau tæmast og höggva nýtt í þau sem tæmast úti. Þannig er auðvelt að fylgjast með því hvaða eldiviður er þurrastur hverju sinni og bestur í eldinn.

Til uppkveikju er upplagt að nota hefilspæni en ekki er óalgengt að fólk noti dagblöð og annan pappír eða sérstaka kveikikubba sem keyptir eru í búð. Það sama gildir þó um uppkveikjuefnið og eldiviðinn. Best er að það sé líka sem hreinast efni og til dæmis er trjábörkur eða grannar trjágreinar ekki æskilegasta efnið til uppkveikju því þar getum við fengið alls konar efni og óhreinindi með sem sóta illa.

Skylt efni: viðarnytjar

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...