Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
DNA-táknmyndir í WorldFeng
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 28. desember 2015

DNA-táknmyndir í WorldFeng

Höfundur: Pétur Halldórsson, hrossaræktarráðunautur. Ráðgjafarmiðstöð land­búnaðarins
Í WorldFeng, upprunaættbók íslenska hestsins, eru ýmsar upplýsingar sýndar með táknmyndum á grunnsíðu hvers grips. 
 
Í sjónhendingu má því sjá á grunnsíðunni hvaða upplýsingar eru til um viðkomandi grip. Nokkur þessara tákna tengjast DNA-sýnum. Til útskýringar á þessum táknum er þetta að segja og vert fyrir hrossaræktendur að þekkja:
 
DNA Táknar að DNA-stroksýni hafi verið tekið úr hrossinu en greiningu er ekki lokið og/eða, sem er afar fátítt, að ekki hafi tekist að greina neitt úr sýninu (sýnataka hefur misfarist). Ef smellt er á flipann DNA/Blóð fyrir ofan grunnmyndina má m.a. sjá númer DNA-sýnis, sýnatökuaðila, dagsetningu sýnatöku auk skýringartexta (DNA-greining í vinnslu). Ef aðeins þetta tákn kemur fram og liðinn er vel ríflega mánuður frá sýnatöku er ljóst að einhverjir hnökrar eru í ferlinu, s.s. að sýnatökumaður hefur ekki skilað sýninu inn til greiningar eða sem fyrr segir að sýnið reyndist ónýtt. Í þessu samhengi þá greinir þekkingarfyrirtækið Matís öll innkomin sýni a.m.k. innan mánaðar nema sérstaklega sé óskað meiri hraðmeðferðar sem er kostnaðarsamari en hefðbundið ferli.
 
Táknar að sýnið hafi verið greint og niðurstöður liggi fyrir. Ef engin sýni eru fyrirliggjandi úr skráðum foreldrum gripsins birtist eftirfarandi texti undir DNA/blóð-flipanum: Ekki hægt að sanna ætterni þar sem sem DNA greining fyrir foreldra er ekki til.
 
 
 
 
Táknar að greint sýni liggi fyrir og að samkvæmt sjálfvirkum samanburði W-Fengs, við sýni úr skráðum föður, mæli ekkert gegn því að föðurætt sé rétt. 
Táknar að greint sýni liggi fyrir og að samkvæmt sjálfvirkum samanburði W-Fengs, við sýni úr skráðri móður, mæli ekkert gegn því að móðurætt sé rétt.
 
 
Táknar að greint sýni liggi fyrir. Enn fremur að samkvæmt sjálfvirkum samanburði W-Fengs, við sýni úr skráðum foreldrum, mæli ekkert gegn því að ætterni sé kórrétt.
 
 
 
 
Táknar að blóðsýni sé til úr gripnum, varðveitt á Tilraunastöð HÍ að Keldum.
 
 
 
 
 
Afar mikilvægt er að eigendur/ræktendur fylgist með framgangi sýnavinnslunnar og niðurstöðum greininga sinna hrossa. Ef til að mynda niðurstaða er komin í greiningu á folaldi fæddu 2015, sem á skráða og DNA-greinda foreldra, en engin sönnunartákn birtast (? / ?) – þá er ljóst að eitthvað er athugavert við ætternisskráninguna. Textinn sem WorldFengur birtir í slíkum tilfellum er eftir málsatvikum: DNA-greining er í skoðun / Ætterni (faðir) til skoðunar / Ætterni (móðir) til skoðunar. Ráðunautar á hrossaræktarsviði RML eru boðnir og búnir að liðsinna og aðstoða ræktendur við að rekja málin upp og leiðrétta þegar svona er ástatt. Þá annast starfsmenn RML DNA-stroksýnatökur og örmerkingar vítt og breitt um landið. Nánar um það og arfgerðargreiningar hrossa almennt m.a. hér: http://www.rml.is/is/bufjarraekt/hrossaraekt/dna-synatokur. 
 
Algengustu orsakir, í þeim annars fátíðu málum, þar sem skráðri ætt og niðurstöðu DNA-sýnis ber ekki saman eru: 1) Móðir var hjá tveimur stóðhestum sumarið fyrir fæðingu gripsins sem um ræðir og rangur hestur er skráður faðir. 2) Hryssur hafa víxlað folöldum við köstun (sjaldgæft en þekkist vel) eða koma með röng folöld heim úr stóðhestagirðingum. Í því samhengi má sérstaklega árétta það verklag að hryssur og folöld fari aldrei í stóðhestagirðingar öðruvísi en tryggilega örmerkt.
 
Hrossaeigendur og notendur W-Fengs eru sérstaklega hvattir til að yfirfara skráningar um hross sín reglulega s.s. skrá eigendaskipti, leiðrétta afdrif ef hross hafa farist (afdrif gripa sem fara í sláturhús skrást sjálfkrafa samkvæmt gögnum sláturhúsa), yfirfara skráða liti hrossa og nafngiftir, líta til með hvort fang hefur verið skráð á hryssur (gegnum stóðhestaskýrslu eða fyljunvarvottorð), hafa upplýsingar um örmerkingu eða geldingar skilað sér til skráningar og svo mætti áfram telja. Þá er og mikilvægt að upplýsingar um aðsetur, símanúmer og tölvupóstföng eigenda og ræktenda séu í takt við tímann.
 
Í heimarétt notenda W-Fengs má framkvæma allar áðurnefndar aðgerðir. Þar eru fleiri möguleikar í boði s.s. að setja inn myndir af hrossum en góð mynd segir oft meira en mörg orð og sjálfsagt að hvetja fólk til að nota þennan möguleika í ríkari mæli. Þá er einnig sá valkostur að tengja heimasíðu viðkomandi aðila við öll hross sem tengjast kennitölunni. Nú fara í hönd spennandi vetrarmánuðir í tamningum og þjálfun. Til að glöggva sig á og velja úr fjölbreytilegum feðrum komandi kynslóða er Valpörunin skemmtileg upplýsingaveita m.a. um væntanlega kynbótaspá/kynbótamat verðandi afkvæmis valinna foreldra, skyldleikaræktarstuðul og mögulega liti.
 
Pétur Halldórsson, 
hrossaræktarráðunautur.
Ráðgjafarmiðstöð
land­búnaðarins
petur@rml.is 
Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...