Dagur ljótu jólapeysunnar
Þriðja föstudag hvers desembermánaðar ár hvert klæðast margir bráðskemmtilegum og miður fögrum jólapeysum, sér og öðrum til mismikillar gleði.
Ekkert lát virðist vera á hugmyndum þeirra er hanna slíkar peysur og má því sjá einstaklinga í þeim oft prjónuðu voðaverkum á virðulegum skrifstofum, á bæjarrölti eða á samkundum af einhverju tagi. Unnendur tísku jafnt sem uppátektarsamur almenningur eru þarna til jafns og blygðast sín ekkert fyrir að klæðast sem mestum ófögnuði.
Jólapeysan svokölluð, hóf feril sinn sem tískuflík í kringum miðja síðustu öld en þökk sé síbreytilegum tískustraumum hefur hún – eins og hinn ýmsi fatnaður sem áður þótti viðunandi, eða jafnvel smart – ekki alltaf haldið þeim titli.
Segir sagan að peysan hafi upphaflega verið sett á markað í Bandaríkjunum undir nafninu Jingle Bell sweater. Var þá um að ræða aðeins smekklegri peysur en þær er tröllríða nú öllu, bæði er viðkom litavali og skreytingum – en áttu þó það sameiginlegt að minna á vetrartímann og jólahátíðina. Form hreindýra, jólatrjáa, skíðaiðkenda auk einstaka snjókarls þóttu vinsæl – mun látlausari en sú dýrð sem fram undan var.
Níundi áratugurinn
Tíska níunda áratugarins er hins vegar af mörgum talin uppspretta hinnar svokölluðu ljótupeysu, ef svo má að orði komast, en í sjónvarpsþáttum þess tíma mátti sjá úrval þeirra. Notaleg ímynd peysuklædda heimilisföðurins var í hámæli, en þó leið ekki á löngu þar til almenningi ofbauð peysutískan og hófu gárungarnir upp raust sína. Jólapeysur níunda áratugarins fóru þar ekki varhluta af enda gjarnan ofhlaðnar og áberandi.
Margir (þá helst þeir er búsettir voru í Bandaríkjunum) voru þó afar hrifnir af þessari stemningspeysu og drifu alla fjölskylduna í samstæða gleði. Jólakvikmyndir bíóhúsa sýndu hamingjusamar fjölskyldur í múnderingunni og máttu atvinnuljósmyndarar hafa sig alla við er kom að jólamynda- tökum fjölskyldna í samstæðu dressi enda toppaði slík eign allt, mikið stolt og gleði sem hægt var að planta á arinhilluna.
Eftir því sem árin liðu fór útlit svokallaðrar jólapeysu hratt halloka. Fólk sem enn hélt í þann sið að klæðast slíkum peysum varð aðhlátursefni og nokkur lægð varð á vinsældum hennar.
Upprisa hinnar ljótu
Í upphafi 21. aldarinnar var hins vegar haldin hátíð „Ljótu jólapeysunnar“ í Vancouverborg í Kanada.
Tilefnið var söfnun fyrir krabbameinsmeðferð og tókst svo vel til að bæði hófu menn þann sið að klæðast sem herfilegustum jólapeysum er fyrirfundust en einnig hófu aðrir að halda daginn sem allra hátíðlegastan. Fjáraflanir urðu vinsælar og til að mynda lét fyrirtæki Microsoft hanna fyrir sig afar ljóta jólalega peysu og seldi gestum sínum er sóttu viðburðinn, „Ljóta jólapeysan – söfnun fyrir háskólagöngu afburðanemenda.“ Var þá sú upphæð sem saman safnaðist nýtt í þágu nemenda sem stóðu sig vel, en sáu ekki fram á frekari skólagöngu vegna fjárskorts.
Frá því snemma á 20. áratugnum hefur því ljóta jólapeysan hlotið uppreisn æru og notið vafans á viðburðum eins og fjáröflunum, í vinnustaðapartíum og jafnvel jólaboðum heimahúsa.
Að klæðast ljótri jólapeysu þykir mörgum mikil skemmtan og verður víst að láta það fylgja hér með að árið 2010 tóku einhverjir tískurisanna það verkefni að sér að hanna slíka hátíðarlínu peysa.
Má þar nefna bæði Givenchy og Dolce&Gabbana sem slógu hreinlega í gegn með sínum útgáfum ljótu jólapeysunnar.
Nú, eins og lesendur ættu að hafa glöggvað sig á, er akkúrat þriðji föstudagur mánaðarins í dag, 16. desember – eða dagur peysunnar margumræddu.
Það er því ekki seinna vænna en að dressa sig upp vegna þess tilefnis og fara hnarreist út í daginn.
