Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
„Miðað við þessar niðurstöður er ljóst að mikill ávinningur er við að láta holdakýr
bera fyrr á vorin. Þar hefur líklega áhrif að kýr sem bera snemma að vori eru
líklegri til að vera á góðri beit þegar mjólkurframleiðslan er sem mest 70–90
daga eftir burð samanborið við kýr sem bera seinna.“
„Miðað við þessar niðurstöður er ljóst að mikill ávinningur er við að láta holdakýr bera fyrr á vorin. Þar hefur líklega áhrif að kýr sem bera snemma að vori eru líklegri til að vera á góðri beit þegar mjólkurframleiðslan er sem mest 70–90 daga eftir burð samanborið við kýr sem bera seinna.“
Mynd / Halla Eygló Sveinsdóttir
Á faglegum nótum 25. mars 2025

Burðartími holdakúa hefur áhrif á vöxt kálfa

Höfundur: Ditte Clausen, ráðunautur í búfjárrækt.

Í síðasta tölublaði var fjallið um niðurstöður fóðurathugunar í Hofsstaðaseli. Þá voru teknar saman meginniðurstöður verkefnisins, sem var áhrif mismunandi korngjafar á vaxtarhraða holdablendinga og áætlaður kostnaður við stíueldi. Við uppgjör gagnanna komu í ljós fleiri þættir sem hafa áhrif á vaxtarhraða og eldistíma.

Í athuguninni var kálfunum skipt í fóðurflokka eftir þyngd og aldri við fráfærur þannig að meðalaldur og meðalþungi fóðurflokkanna væri eins. Elstu kálfarnir voru fæddir í lok apríl, en yngstu í byrjun ágúst. Það er því ljóst að aldursbilið innan flokka var þónokkuð. Það voru 36 naut í hverjum fóðurflokki og nauðsynlegt að skipta þeim í þrjár stíur svo þeir hefðu nægt pláss skv. reglugerð. Því var fóðurflokkunum skipt upp eftir þyngd og aldri í yngri, milli og eldri. Skoðuð voru áhrif aldurs við fráfærur á vaxtarhraða og eldistíma. Nautin fengu sambærilegt hlutfall af korni, um 20%, þvert á fóðurhópana og þar með samanburðarhæfir. Meðalfæðingardag þeirra má finna í töflu 1.

Tafla 1. Meðalfæðingardagur, -fráfærudagur og meðalaldur við fráfærur fyrir aldurshópana eldri, milli og yngri óháð fóðurflokki.

Við uppgjör á athuguninni var sláturaldur nautanna leiðréttur að 630 kg lífþunga en það gerir niðurstöðurnar samanburðarhæfari. Marktækur munur var á vaxtarhraða og eldistíma milli aldurshópa, þar sem naut í eldri hópunum uxu hraðast (kg/dag) og þurftu þar af leiðandi styttri tíma í stíueldi, eða að meðaltali 127 daga miðað við yngri naut (tafla 2). Það var enginn munur á EUROP-flokkun milli aldursflokka og því voru tekjurnar fyrir sláturgripi eins, afurðaverð fyrir R2+, 335 kg fall ásamt sláturálagi. Aldur við fráfærur hefur marktæk áhrif á heildarát og kornát gripa (tafla 2). Þá var heildarát yngri nauta um 1200 kg þe meira á grip en eldri nautanna og þar af voru 250 kg þe korn. Hefur það töluverð áhrif á fóðurkostnaðinn fyrir eldi á gripum sem voru seint fæddir (mynd 1).

Tafla 2. Áhrif fæðingardags óháð fóðurflokki á eldístíma, sláturaldur, vaxtarhraða, EUROP-flokkun og fóðurát á grip. Angushlutfall var hærri í hópunum milli og eldri. Mismunandi upplyftir stafir sýna marktækan mun milli aldursflokka.

