Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 ára.
Gæta skal þess að það sé vatn í jólatrésfætinum yfir hátíðarnar því annars þornar tréð og verður ljótt.
Gæta skal þess að það sé vatn í jólatrésfætinum yfir hátíðarnar því annars þornar tréð og verður ljótt.
Á faglegum nótum 18. desember 2014

Blómin um jólin

Höfundur: Vilmundur Hansen
Jólin eru handan við hornið og því ekki úr vegi að fjalla lítillega um vinsælustu jólablómin. Jólastjörnur eru líklega þær pottaplöntur sem flestir tengja við jólin en goðaliljur, riddaraliljur og jólakaktus fylgja þar fast á eftir og ekki má gleyma sjálfu jólatrénu.
 
Jólastjörnur eiga rætur sínar að rekja til Mexíkó, nánar tiltekið til héraðsins Taxco þar sem hún vex sem runni eða lítið tré. Löngu fyrir komu Evrópumanna vestur um haf ræktuðu innfæddir jólastjörnur vegna litadýrðarinnar og var litið á þær sem tákn um hreinleika. Innfæddir lituðu klæði með rauðum blöðum jólastjörnunnar og mölluðu til lyf gegn sótthita úr hvítum mjólkursafa hennar. 
 
Jólastjörnur eru ekki auðveldustu plönturnar í ræktun til að halda lifandi en langt frá því að vera þær erfiðustu. Jurtin þrífst best við 12 til 21° C en endist best við neðri mörkin. Þegar jólastjarna er keypt skal láta pakka henni inn og það má alls ekki geyma þær lengi úti í köldum bíl, þar sem þær fá kuldasjokk, og því ráðlegt að fara með þær strax í hús. Best er að vökva jólastjörnur lítið en oft og með volgu vatni. Moldin má aldrei þorna alveg og það má ekki heldur láta pottinn standa í vatni.
 
Látið því pottinn standa í djúpri pottahlíf sem fyllt er í botninn með vikri. Þannig stendur jólastjarnan ekki í vatni en nýtur góðs af uppgufun og loftraki leikur um hana. Jólastjörnur þurfa góða birtu og þrífast best í björtu herbergi eða í austur- eða vesturglugga.
 
Jólastjörnur hafa verið í ræktun á Íslandi frá því skömmu fyrir 1960. Í dag eru ræktaðar og seldar hátt í hundrað þúsund stykki fyrir jólin. 
 
Þjóðverjinn Albert Ecke, sem settist að í Hollywood árið 1902, var gríðarlega heillaður af jólastjörnunni og hóf ræktun hennar í stórum stíl og seldi greinar á aðventunni. Árið 1920 tókst syni hans að framrækta dvergafbrigði af jólastjörnu þannig að hægt var að rækta hana í potti. Hann lagði mikla vinnu í að kynna hana og tengja rauða litinn jólunum. Það má því segja að Ecke yngri sé faðir jólastjörnunnar eins og við þekkjum hana í dag. Í dag er hægt að fá rauðar, fölrauðar og hvítar jólastjörnur.
 
Jólastjörnur geta valdið ofnæmi eða ertingu í húð hjá fólki sem er viðkvæmt fyrir slíku en plantan er ekki hættulega eitruð eins og stundum er haldið fram. Rannsóknir sýna að blöð jólastjörnunnar geta valdið uppköstum sé þeirra neytt í miklum mæli. Þrátt fyrir þetta er engin ástæða til að setja hana í jólasalatið þar sem hún er sögð mjög bragðvond.
 
Meðferð jólatrjáa
 
Til að jólatré séu fersk og falleg um jólin er best að geyma þau á köldum stað fram að jólum. Sólarhring áður en setja á tréð upp og skreyta er gott að taka það inn og láta það ná íbúðarhita í baðkerinu eða sturtunni. Næst skal saga um þrjá sentímetra neðan af stofninum og stinga honum í sjóðandi heitt vatn í nokkrar mínútur sem veldur því að vatnsæðar trésins opnast og það frískast við. 
 
Gæta skal þess að það sé vatn í jólatrésfætinum yfir hátíðarnar því annars þornar tréð og og verður ljótt.
 
