Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Eftirlit með velferð búfjár
Af vettvangi Bændasamtakana 25. nóvember 2024

Eftirlit með velferð búfjár

Höfundur: Katrín Pétursdóttir, lögfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands.

Tilgangur þessarar greinar er að varpa ljósi á þau úrræði sem eftirlitsaðili hefur fyrir hendi til þess að bregðast við broti umráðamanna dýra við lögum. Það er gert til að knýja fram úrbætur ef aðstæður og aðbúnaður dýra er ófullnægjandi og ekki í samræmi við lög og reglur.

Katrín Pétursdóttir

Í athugasemdum við frumvarpi til laga um velferð dýra segir að margvísleg rök séu fyrir því að styrkja ekki framleiðslu landbúnaðarafurða þar sem brotin eru ákvæði er varða velferð dýra. Sem dæmi má nefna eiga neytendur til að mynda almennt ekki kost á að sniðganga afurðir frá þeim búum þar sem lögum eru ekki fylgt.

Endurskoðun laga um velferð dýra árið 2008

Árið 2008 var nefnd skipuð til að koma með tillögu að endurskoðun þágildandi laga. Markmiðið með endurskoðun laganna var meðal annars að stjórnsýsla og eftirfylgni mála á sviði dýraverndar yrði skilvirk og sem einföldust í framkvæmd. Þörf var á að kanna hvort endurskoða þyrfti þvingunarúrræði og viðurlög laganna.

Fyrir gildistöku laga nr. 55/2013 um velferð dýra var stjórnsýsla dýraverndar í höndum umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Umhverfisstofnunar en framkvæmd búfjáreftirlits á vegum sveitarfélaga. Með nýrri heildstæðri löggjöf var ætlunin að eitt ráðuneyti færi með forsjá löggjafarinnar og Matvælastofnun færi með framkvæmd málaflokksins. Tilgangur eftirlits Matvælastofnunar er eftirlit með velferð búfjár. Það er hlutverk Matvælastofnunar samkvæmt lögum að fara meðal annars með stjórnsýslu og eftirlit í samræmi við lög. Til þess að stofnunin geti uppfyllt lagaskyldu sína er henni veitt heimild samkvæmt lögum til að fara á hvern þann stað þar sem dýr eru haldin og kanna aðstæður þeirra og aðbúnað og við beitingu þvingunarúrræða.

Víðtækari þvingunarúrræði tekin upp

Þau þvingunarúrræði sem voru til staðar fyrir endurskoðun laganna fólust fyrst og fremst í því að kæra brot til lögreglu eða beita vörslusviptingu. Þau þvingunarúrræði sem eru til taks í dag eru mun víðtækari og fjölbreyttari og er eftirlitsaðila færð í hendur aukin úrræði vegna brota á ákvæðum laga. Brotin sem um ræðir geta talist minni háttar og því geta úrræði eins og krafa um úrbætur dugað til að úr sé bætt. Reglur sem um starfssemina gilda eru fjölbreyttar og því eru fjölbreyttari heimildir fyrir eftirlitsaðila til að bregðast við ólíkum brotum eftir eðli og alvarleika.

Það skuli ávallt gert í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sem kveður á um að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Þess skuli gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Núgildandi þvingunarheimildir Matvælastofnunar

Samkvæmt núgildandi lögum er Matvælastofnun heimilt að beita margvíslegum þvingunarúrræðum svo stofnunin framfylgi lögbundnu hlutverki sínu.

Matvælastofnun er heimilt að takmarka eða stöðva starfsemi þegar um alvarlega tilvik eða ítrekað brot er að ræða. Jafnframt ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests.

Heimilt er að beita dagsektum gagnvart umráðamanni, að hámarki kr. 100.000,- á dag. Aðila sem ákvörðun um dagsektir beinist að skuli vera veittur sjö daga frestur til að koma að skriflegum andmælum áður en dagsektir eru ákvarðaðar. Dagsektir eru aðfararhæfar og má innheimta með fjárnámi. Undirrituð hvetur því umráðamenn til þess að bregðast fljótt við ef dagsektum er beitt. Stærri gulrót er þó að útistandandi dagsektir falla niður ef umráðamaður dýra hefur bætt á fullnægjandi hátt úr aðstæðum og aðbúnaði dýra innan fimm virkra daga frá ákvörðun um dagsektir.

