Búskussinn Hrafna-Flóki og sólareyjan í norðri
Sumarið 1928 kom landstjórinn á Súmötru til Íslands til að heimsækja ættingja konu sinnar en hún var íslensk, átti rætur á Austfjörðum. Hann hefur líklega notið austfirskrar veðurblíðu (sem þó hefur varla jafnast á við veðrið á Súmötru), enda var haft eftir honum í blaðinu Norðlingi að það væri réttast að leggja tillögu fyrir Alþingi um að breyta nafni landsins. Svona hlýtt og fagurt land ætti alls ekki skilið svo kuldalegt nafn sem Ísland var. Kannski var hann bara að grínast, eða að reyna að vera kurteis, en þetta var þó ekki í fyrsta skipti sem stungið var upp á að breyta nafni Íslands.
Þorsteinn Björnsson lagði til nafnbreytingu í grein í Eimreiðinni árið 1920. Sjálfur var hann búsettur í Vesturheimi og taldi að nafn landsins vekti óhug hjá útlendingum. Hann hafði orðið vitni að því hvernig djúpstæður hrollur fór um ónefnda húsfreyju sem hann gisti einu sinn hjá í Edinborg þegar hann sagði henni hvaðan hann væri. Í greininni bendir Þorsteinn á að Hrafna-Flóki hefði verið í mjög vondu skapi þegar hann gaf nafnið Ísland í gremju- og hefndarskyni, enda hafði allt kvikfé hans drepist vegna heyskorts þann vetur sem hann dvaldi hér eins og Landnámabók greinir frá. Landið, segir Þorsteinn, hefði allt eins getað heitað Hraunland, Eyðiland eða Sultarland og hann færir rök fyrir því að eina leiðin til að bæta ímynd landsins og íbúanna sé að breyta nafninu. Og hvaða nafni skyldi Þorsteinn hafa stungið upp á? Jú: Sóley fannst honum að væri réttnefni. Hér væru bjartar nætur svo mánuðum skipti, nafnið væri stutt og merkingin fögur. Á þessum tíma voru aðeins örfá ár síðan íslenski fáninn hafði verið lögfestur með rauðum og hvítum krossi á bláum feldi; tákn elds, íss og fjallabláma. En Þorsteinn taldi sig sjá líkindi við sjálfa sólina í rauða krossinum: það geislaði frá honum eins og miðnætursólinni.
Nafnið Sóley var ekki úr lausu lofti gripið og ljóst er að Þorsteinn hefur þekkt til skrifa Einars Benediktssonar skálds, sem var mikill áhugamaður um veru írskra manna á Íslandi fyrir hið eiginlega landnám. Einar færði rök fyrir því (og byggði þar m.a. á fornum tilgátum) að Thule, eyja í norðri sem er nefnd í ævarfornum heimildum, hefði sannarlega verið eyjan sem síðar fékk nafnið Ísland og að Thule merkti einmitt Sólareyja: „því að þar sje einlægur dagur um sólstöður.“ Um þessa tilgátu voru menn reyndar ekki alveg sammála en það er önnur saga. Einar orti síðar langt og tilkomumikið kvæði um eylandið bjarta í norðri sem ber einmitt heitið Sóley. Það hefst á þessum orðum:
Nafn hennar lifði í eldfornum óð
um yztu byggðir, sem hafsbrúnin geymdi,
og hennar var minnzt, þegar mannheim dreymdi
um miðnótt í eilífri sólarglóð.
Þótt tillaga Þorsteins Björnssonar um Sóleyjarnafnið virðist hafa fengið lítinn hljómgrunn var málið ekki dautt. Sigurður Ólafsson lögfræðingur tók það upp að nýju tuttugu árum síðar með tillögu um nafnið Thule eða Týli og setti í samband við að nú styttist í aukið sjálfstæði – Norðmenn hefðu á sínum tíma viljandi fest nafn búskussans Hrafna-Flóka við landið í því skyni að koma í veg fyrir fjöldaflutninga frá Noregi en nú væri tímabært að fríska upp á ímyndina í tengslum við aukin millilandaviðskipti og landkynningu. Og enn og aftur er minnst á breytingar á nafni landsins í blöðum nokkrum árum síðar – skömmu eftir að Ísland varð lýðveldi og þar m.a. stundið upp á nafninu Eyland. Margt hangir við nöfn og umræður um nafnbreytingar eru oft nátengdar pólitísku umróti, eins og hefur sést nýverið í Bandaríkjunum. Enn erum við þó Íslendingar, en hvorki Sóleyingar né Týlingar.
