Drápin í Hruna
Snemma í ágúst 1539 stóð Diðrik frá Minden á bakka Ölfusár, nýkominn að landi á Kotferju í Sandvíkurhreppi, og fékk hugmynd. Hann hafði riðið frá Bessastöðum með flokk manna austur á bóginn hinn 5. ágúst og virðist hafa sett stefnuna á klaustrin í VesturSkaftafellssýslu, nunnuklaustrið á Kirkjubæ og Ágústínusarklaustrið í Þykkvabæ í Álftaveri. Áður hafði hann í krafti valds síns sem umboðsmaður hirðstjóra Kristjáns þriðja á Íslandi leyst upp munklífið í Viðeyjarklaustri og sett jarðir og eignir þess undir krúnuna. En nú stóð hann á syðri bakka Ölfusár og gaf mönnum sínum nýjar skipanir. Tveir úr hópnum, Peter Spons og ungur piltur sem með Diðriki var, skyldu ríða í Odda á Rangárvöllum og bíða þar eftir honum. Sjálfur ætlaði hann með menn sína í Skálholt að finna biskupinn, Ögmund Pálsson. Svo myndu þeir halda áfram austur.
Glampar af atgeirum
Ögmundur Pálsson hafði vígst til biskups í Skálholti 1521, þá 45 ára gamall eða þar um bil. Eftir að hafa setið á biskupsstóli í tæp fimmtán ár fór heilsu hans að hraka og varð honum helst til baga að hann missti sjónina. Diðrik frá Minden virðist hafa metið stöðuna þannig að biskup væri svo feyskinn og sjóndapur að hann myndi ekki geta mannað sig upp í mótspyrnu við sitt harðsnúna lið. Komu Diðrik og menn hans sér fyrir á staðnum og sagt er að þeir hafi tjaldað í portinu framan við eina bestu vistarveru staðarins, „timburstofuna“, og þar sátu þeir að sumbli undir vopnum. Voru þeir þarna í þrjá daga og virðast lítið annað hafa haft fyrir stafni en að troða í sig stólskræsingar og kneyfa öl. Biskup bað þá um að fara, þeir gætu fengið nóg nesti, „vín, mjöð og bjór“, en Diðrik ansaði því ekki.
Á meðan þessu fór fram smalaði ráðsmaður Skálholtsstaðar, Jón Héðinsson, prestur í Hruna, saman landsetum stólsins, „kotungunum“ sem ein heimildin kallar svo, og vopnaði þá. Á Lárentíusarmessu, 10. ágúst 1539, undirbjó hópurinn sig fyrir átökin. Til að efla baráttuandann lét Jón Hrunaprestur slá krana í tvær bjórtunnur og skenkja staðarmönnum. Nú voru þeir farnir aðeins að kippa og ruku því ýmist upp á garðinn umhverfis portið við timburstofuna eða fóru gegnum sjálfar portdyrnar. Varð Diðrik var við lætin og sá blika á uppáhaldsvopn Íslendinga á 16. öld, atgeirinn, eða það sem Diðrik og lágþýsk baráttusveit hans kallaði „hellebarde“ og var eins konar sambland kesju og axar og með beittum, oftast tvíeggja, króki aftan úr axarblaðinu. Málaliðasveitirnar sem óðu um Evrópu í trúarbragðastríðum 16. aldar voru allar sem ein vopnaðar „hellebarde“ sem framleiddir voru í ýmsum útgáfum, oftast einföldum og praktískum til manndrápa, en einnig með miklu ornamenti og pírumpári til að sýnast og mikla sig. Þessi vopn virðast hafa verið til á öllum betri heimilum á Íslandi á 16. öld.
Diðrik vissi að það eina sem dugði á vaska fótgöngusveit vopnaða atgeirum var að skjóta á hana úr byssum en því miður voru byssurnar og púðrið í tjaldinu frammi í porti en ekki inni í timburstofunni. Sendi hann því tvo menn skjótt út að sækja skotvopnin. Þeir gengu beint í flasið á Skálholtsliðum sem skáru niður tjaldið svo erfitt var að komast þangað inn og réðust svo á mennina og stungu þá til bana af miklu offorsi.
Við vitum hvað Diðrik hafðist að inni í timburstofunni því þar var einn af Skálholtsmönnum að uppvarta. Reyndi hann með slóttugheitum að lempa Diðrik þegar Diðrik sá blika á vopnin og sagði að biskupinn hefði skvett öli í sveinana Bessastaðamönnum til heiðurs og þeir hrópuðu nú heillaóskir. Tveir dauðir menn í portinu sýndu hins vegar og sönnuðu að svo var ekki og ætlaði Diðrik umsvifalaust að drepa uppvartarann þegar hann áttaði sig á stöðunni, en Skálholtsmaðurinn slapp með því að svipta af sér kápu sem hann var í og fleygja henni á árásarmennina. Á hæla honum kom síðan hestasveinn Bessastaðamanna, Ólafur að nafni, sem freistaði þess að bjarga lífinu og reyndi að kjafta sig út úr vandræðunum með því að höfða til þjóðerniskenndarinnar: „Lofið mér liðugan gang, bræður mínir, því ég er íslenskur sem þér.“ Því var svarað með vel völdum orðum um að hann gæti eins fylgt hinni lágþýsku sveit Danakonungs dauður sem lifandi og var rekinn í gegn með einum „hellebardinum“.
