Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Morten og Camilla, eigendur Nortra-tractors.
Morten og Camilla, eigendur Nortra-tractors.
Mynd / Morten Nørregaard Andersen
Á faglegum nótum 18. september 2025

Danskar dráttarvélar!

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Það eru líklega ekki margir Íslendingar sem þekkja fyrirtækið Nortra Tractors, en fyrirtækið er afar merkilegt fyrir þær sakir að þetta er danskur dráttarvélaframleiðandi! Fyrirtækið er í eigu ungra frumkvöðla, hjónanna Morten Nørregaard Andersen og Camilla Seeta Nørregaard Andersen. Fyrirtækið, sem er með höfuðsetur í Hillerød á Sjálandi, fagnaði 10 ára afmæli fyrr á þessu ári og er nú að færa út kvíarnar í Afríku og stefnir á það að verða sterkasta vörumerkið í dráttarvélum í Nígeríu á komandi árum!

Ólst upp innan um vélar

En hvernig stendur á því að danskur frumkvöðull ákveður að fara út í framleiðslu dráttarvéla? Morten varð fyrir svörum og gat þess að hann hafi alist upp innan um vélar og tæki sem hafa alla tíð átt hug hans allan. Hann var reyndar með mörg járn í eldinum og í margs konar ólíkri frumkvöðlastarfsemi áður fyrr en komst að því að það var þörf fyrir norrænt dráttarvélamerki á markaðinum fyrir dráttarvélar sem væru einfaldar að gerð en traustar. Fyrir svona vélar væri þörf og sérstaklega þegar horft er til afríska markaðarins sem væri í mikilli sókn. Hann losaði sig því við önnur verkefni og einbeitti sér að því að byggja upp dráttarvélahluta fyrirtækisins. Með þetta að leiðarljósi fór hann af stað í þá vegferð sem hann og kona hans eru nú komin vel á veg með.

Nortra framleiðir í dag 16 ólíkar gerðir dráttarvéla, allt frá smáum upp í stórar. Mynd / Nortra-Tractors.
Eigin dráttarvélalína!

Morten henti sér sem sagt út í djúpu laugina og í samkeppni við stóru og heimsþekktu dráttarvélaframleiðendurna með því að hanna sína eigin dráttarvélalínu. Svo fékk hann ólíka framleiðendur íhluta með sér í lið sem framleiða ólíka íhluti í dráttarvélarnar frá Nortra og svo sér fyrirtækið sjálft um að raða öllu saman. Aðspurður um það hvernig maður fari nú að því að fara út í framleiðslu dráttarvéla sagði Morten: „Í raun getur hver sem er selt eða smíðað dráttarvél, en vandi getur verið að gera vél sem þarf lítið að viðhalda og endist lengi. Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á lúxusbílum og þeim gæðum sem fylgja þeim, þá tilfinningu vildi ég færa áfram í vélarnar okkar. Það er að segja að þegar einhver velur vöru frá Nortra, þá vil ég að viðkomandi fái sömu tilfinningu og þegar hann kaupir lúxusbíl.“ Hér er Morten að vísa til gæðanna, þar sem dráttarvélarnar frá Nortra eru með stílhreina hönnun og einfalda smíði, gerðar sem vinnutæki með eins litlum aukabúnaði og mögulegt er, með áherslu á hágæða íhluti. Þó benti Morten á að það væri auðvitað hægt að fá vélar með meiri aukabúnaði ef óskað væri eftir því.

Frá 40–220 hestöfl!

Nortra-dráttarvélarnar sem eru framleiddar í dag eru frá 40 hestöflum að stærð og upp í 220 hestöfl og er fyrirtækið nú með 16 mismunandi útgáfur dráttarvéla. Í raun geta bændurnir valið hreinlega hvað þeir vilja því Morten segir að hann geti einfaldlega búið til dráttarvél eftir pöntun bónda og þá með þeim eiginleikum sem viðkomandi bóndi óskar eftir. Í dag er Afríka aðal markaðssvæði Nortra og þar eru aðstæður jafnólíkar og í öðrum heimsálfum. Þetta þýðir að ein lausn hentar alls ekki fyrir alla bændur enda aðstæður ólíkar, landgæði mismunandi o.s.frv. Því þarf að vera með sveigjanleika í dráttarvélaframboðinu. „Við horfum sérstaklega á hönnunina og öll smáatriði en fyrir okkur skiptir mestu að endingin og notkunareiginleikarnir séu í lagi. Þá fá bændurnir bestu nýtinguna út úr vélinni og lenda síður í tímatapi vegna bilana,“ sagði Morten.

