Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Solis XL 90 stendur upp úr þar sem framleiðandanum hefur tekist að koma fyrir flestum nauðsynlegum búnaði í nettum traktor á hagstæðu verði. Ekki skemmir fyrir að ytra útlitið er orðið smekklegt.
Solis XL 90 stendur upp úr þar sem framleiðandanum hefur tekist að koma fyrir flestum nauðsynlegum búnaði í nettum traktor á hagstæðu verði. Ekki skemmir fyrir að ytra útlitið er orðið smekklegt.
Mynd / ál
Vélabásinn 16. janúar 2025

Eftirminnilegustu tæki ársins

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Á síðasta ári voru 22 tæki tekin fyrir í Vélabásnum hjá Bændablaðinu. Hérna verður litið yfir farinn veg og rifjuð upp þau tæki sem stóðu upp úr á einn eða annan hátt.

Viðfangsefni Vélabássins á síðasta ári voru níu fólksbílar, sjö jeppar eða jepplingar, tveir vinnubílar, tvær dráttarvélar, eitt fjórhjól og einn lyftari. Stærsta viðfangsefnið var Massey Ferguson 5S 135 dráttarvél á meðan það minnsta var Can-Am Outlander fjórhjól. Öflugasta farartækið var Tesla Model X Plaid með 1.020 hestöfl.

Indverskt landbúnaðartæki

Af þeim vinnuvélum sem voru prufaðar stóð Solis XL 90 dráttarvélin upp úr. Ekki vegna þess að hún er byltingarkennd, heldur þar sem þetta er fullvaxinn 90 hestafla traktor með öllu því sem flestir þurfa á verði sem er betra en gengur og gerist. XL 90 er nógu stór og öflug til að koma til greina í landbúnaðarstörf og vera spennt fyrir mörg nútímaheyvinnutæki.

Þessi dráttarvél fór langt fram úr hóflegum væntingum undirritaðs, en hið indverska vörumerki Solis er helst þekkt fyrir smátraktora sem henta fyrir bæjarstarfsmenn og hobbíbændur. Því olli hið hráa ökumannshús og ódýra sæti engum vonbrigðum, heldur jók það á karakterinn. Upplifunin af notkun Solis XL 90 er á margan hátt sambærileg og af notkun dráttarvéla frá árunum 1980–2000, nema hér er á ferðinni ný og óslitin græja.

Tesla öflug í öllum samanburði

Sá fólksbíll sem kom best út úr prófunum var Tesla Model 3 og á undirritaður ekki erfitt með að skilja hinar miklu vinsældir þessara bíla hér á landi. Fjölmargir nýir bílar eru vel skrúfaðir saman, uppfullir af búnaði, með stór batterí og ánægjulegir í akstri. Það sem Tesla tekst umfram hina er að bjóða þetta allt á sérlega samkeppnishæfu verði. Vegna þessa hefur undirritaður ósjaldan gripið til þess að bera önnur viðfangsefni saman við Tesla, en bílar sem eru markaðssettir sem ódýrir reynast oft vera ansi nálægt Model 3 í verði.

Sá bíll sem var tekinn til prufu er af uppfærðri útfærslu sem kom á markaðinn í lok þarsíðasta árs. Miðað við upphaflegu útfærsluna af Tesla Model 3 er þessi komin með mýkri fjöðrun, öflugri hljóðeinangrun og fallegra útlit. Helsta atriðið sem hægt er að gagnrýna er brotthvarf hefðbundinnar stangar fyrir stefnuljós, sem framleiðandinn er búinn að skipta út fyrir takka í stýrinu.

Tesla Model 3 er með öll þægindi og stórt batterí á verði sem er öflugt í flestum samanburði.

Einfaldur og ódýr harðjaxl

Í hinum margræða og vinsæla flokki jeppa og jepplinga voru flest farartækin í Vélabásnum lúxusbílar hugsaðir til borgaraksturs. Eftirminnilegasti jepplingurinn er hins vegar einfaldi og ódýri harðjaxlinn Dacia Duster. Eldri kynslóðir þessarar bílategundar hafa verið í miklu uppáhaldi hjá bílaleigum þar sem ökutækin þola ágætlega að láta ævintýragjarna erlenda ferðamenn þjösnast á sér.

Nýi Dusterinn er ekki síður öflugur í torfærum og hæðin undir lægsta punkt á pari við Toyota Land Cruiser. Bíllinn er með öll nauðsynleg þægindi, smekklega innréttingu og rúmgóð sæti. Nýi Dusterinn er jafnframt orðinn aðlaðandi að utan og þurfa kaupendur ekki lengur að fórna útlitinu til að fá alla þá eftirsóttu eiginleika sem bíllinn hefur að bera.

Ný kynslóð Dacia Duster kom í lok síðasta árs.

Sjálfkeyrandi kerra

Sá vinnubíll sem er eftirminnilegastur í huga undirritaðs er Piaggio Porter pallbíllinn. Þessi bíll er lítill en samt sem áður með sérstaklega rúmgóðan og nytsamlegan pall. Því nær framleiðandinn með því að vera með lítið frambyggt ökumannshús þar sem eini lúxusinn er útvarp og rafdrifnar rúður. Þessi ítalski vinnubíll er hrár í allri notkun og umgengni, en uppfullur af karakter og er hressandi að snattast á honum innanbæjar.

Eitt það sérstakasta við Piaggio Porter er að hann er útbúinn bensínvél, ólíkt flestum vinnubílum sem ganga fyrir dísilolíu. Þessi orkugjafi er hins vegar alls ekki slæmur kostur, þar sem bensínvélar eru ódýrar og léttar ásamt því að vera lausar við viðkvæmar sótsíur sem geta bilað ef ökutækin eru aldrei notuð í lengri ferðir.

Pallbíllinn Piaggio Porter er eitt einfaldasta ökutækið sem fáanlegt er á Íslandi.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...