Nú skutu Bessastaðamenn slagbröndum fyrir allar dyr og vonuðust til að verja líf sitt umkringdir og ofurliði bornir. Þrátt fyrir að vera uppbelgdir af bjór megnuðu Skálholtsmenn ekki að brjóta upp dyr á timburstofunni fyrr en heljarmenni eitt hóf upp bjarg, skutlaði því á hurðina og braut hana í spón. Ruddist nú liðið inn og voru Bessastaðamenn fljótt yfirbugaðir og drepnir. Lengst varðist Diðrik sjálfur en hafði þó ekki annað sér til varnar en disk og „stikkhníf“ sem hann hafði notað til að skera ofan í sig Skálholtsmatinn. Bóndasonur úr Grímsnesinu, uppnefndur Jón refur eða rebbi, náði að húkka króknum á atgeirnum í herðablaðið á Diðriki, fella hann þannig í gólfið og toga til sín. Rebbinn skutlaði síðan skaftinu á atgeirnum út um glugga á stofunni til að ná sem bestri sveiflu og rak hann svo á kaf milli herðablaðanna á Diðriki svo hryggurinn hrökk í sundur.
Einn af mönnum Diðriks komst lífs af, unglingspiltur úr hertogadæmunum, Jakob að nafni. Hann hafði falið sig undir borði og var honum þyrmt og er sagt að hann hafi síðan orðið heyrari við latínuskólann í biskupstíð Marteins Einarssonar.
Diðrik biður að heilsa
Enn biðu þeir Peter Spons og félagi hans í Odda. Einhverra hluta vegna hugnaðist herstjórnanda Skálholtsstaðar, Jóni Héðinssyni, ekki að fara að þeim þar, heldur sendi hann vinnumann í Odda með þá orðsendingu að Diðrik biði félaga sinna heima hjá Jóni í Hruna. Diðrik ætlaði nefnilega að ríða yfir Kjöl og heimsækja Hólastað í kjölfar árangursríkrar ferðar í Skálholt. Þeir þorðu ekki annað en hlýða og fáeinum dögum síðar riðu þeir í garð í Hruna og tjölduðu ofan við bæjarhúsin, nyrst í túninu. Væntanlega hefur verið nýbúið að hirða það og því þægilegt að tjalda.
Að sjálfsögðu heimtuðu þeir öl og mat. Hvert sem þessir lágþýsku piltar fóru ruku þeir beint í að éta og drekka bjór. Það var veitt og síðan lagði Peter sig í tjaldinu, þreyttur eftir reiðina og átið en lét sveininn halda vörð. Jón Héðinsson hafði skipað sínum mönnum að fela sig uppi á Hrunanum og nú ruddust þeir niður á túnið tólf saman. Drengurinn hristi Pétur sem náði að komast út úr tjaldinu og grípa spjót. Hann varðist síðan fimlega þeim sem fyrstur óð í hann en þá bar þar að Jón nokkurn Önnuson sem greip öxi og grýtti henni beint í hausinn á Pétri og á að hafa hrópað í leiðinni: „Diðrik bað að heilsa þér!“
Reyndi Pétur nú að hlaupa í kirkjuna í von um grið. Þetta sá heimilisfólkið í Hruna sem þennan dag var að bera upp hey í þurrkinum. Ruddist ráðsmaðurinn í Hruna á fullri ferð fram bæjarhlaðið, inn í kirkjugarðinn og kom á móti Pétri í sáluhliðinu. Hélt hann honum þar en flokkinn bar óðar að og var Pétur drepinn þar við hliðið.
Drengurinn hljóp hins vegar í hina áttina, í vestur frá norðurtúninu og út í mýrarnar þar sem heitir Lokaflóð. Elti hann einn af Skálholtsmönnum, Sigurður Bernharðsson, ættaður úr Grímsnesi, og náði honum þar. Bað drengurinn ýmist griða eða formælti Sigurði og sagði að hann myndi hljóta sömu örlög, að verða myrtur og hljóta hvorki grið né sakramenti. Var þessi lágþýski drengur svo lagður í gegn þarna í mýrinni. Líkin voru husluð norður í Hrunalandi, langleiðina úti við Litlu-Laxá, ef einhver kærir sig um að leita þeirra.