Jólakaktus
 
Þessi algengi kaktus gengur undir ýmsum heitum, haust-,   nóvember- eða krabbakaktus m.a. Algengasta heitið er þó að öllum líkindum jólakaktus. Sérstaklega þegar hann blómstrar um jólahátíðina. Jólakaktusinn er uppruninn á Amasonsvæði Suður-Ameríku, nánar tiltekið í Brasilíu, þar sem hann vex sem ásæta uppi í trjákrónum. Ólíkt flestum öðrum kaktusum vex jólakaktusinn því í raka og skugga. Þetta gerir það að verkum að hann dafnar best í hálfskugga og þolir talsvert meiri vökvun en aðrir kaktusar. Kjörhiti hans er 15 til 20° C.
 
Eftir að blómgun lýkur er gott að hvíla hann á svölum stað og draga úr vökvun í nokkrar vikur. Jólakaktusa er hægt að fá í ýmsum litum, rauða, hvíta, bleika og lillabláa.
 
Riddarastjarna
 
Riddarastjarna, eða amaryllis eins og þessi glæsilega laukplanta er oft nefnd, er upprunnin í Suður-Ameríku en hefur dreifst þaðan sem pottaplanta vegna þess hversu harðger og auðveld hún er í ræktun auk þess að vera blómviljug. Blómin eru í mörgum litum, rauð, hvít og bleik auk þess sem þau geta verið marglit. 
 
Áður en laukurinn er settur í mold er gott að láta neðri hluta hans standa í volgu vatni í nokkra klukkutíma þar sem slíkt hraðar rótarmyndun. Amaryllis-laukar þrífast best í næringarríkum og vel framræstum moldarjarðvegi við 15 til 20° C. 
 
Þegar lauknum er komið fyrir í potti skal láta helming til einn þriðja af honum standa upp úr moldinni en þrýsta henni þéttingsfast að neðri hlutanum án þess þó að skemma ræturnar séu þær farnar að myndast. 
 
Moldin í pottunum skal alltaf vera rök yfir vaxtartímann en laukurinn þolir nokkurn þurrk á meðan hann er í hvíld. 
 
Riddarastjörnu er einnig hægt að rækta í glervasa til jólanna á svipaðan hátt og lýst er hér á eftir í tengslum við goðaliljur. Ræktunartíminn er þó styttri, eða þrjá til fimm vikur.
 
Goðalilja 
 
Samkvæmt grískum goðsögum lést ungur og fallegur drengur, Hyasintos, þegar hann varð fyrir kringlu guðsins Apollo þegar þeir léku saman kringlukast. Upp af blóði piltsins uxu þessar liljur sem síðan eru við hann kenndar og oft kallaðar hýasintur. Stungið hefur verið upp á að í staðinn fyrir að kalla hýasintur goðaliljur sé réttara að nefna þær sveinaliljur og þá jólasveinaliljur á þessum árstíma. Uppruni goðalilja er á Balkanskaga. 
 
Vinsældir goðalilja sem jólablóma eru sífellt að aukast enda þykir mörgum ilmurinn af þeim góður. Ekki skemmir heldur fyrir að að þær fást í fjölda lita, bláar, rauðar, gular, bleikar og hvítar allt eftir smekk.
 
Auðveldast er að rækta hýasintur í grunnum glervasa sé ætlunin að hafa þær í blóma yfir jólin. Vasarnir sem fást í flestum gróðurvöruverslunum eru belgmiklir að neðan en þrengjast rétt ofan við miðju og opnast svo aftur. 
 
Fylla skal vasann að vatni upp að þrengingunni þannig að vatnsborðið leiki við neðri hluta lauksins án þess að snerta hann. Einungis ræturnar eiga að ná niður í vatnið. 
 
Að vísu þarf að gera þetta í lok september eða byrjun október eigi laukarnir að blómstra fyrir jól og því of seint í rassinn gripið á þessu ári en vonandi nýtast þessa upplýsingar á næsta ári. 
 
Eftir að laukurinn er kominn í vasa skal koma honum fyrir á svölum, í 9 til 10° C, og dimmum stað og gæta þess að ræturnar séu alltaf baðaðar í vatni. Eftir að blöðin ná fimm til sjö sentímetra hæð skal flytja vasann á bjartari stað við stofuhita.
 
Gleðileg jól 

Skylt efni: Gróður

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...