Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Ævar Hreinsson, bóndi í Fellshlíð í Eyjafjarðarsveit, stendur hér í tæknirými fjóssins þann 11. nóvember. Þar kom upp eldur 8. nóvember og þakkar hann góðum eldvörnum að bruninn hafi ekki breitt úr sér. Í loftinu sést í hluta af grænni plastlögn sem bráðnaði í hitanum og úðaðist vatn úr henni yfir eldinn.
Ævar Hreinsson, bóndi í Fellshlíð í Eyjafjarðarsveit, stendur hér í tæknirými fjóssins þann 11. nóvember. Þar kom upp eldur 8. nóvember og þakkar hann góðum eldvörnum að bruninn hafi ekki breitt úr sér. Í loftinu sést í hluta af grænni plastlögn sem bráðnaði í hitanum og úðaðist vatn úr henni yfir eldinn.
Mynd / ál
Fréttir 25. nóvember 2025

Brunavarnir björguðu fjósinu í Fellshlíð

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Eldur kviknaði í tæknirými fjóssins í Fellshlíð í Eyjafjarðarsveit þann 8. nóvember síðastliðinn. Ævar Hreinsson, bóndi í Fellshlíð, segir góðar eldvarnir í bland við heppni hafa ráðið því að tjónið var á afmörkuðu svæði og hægt var að hefja mjaltir á ný nokkrum klukkustundum síðar.

Þegar kviknaði í rétt fyrir klukkan 10.30 að morgni sló öllu rafmagni út á bænum, en Ævar útskýrir að rafmagnið í íbúðarhúsinu komi í gegnum fjósið. Elín Margrét Stefánsdóttir, eiginkona Ævars, var heima og gerði ráð fyrir að öll sveitin væri rafmagnslaus. Hún hafi því stokkið út í fjós til að slá mjaltaþjóninum út og verja hann fyrir mögulegum rafmagnstruflunum. Þá hafi hún uppgötvað að tæknirýmið var fullt af reyk og upp úr rafmagnstöflunni stóð blár rafmagnseldur.

„Hún sá að eitt slökkvitæki myndi duga skammt og hringdi strax í 112. Á meðan hún var að tala við neyðarlínuna sækir hún dóttur okkar sem hringir í Jóhann son okkar sem er bóndi á Stóra-Hamri hér rétt hjá. Hann kom alveg í hvelli og voru þau búin að koma öllum kúnum út um tíu til fimmtán mínútum eftir að eldurinn uppgötvaðist,“ segir Ævar. Á bænum eru í kringum 85 mjólkurkýr.

Bráðið vatnsrör kraftaverk

„Svo gerðist kraftaverkið, en það brann gat á vatnsröri úr plasti uppi í loftinu. Það bjargaði kannski öllu, því að vatnið smúlaðist á réttan stað og ýrðist yfir töfluna af miklum krafti. Eldurinn var orðinn ansi lítill, ef ekki slokknaður, þegar slökkviliðið kom,“ segir Ævar. Reykur hafi að litlu leyti verið farinn að leita fram í fjós.

„Jóhann sonur okkar, sem er rafvirki og var áður róbótaþjónustumaður, smíðaði bráðabirgðatöflu fram í fjósi. Hann fékk nágranna okkar sem er líka rafvirki með sér. Þeir klipptu á gömlu töfluna og tíndu það nauðsynlegasta yfir og við vorum farin að mjólka klukkan fimm síðdegis,“ segir Ævar. Mjaltaþjónninn hafi því verið óvirkur í rétt rúma sex klukkutíma. „Þetta var algjört þrekvirki hjá þeim, því að allt rafmagnsdót og taflan var brunnin til kaldra kola.“

Nágrannar buðu fram aðstoð

Ævar segir að fjósbyggingin sé að grunninum til 60 til 70 ára gömul, en var breytt að miklu leyti fyrir um áratug. „Þá vorum við með mjög góða smiði sem gáfu ekki afslátt á neinum gæðakröfum og þarna var eldvarnarveggur á milli sem hélt.“ Jafnframt hafi komið sér vel að kýrnar höfðu góðar flóttaleiðir, því að stóra rafmagnshurðin sem sé yfirleitt notuð hafi ekki verið virk. „Sonur okkar tengdi rafal sem er knúinn af traktor til þess að koma mjöltum af stað, sem var auðvitað vesen því að tengið fyrir rafalinn kolbrann. Jóhanni tókst að tengja allt rétt í róbótinn í fyrstu tilraun og hann hefur virkað rétt síðan. Svo vorum við komin inn á veiturafmagnið milli 9 og 10 um kvöldið,“ segir Ævar.

Hann segist hafa fundið fyrir miklum velvilja í nærsamfélaginu, en margir sveitungar hans höfðu samband þegar fréttir bárust af brunanum og sögðust geta hýst kýr ef þess þyrfti. Eins kom fólk og aðstoðaði við búverk og kom með mat og kaffi. Viðgerðirnar hafi hins vegar gengið ótrúlega vel, kýrnar komnar aftur inn milli þrjú og fjögur og mjaltir komnar í eðlilegt horf fljótlega eftir að róbótinn var ræstur klukkan 17:02.

Upptök eldsins eru rakin til rafmagnstöflunnar.

Upptök eldsins alveg augljós

Aðspurður segir Ævar ekki enn komið á hreint hvað varð til þess að eldur kviknaði í rafmagnstöflunni. „Rannsóknarlögreglan kíkti á töfluna og sagði augljóst að upptök eldsins hafi verið þar. Án þess að geta sagt það með ábyrgð er talið líklegast að lekið hafi einhvers staðar inn um þakið og vatnsdropar elt kapla ofan í töfluna sem hafi leitt af sér skammhlaup og eld.“

Núna sé unnið að því að koma upp varanlegri rafmagnstöflu og gera við brunaskemmdir. Ævar segir að kýrnar hafi verið fljótar að jafna sig eftir raskið, en mjaltirnar drógust saman um 300 lítra fyrsta sólarhringinn og hafi nokkrum dögum síðar verið komnar í eðlilegt horf.

Skylt efni: brunavarnir

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...