Eftirlitsaðila er heimilt að gera kröfur um úrbætur. Matvælastofnun er einnig heimilt að láta vinna úrbætur á kostnað umráðamanns ef hann skipast við tilmæli stofnunarinnar.

Matvælastofnun er heimilt að taka ákvörðun um að svipta umráðamann dýra vörslu þeirra, ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests. Stofnunin ákveður hvort dýrin skuli flutt burt eða þeim haldið þar sem þau eru. Matvælastofnun er jafnframt heimilt að láta aflífa dýr sem stofnunin hefur umráð yfir vegna vörslusviptingar að liðnum tveimur sólarhringum takist stofnuninni ekki né eiganda að finna viðeigandi aðstæður eða aðbúnað fyrir dýr. Fjallað er ítarlega um vörslusviptingu í lögunum enda er um veigamikið inngrip að ræða í stjórnarskrárvarin réttindi umráðamanns, þ.e. atvinnuréttindi og eignarréttindi.

Matvælastofnun er heimilt, telji stofnunin það nauðsynlegt, að svipta umráðamann heimild til þess að hafa eða sjá um dýr þar til úrbætur hafa verið gerðar eða dómur fallið. Það getur stofnunin gert fyrirvaralaust og til bráðabirgða.

Mikilvægt er að hafa í huga að heimilt sé að krefja umráðamann dýra og aðila sem er ábyrgur fyrir starfsemi sem lögin ná til um endurgreiðslu kostnaðar vegna úrræðanna sem Matvælastofnun framkvæmir í einhverjum tilfellum.

Þá er Matvælastofnun heimilt að leggja stjórnvaldssektir á mann eða lögaðila sem brýtur gegn ákvæðum laganna og þeim stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra. Sektirnar geta numið frá kr. 10.000,- til 1 milljón króna. Skiptir þá ekki máli hvort brot séu framin af ásetningi eða gáleysi.

Matvælastofnun er heimilt að svipta leyfishafa leyfi sem gefið er út verði hann ítrekað uppvís að því að vanrækja skyldur sem á honum hvíla samkvæmt lögunum.

Jafnframt er kveðið á um refsiábyrgð, þ.e. það varðar mann sektum eða fangelsi allt að einu ári við brotum á ákveðnum ákvæðum laganna.

Stjórnsýslulög

Matvælastofnun ber að fylgja stjórnsýslulögunum í hvívetna þegar þvingunarúrræði er beitt og er bundið af þeim reglum. Þær helstu reglur sem Matvælastofnun ber að fylgja fela í sér að allar ákvarðanir verða að byggja á lögum, skylda að veita almenningi nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess, rannsaka mál nægilega vel áður en ákvörðun er tekin og meðhöndla alla borgara á jafnan hátt. Þessar reglur kallast lögmætisreglan, leiðbeiningarskylda stjórnvalda, rannsóknarreglan og jafnræðisreglan.

Þau réttindi sem almenningur hefur í samskiptum við stjórnvöld er m.a. réttur til að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína og andmælaréttur, sem felur í sér að einstaklingur fái tækifæri til að tjá sig um mál áður en stjórnvöld taka endanlega ákvörðun sem hefur áhrif á hann. Vísast til greinar minnar um samskipti við stjórnvöld sem birt var í 15. tölublaði Bændablaðsins árið 2024 þar sem reglur þessar eru betur útskýrðar.

Aðila máls er einnig heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt, enda sé það gert innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Aðili máls á jafnframt rétt á endurupptöku máls að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, það er ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Undirrituð hvetur félagsmenn BÍ að hafa samband við Bændasamtök Íslands ef þeir telja að Matvælastofnun sé ekki að fylgja lögunum.

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f