Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Koen Kjartan Van de Putte, fulltrúi belgíska fyrirtækisins Bolt, skilar Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra 1.000 upprunavottorðum fyrir raforku með hvatningu til Íslendinga um að hætta sölu á slíkum bréfum vegna þess að salan skaði orkuskipti í Evrópu.
Koen Kjartan Van de Putte, fulltrúi belgíska fyrirtækisins Bolt, skilar Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra 1.000 upprunavottorðum fyrir raforku með hvatningu til Íslendinga um að hætta sölu á slíkum bréfum vegna þess að salan skaði orkuskipti í Evrópu.
Mynd / Arnór Birkisson
Fréttaskýring 24. ágúst 2020

Belgíska fyrirtækið Bolt segir að verið sé að blekkja neytendur

Höfundur: Hörður Kristjánsson - hk@bondi.is
Fimm ár eru nú liðin síðan Sveinn A. Sæland í garðyrkjustöðinni Espiflöt og fyrrverandi formaður Sambands garðyrkjubænda vakti athygli á þeim blekkingaleik sem hófst 2011 með sölu raforku­framleiðenda á Íslandi á upprunavottorðum fyrir hreina raforku sem framleidd var með endurnýjanlegum orkugjöfum. Ekkert lát er á sölu á slíkum syndaaflausnum til erlendra fyrirtækja en í staðinn skráir Orkustofnun í sínu bókhaldi þau ósannindi að um síðustu áramót hafi íslensk raforka aðeins verið að 9% hluta framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum.  
 
Sala á slíkum upprunavottorðum frá Íslandi hófst árið 2011. Þá fór skráð hlutfall seldrar raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum úr 99,99% í 89%. Annað var sagt framleitt með jarðefnaeldsneyti og kjarnorku. 
 
 
Neytendur blekktir
 
Í umfjöllun í Bændablaðinu í júlímánuði 2015 var sagt að Íslendingar væru með sölu á slíkum aflátsbréfum að hjálpa erlendum vöruframleiðendum sem notuðu óhreina orku við að blekkja neytendur. Þeir væru látnir halda að fyrirtækin væru að nota hreina orku við sína framleiðslu með því að veifa framan í viðskiptavinina hreinleikavottorðum frá Íslandi þó engin raforka kæmi þaðan. 
 
Íslensk orkufyrirtæki, með Lands­virkjun í broddi fylkingar, fullyrtu að þessi skilningur væri rangur og einungis væri verið að gera fyrirtækjum kleift að flýta inn­leiðingu hreinnar orkuframleiðslu í Evrópu. Undir þetta tóku ráðherrar orkumála á Íslandi. Nú hefur belgíska fyrirtækið Bolt, sem sérhæfir sig í endurnýjanlegri orku, staðfest skilning Bændablaðsins og íslenskra garðyrkjubænda á málinu. Það sem meira er að þann 7. ágúst síðastliðinn skilaði Koen Kjartan Van de Putte, fulltrúi fyrirtækisins á Íslandi, eitt þúsund uppruna­ábyrgðum til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra með hvatningu um að Íslendingar hættu að selja upprunaábyrgðir. Þessar upprunavottanir samsvara 1.000 megawattstundum af raforku sem ranglega var sögð keypt frá Íslandi. 
 
 
Hættið að selja upprunaábyrgðir!
 
Í yfirlýsingu frá Bolt sem send var út þegar upprunavottorðunum þúsund var skilað segir m.a.:
„Hættið að selja upprunaábyrgðir. Þær halda aftur af framleiðslu grænnar orku í Belgíu!
 
Íslendingar vita að allt þeirra rafmagn er grænt. Belgískir neytendur sem kaupa rafmagn tengt grænum íslenskum upprunaábyrgðum telja ranglega að rafmagn þeirra sé líka sannarlega grænt. Staðreyndin er að það er bara hægt að framleiða og nota græna orku einu sinni, rétt eins og maður notar ekki sömu krónuna tvisvar. Þessi tvöfeldni er ekki grænum orkuskiptum í Evrópu til góða,“ segir Pieterjan Verhaeghen, stofnandi og forstjóri Bolt. Síðan segir í yfirlýsingunni:
 
Nota ábyrgðarbréfin til grænþvottar á sölusamningum
 
„Á Íslandi er öll orka framleidd með endurnýjanlegum hætti. Íslenskir orkuframleiðendur fá „upprunaábyrgðir“ sem þeir svo selja belgískum framleiðendum óhreinnar orku. Þeir aftur nota ábyrgðarbréfin til grænþvottar á sölusamningum sínum. Þannig telja bæði Íslendingar og Belgar að orkan sem þeir nota sé græn. En það er vitanlega ómögulegt, kílóvattsstundin verður bara notuð einu sinni. Hin kílóvattsstundin er óhrein. Umskiptin yfir í græna orku er eitt mikilvægasta verkefni okkar tíma. Þau styðja baráttuna gegn loftslagsbreytingum og varðveislu jarðar. Þetta er sameinað átak sem kallar á samstarf bæði fólks og landa, í þágu okkar allra.“ 
 
Kerfi upprunaábyrgða heldur ekki vatni
 
„Bolt hefur ekkert á móti Íslend­ingum. Dæmi íslenskra uppruna­ábyrgða má hins vegar nota til að gera vandamálið áþreifanlegt. Ísland er eyja og þaðan er enginn 2.000 kílómetra langur rafstrengur til Belgíu. Þess vegna hóf Bolt herferð í Belgíu til að útskýra vandamálin tengd upprunaábyrgðum. Tvítalningin á sér stað víðar. Kerfi upprunaábyrgða heldur ekki vatni.“
 
Koen Kjartan og Pieterjan með upprunavottorðin um íslenska raforku sem safnað var í Belgíu.
 
Hvað er það sem Bolt vill? 
 
„Bolt vill að Ísland hætti að selja upprunaábyrgðir sínar af því græni stimpillinn dregur upp ranga mynd á erlendri grund. Þess vegna tekur Bolt slaginn og sækist eftir fundi með forsætisráðherra Íslands. Íslendingar þurfa að vera meðvitaðir um afleiðingar stefnu sinnar. Fyrir 2011, þegar sala upprunaábyrgða hófst á Íslandi, voru 100% orkunnar græn. Samkvæmt tölum frá Orkustofnun um uppruna seldrar raforku hér á landi var græn orka komin niður í 9% árið 2019. Græn orka er seld einstaklingum og smærri fyrirtækjum, en megnið af raforkusölu er ekki græn og fer til orkufreks iðnaðar. Á vef sínum bendir Orkustofnun líka á að þrátt fyrir útreiknaðan uppruna raforku sé íslensk raforka nánast öll framleidd úr endurnýjanlegum orkugjöfum.“
 
Búnar til tálsýnir með villandi upprunavottunarkerfi
 
„Bolt vonar að með frumkvæði sínu í að skila upprunaábyrgðarskírteinum megi vekja umræðu um það hvernig upprunaábyrgðakerfið getur verið villandi og búið til tálsýn um notkun grænnar orku. Það ríður á fyrir Belga að velja staðbundna græna orku og fyrir Íslendinga að gera raunverulega græna samninga um orku sína. Að mati Bolt færi betur á því að Ísland notaði skírteini sín til nota heimafyrir og enn betra ef hægt væri að berja í bresti evrópska upprunaábyrgðakerfisins til að koma í veg fyrir tvítalningu grænnar orku um alla Evrópu.“
Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...