Dráttarvélar fyrir afríska markaðinn eru oft einfaldar að gerð. Mynd / Nortra-Tractors
Veðja á Nígeríu

Eins og áður segir er það afríski markaðurinn sem Nortra-vélarnar eru fyrst og fremst hannaðar fyrir, enda hefur sá markaður hingað til mest verið nýttur fyrir notaðar vélar og hingað til ekki margir frumframleiðendur véla að koma sér fyrir í Afríku, a.m.k. ekki í norð-vestanverðri Afríku. „Við veðjum einfaldlega á þennan markað og ætlum okkur stóra sigra t.d. í Nígeríu. Vonandi verður okkar merki t.d. þekkt meðal nígerískra bænda innan fárra ára en það er sá markaður sem við horfum aðallega á í dag. Það eru þó fleiri lönd í bæði Vestur- og Austur-Afríku sem við ætlum okkur að ná árangri í eins og t.d. Gana, Líberíu, Keníu og Úganda. Við lítum svo á að okkar lausn geti skipt sköpum í Afríku og svona sveigjanleg lausn fyrir bændur, þar sem þeir geta valið um fjölbreyttar lausnir, hafa hreinlega ekki verið í boði þar áður. Þá erum við að skapa fjölmörg störf einnig, en við erum búin að koma okkur upp samsetningarverksmiðju í Enugu-fylki í Nígeríu, auk þess sem uppbygging á þjónustu við vélarnar okkar er í fullum gangi,“ sagði Morten.

Evrópskir staðlar

Það er alls ekkert einsdæmi að landbúnaðarvélar og tæki séu samsett með íhlutum frá ýmsum framleiðendum og frá mismunandi löndum og á það líklega við um nánast allar græjur sem seldar eru nú til dags. Morten segir að það sem skipti í raun mestu máli er hvernig er staðið að því að setja hlutina saman og í samsetningarverksmiðju Nortra sér fagfólk fyrirtækisins um að raða öllu rétt saman og tryggja að hlutirnir virki eins og þeir eiga að gera. Aðspurður sagði Morten að í gildi séu sérstakir evrópskir staðlar þegar komi að svona hlutum sem allar verksmiðjur í Evrópu þurfa að fylgja og hann notar sömu staðla í sinni verksmiðju, þó svo hún sé staðsett utan Evrópu.

Fagnar samkeppni

Leikmaður í þessum geira, líkt og greinarhöfundur gæti talist vera, gæti haldið að það væri næsta óklífanlegur veggur að takast á við stóru dráttarvélamerkin á markaðinum, merki eins og John Deere, MF og fleiri sem hafa verið í sölu um allan heim í áratugi. Aðspurður um það sagði Morten að dráttarvélamarkaðurinn væri einfaldlega þannig markaður að það væri pláss fyrir ný merki. „Ein af ástæðunum er sú að það vantar allt gegnsæi í markaðinn svo bændur fái raunverulega yfirsýn yfir það hvað dráttarvél kostar í raun.“ Þá bætti hann við að Nortra væri líka með virkilega hæft starfsfólk sem væri duglegt við að setja upp og aðlaga lausnir fyrir viðskiptavini fyrirtækisins. „Okkar sérstaða er einnig sú staðreynd að við höfum komið okkur upp aðstöðu í Enugu í Nígeríu, þar sem við höfum allt undir einu þaki. Frá þjálfun, varahlutum og vélunum okkar. Þarna er allt á einum stað og er gott dæmi um það hvernig við vinnum.“

Aðspurður um verðsamanburð við þekktari merki sagði Morten að þeirra verðlagning væri skarpari en samkeppnisaðilanna: „Aðrir framleiðendur eru sjaldnast með auglýst fast verð heldur einhvers konar leiðbeinandi verð sem skapar oft kolranga mynd af endanlegu verði. Við leggjum áherslu á gagnsæi og um leið að framleiða góðar lausnir í miklu magni og bjóða þannig upp á besta mögulega verðið sem hægt er á hverri vöru,“ sagði Morten.

Rafmagnsvél á leiðinni!

Nortra er í dag með bæði dráttarvélar á sínum snærum en einnig margs konar tengibúnað fyrir vélarnar og þá aðallega fyrir akuryrkju, enda mikil eftirspurn eftir slíkum tækjum í Afríku. Hingað til hafa allar vélar fyrirtækisins verið knúnar hráolíu en fyrirtækið hefði þó samhliða fylgst náið með þróun mála varðandi umhverfisvænni orkugjafa. Nú væru því í þróun tvær útgáfur af dráttarvélum frá Nortra sem verða knúnar rafmagni og er stefnt á afhendingu fyrstu véla þegar á næsta ári!

Hvað með Ísland?

Aðspurður um það hvort Nortravélar gætu mögulega komið til Íslands sagði Morten að allt væri hægt! Fyrirtækið hafi þegar selt dráttarvélar sínar í Evrópu í einstaka tilvikum og fyrir evrópska markaðinn væri þörfin fyrir vélar aðeins önnur. Hér koma til kröfur bænda um hús á dráttarvélunum svo dæmi sé tekið, sérstaklega eigi að nota vélarnar yfir köldu mánuðina. En Nortra sé með lausn fyrir slíkar þarfir: „Ísland er spennandi markaður og tækin okkar myndu klárlega henta þar einnig,“ sagði Morten að lokum!

Skylt efni: Nortra Tractors

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...