Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Broddfura í umhverfi sem henni líður best í.
Broddfura í umhverfi sem henni líður best í.
Mynd / Pétur Halldórsson
Á faglegum nótum 12. desember 2023

Broddfura (Pinus aristata)

Höfundur: Pétur Halldórsson

Í augum sumra eru furur áreiðanlega allar meira og minna eins. Svo er þó með furur eins og ýmsar aðrar tegundir trjáa, til dæmis greni, að þegar fólk kynnist þeim betur koma betur og betur í ljós sérkenni hverrar og einnar.

Broddfuru er til dæmis auðvelt að þekkja, sérstaklega ef barrnálarnar eru skoðaðar. Á henni eru nálarnar fimm í hverju knippi. Það þýðir að fimm nálar standa út úr hverju nálasæti, öfugt við til dæmis stafafuru sem hefur tvær eða þrjár nálar í knippi. Broddfura er semsé svokölluð fimm nála fura. Fleiri fimm nála furur finnast á Íslandi og algengust er líklega lindifura. Allar fimm nála furur nema broddfura hafa hins vegar mjög langar barrnálar. Þannig er því best að þekkja broddfuru, að hún hefur fimm tiltölulega stuttar nálar í knippi. Auk þess eru litlar hvítar harpix-útfellingar á nálunum, sem ekki er að finna á öðrum furum.

Vöxturinn er líka einkennandi fyrir broddfuru. Hún er fremur lágvaxið tré sem varla verður tuga metra hátt á Íslandi en nær hér örugglega a.m.k. fimmtán metra hæð. Þetta er einstofna tré en krónan getur haft mjög misjafna lögun. Við sjáum mjóslegnar broddfurur en líka aðrar sem breiða meira úr sér. Þetta fer meðal annars eftir því hversu mikillar birtu trén njóta. Helst vill broddfura fá að baða sig í sólinni en síður vaxa upp í þéttum skógi.

Köngull broddfuru á fyrra ári þroska. Mynd / Pétur Halldórsson.

Broddfura hefur verið reynd víða um land og í öllum landshlutum má finna staði þar sem hún getur þrifist. Hún þolir vel frost og vind en hentar ekki til nytjaskógræktar vegna þess hversu hægt hún vex. Hins vegar fer vel á því að nota hana til prýði utan skóga og stakar í þéttbýlisgörðum. Á hana koma stórir könglar sem eru svarbláir að lit meðan þeir eru að þroskast. Fuglar sækja í fræin, ekki síst fuglar með sérhæfðan gogg til frætínslu úr könglum eins og krossnefur. Einnig hafa auðnutittlingar og fleiri fuglar sést tína fræ úr broddfurukönglum. Fræin eru tiltölulega stór og matarmikil, 5-6 mm í þvermál, um helmingi stærri en fræ stafafuru t.d.

Segja má að sá sem gróðursetur broddfuru horfi til framtíðar því broddfura og nánustu ættingjar hennar eru einhverjar langlífustu lífverur sem finnast á jörðinni. Elsta broddfura sem sögur fara af reyndist tæplega 2.500 ára gömul en yfirleitt verða þær ekki „nema“ um 1.500 ára Langlífasti ættinginn, svokölluð rindafura, ber latneska heitið Pinus longaeva eða „langlífa fura“. Hún stendur sannarlega undir nafni því hún getur orðið 5.000 ára gömul.

Slík tré finnast í upphaflegum heimkynnum hennar í Hvítufjöllum í Kaliforníu.

Lengst af herjaði engin óværa á broddfuru á Íslandi, allt þar til sveppsjúkdómurinn furubikar eða furugremi (Gremmeniella abietina) barst til landsins. Broddfurur sem vaxa þétt saman í hefðbundnum norrænum gróðursetningum eða eru í góðu skjóli umkringdar öðrum trjám, eru útsettastar fyrir sveppnum. Hann kemst inn í nálar og þaðan í sprota og veldur náladauða og sprotakali. Furubikar getur drepið heilar greinar og jafnvel í verstu tilvikum gengið af öllu trénu dauðu. Hann veldur verulegum skemmdum á bergfuru og broddfuru um land allt en skemmir sjaldan stafafuru.

Furubikar er áhyggjuefni en þó er alltaf von þegar trjátegundir eru annars vegar. Mögulega verða til íslenskar broddfurur með náttúruvali þar sem tré með vörn gegn sveppnum veljast frá þeim sem sveppurinn drepur. Þetta gæti tekið langan tíma en þó eru nú þegar til sjálfsánar broddfurur á Íslandi.

Hraustustu trén eru líklegust til að fjölga sér og að því gefnu að broddfuran gefist ekki upp á Íslandsdvölinni er ekki ólíklegt að hún spjari sig og einstök tré lifi fram á næsta árþúsund. Besta leiðin til að forðast skemmdir af völdum sveppsins er að gróðursetja broddfurur á opnu og vindasömu landi þar sem hvert tré hefur nóg pláss, fær fulla birtu og þornar vel á milli rigninga. Broddfuran er afar harðgerð og þolir að vaxa á skjóllausu landi betur en flest önnur tré.

Skylt efni: Skógrækt

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...