Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Breytið ekki strax um aðferð
Lesendarýni 19. desember 2023

Breytið ekki strax um aðferð

Höfundur: Sigurður Sigurðarson dýralæknir.

Nýlega fannst verndandi arfgerð gegn riðuveiki í íslensku sauðfé. Það voru gleðileg tíðindi, sem vöktu von um að rækta mætti þol gegn veikinni í fjárstofninum í stað þess að farga öllu fé á riðubæjum.

Sigurður Sigurðarson.

Stundum þurfti að farga þúsundum fjár í heilum varnarhólfum þegar engin ráð, sem beitt var, dugðu til að draga úr miklu tjóni, sem var meira en þekktist í öðrum löndum og stöðva vaxandi útbreiðslu veikinnar, sem var líkleg til að leggja landið allt undir sig á fáum árum. Bændur sem voru hart leiknir, sveitarfélög og Bændasamtökin kröfðust róttækra aðgerða. Reynsla sýndi að riða kom sjaldnar aftur, ef hús og umhverfi voru hreinsuð vel eftir niðurskurð. Þess vegna var bætt við fyrri varnarráð rækilegri sótthreinsun eftir þrif og eyðingu heymítla (heymaurar), þegar rannsókn benti til þess, að þeir gætu geymt og viðhaldið riðusmitefni. Í kílói af heyi eru 1-6 milljónir mítla af 7 tegundum. Niðurskurðurinn var neyðarráð, en aðferðin gjörbreytti árangrinum. Þar sem vandlegast var unnið og vakað yfir hverju skrefi aðgerðanna, heppnaðist útrýming riðunnar fullkomlega. Riða kom ekki aftur í nýtt fé á neinum bæjanna, sem voru margir tugir (Fjárborg í Reykjavík, Barðaströnd o.fl.). Á öðrum svæðum, þar sem ekki var sótthreinsað með sömu nákvæmni, kom veikin á ný upp á stöku bæjum. Líkur benda til þess að veikinni hafi verið útrýmt úr 21 af 24 sýktum varnarhólfum. Í Skagafirði og Húnaþingum herjar veikin enn á fáum bæjum nær því árlega, líklega vegna þess að ekki var sótthreinsað alls staðar þar sem fé var ekki tekið aftur, þrátt fyrir reglur um það. Viðskipti með smitmengaðan varning, tæki, hey og fé var heldur ekki alls staðar með fullri varúð.

Nú vakna spurningar um það, hversu langt megi ganga í að slaka á vörnum, sem vel dugðu til að útrýma veikinni á stórum hluta landsins, sem fyrr segir og hversu fljótt megi breyta um stefnu í vörnum. Að mínum dómi vantar enn þekkingu og vissu um áhrif og afleiðingar þeirra aðferða, sem nefnd sérfræðinga hefur afhent yfirdýralækni og þær síðan lagðar fyrir matvælaráðherra. Þar er lagt til að skilja eftir við förgun riðuhjarða kindur með verndandi arfgerð gegn veikinni (ARR/ARR) og einnig kindur með hugsanlega verndandi arfgerðir. Óvíst er hvort þessar kindur, sem eiga að lifa, geti dreift smiti, geymt riðuna og e.t.v. vakið hana upp á ný.

Í sérfræðinganefndinni eru tveir dýralæknar, Hákon Hansson á Breiðdalsvík og Ólafur Jónsson á Akureyri, sem hafa lengri reynslu en flestir aðrir af baráttu gegn riðu í fremstu línu. Þeir eru ekki að öllu leyti sammála tillögunni, sem ráðherra var send og hafa skilað séráliti. Þeir leggja til að ekki verði breytt um stefnu næstu 5 árin, en þó unnið af kappi við ræktun á riðuþolnu fé með ARR arfgerð og fé með þá arfgerð fái að lifa þegar niðurskurður er ákveðinn. Í fyrstu verði höfuðáhersla lögð á varnir á riðusýktum svæðum. Eftir fjárskipti verði eingöngu tekin lömb af ósýktum svæðum með verndandi arfgerð. Að vísu er óvissa um afleiðingar kappsfullrar ræktunar frá fáum kindum. Gallar kynnu að koma fram í nýjum stofni þannig til komnum.

Nýlegar uppplýsingar benda til að hin verndandi arfgerð gefi ekki fullkomna vörm gegn riðu (Spánn, Rúmenía). Það er því ýmislegt, sem vantar á þekkinguna enn þá.

Ég hef sjálfur stundað rannsóknir á riðuveiki í áratugi og baráttu við hana á Íslandi og í öðrum löndum. Ég þekki því sögu veikinnar og glímuna við hana allvel. Ég er sammála fyrrnefndum dýralæknum um að fresta breytingu á baráttu við riðuveiki í 5 ár hvað varðar hugsanlega verndandi arfgerðir. Þá verði stefnan og árangurinn metinn. Annað er fljótræði og óverjandi að leggja það á fjáreigendur, sem eiga ósýktan fjárstofn og hafa mátt þola tjón og sálarangist í baráttu við þessa illvígu veiki.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...