Til að áætla aðstöðukostnað voru notaðar tölur um meðalbyggingakostnað úr rekstrarverkefni nautakjötsframleiðenda sem er unnið af RML. Í útreikningunum miðar launakostnaður við dagvinnutaxta sem notaður er við gerð fjárfestingaáætlana í landbúnaði (5.145 kr/klst) en það er ljóst að raunlaun bænda eru töluvert lægri. Með breyttum forsendum um aðstöðu- og launakostnað getur hagnaður við eldi breyst þó nokkuð og hvað þetta varðar má einnig búast við að töluverður breytileiki sé milli búa.

Mynd 1. Áætlaður kostnaður á eldi nauta með mismunandi fæðingardaga frá 12.12.2022 að slátrun. Ekki er reiknaður kostnaður við rekstur á holdakúm eða eldið frá fráfærum til upphafs athugunarinnar, sem voru að meðaltali 25 dagar. Hagnaður er því aðeins miðaður við eldistímann sem fóðurathugunin stóð yfir.

Angus-áhrif

Í Hofsstaðaseli hafa bændur verið að innleiða nýja norska Angus-kynið í stofninn og voru í athuguninni gripir sem voru 50% Angus eða meira, í bland við hefðbundna íslenska holdagripi. Í sambandi við verkefnið um kjötgæði á nautum úr fóðurathuguninni voru tekin erfðasýni úr öllum gripum og blendingshlutfall þeirra rannsakað. Það leyfði okkur að skoða hvort áhrif væru af Angus-kyninu. Við skoðun blendingshlutfalls innan aldurshópa sást tilhneiging til Angus-áhrifa. Þannig virðast gripir með hærra hlutfall af Angus vera með meiri vaxtarhraða en aðrir gripir. Angushlutfallið var að meðaltali hærra í milli og eldri hópunum (tafla 2) og skýrist það af því að gripirnir voru aðallega flokkaðir eftir þyngd þegar fóðurhópunum var skipt í þrennt þegar komið var 6 mánuði inni í athugunina.

Túlkun – niðurstöður

Miðað við þessar niðurstöður er ljóst að mikill ávinningur er við að láta holdakýr bera fyrr á vorin. Þar hefur líklega áhrif að kýr sem bera snemma að vori eru líklegri til að vera á góðri beit þegar mjólkurframleiðslan er sem mest 70–90 daga eftir burð samanborið við kýr sem bera seinna. Það er ekki ólíklegt að það hafi áhrif á mjólkurframleiðslu og þar með einnig mjólkurinntöku kálfanna. Meginnæringarefni holdakálfa fyrstu 4–6 mánuðir er mjólk. Við 4–10 vikna aldur fer beit að vega meira og inntaka af grasi vex í takt við að sem mjólkin minnkar. Kálfar sem eru fæddir snemma eru því líklegri til að ná betri síðsumarbeit en seint fæddir kálfar. Minni mjólk og lakari beit í kjölfarið hefur neikvæð áhrif á vöxt kálfa sem annars eru með mikla vaxtargetu. Hægt er að bæta það upp með kjarnfóðri og betra heyi handa kálfunum í beitarhólfinu en það mun hafa áhrif á fóðurkostnað. Kostnaðarlega séð er það sennilega ódýrara að gefa kúm sem bera snemma gott hey í upphafi á meðan það er takmörkuð beit.

Með tilkomu nýs erfðaefnis virðist vaxtarhraðinn holdablendinga vera að aukast en það var einmitt einn eiginleikinn sem var verið að sækjast eftir með innflutningi á nýju erfðaefni. Til að fullnýta vaxtargetu kálfanna er ávinningur af því að skipuleggja burðartímann þannig að hann sé í apríl-maí. Það þýðir að þarfanautið þarf að fara úr hjörðinni í lok ágúst. Það getur líka krafist þess að kálfarnir verði teknir inn fyrr á haustin, kannski í október til að lágmarka líkurnar á að nautkálfar fari að kelfa kvígur. Með því að taka kálfana fyrr á hús tapast ekki vöxtur þegar beitin er orðin léleg til vaxtar og því einnig ávinningur með þeim hætti.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...