Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 ára.
Bærinn okkar Víðidalstunga
Bóndinn 11. september 2014

Bærinn okkar Víðidalstunga

Bærinn Víðidalstunga stendur yst í tungunni sem myndast milli Víðidalsár og Fitjár í Vestur-Húnavatnssýslu. Afi og amma/langafi og langamma núverandi ábúenda fengu jörðina til ábúðar 1904 og keyptu nokkru síðar. Búið var blönduðu búi eins og víðast tíðkaðist til 1973 en þá var mjólkurframleiðslu hætt. Jörðin er ekki ýkja stór en þokkalega gróin auk þess sem afréttarnot á Víðidalstunguheiði drýgja hana mikið. Á búinu hefur um nokkurra ára skeið verið rekið einkahlutafélag, Valhóll ehf.

Býli:  Víðidalstunga, Húnaþingi vestra.

Staðsett í sveit: Víðidal (sólardalnum).

Ábúendur: Ólafur B. Óskarsson, Brynhildur Gísladóttir, Hallfríður Ósk og Sigríður Ólafsdætur.

Fjölskyldustærð (og gæludýra):
Auk áður upptalinna ábúenda býr á bænum eitt hundspott sem hlýtur að teljast gæludýr frekar en bústofn þar sem það fær banana í eyrun þegar á að segja því fyrir verkum og nýtist því takmarkað til vinnu.

Stærð jarðar? Rúmlega 300 ha í séreign, þ.a. 33 ha ræktað land. Auk þess er um 300 ha óskipt land sem er nýtt sameiginlega af Víðidalstungubæjunum báðum.

Gerð bús? Sauðfjárbú.

Fjöldi búfjár og tegundir? Klaufdýrin voru rétt um 500 sl. vetur og verður sjálfsagt svipað í ár. Nokkur hross eru einnig heimilisföst á bænum en fjöldi þeirra verður ekki uppgefinn af tillitssemi við eldri deild ábúenda sem finnst hrossin alltaf vera of mörg, sama hvort þau eru 3 eða 30.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum?
Á sumrin er  það mjög breytilegt og fer mikið eftir veðurfari, skaplyndi og nennu ábúenda hverju sinni. Heyskapur, girðingar, útreiðar eða bara það sem manni dettur í hug hverju sinni. Yfir veturinn sér Ólafur iðulega um morgunverkin en dæturnar fara í vinnu utan bús. Þær skila sér svo heim þegar líða tekur á daginn og taka þá gjarnan kvöldverkin eða annað tilfallandi. Brynhildur sér svo um að allir tvífætlingar fái nóg að borða og hlýjar lopaflíkur til skiptanna. Auk þess gegnir hún hlutverki lambafóstru á vorin og er því, eins og gefur að skilja, algjörlega ómissandi.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Held það megi segja að nánast öll verk séu skemmtileg þegar vel gengur og veðrið er gott (sem það er nú alla jafna í Víðidal). Af því að göngur og réttir eru nýafstaðnar og því ofarlega í huga liggur beint við að tilgreina það með skemmtilegustu búverkum að smala í góðu veðri og taka á móti lömbum af fjalli, alla vega þeim vænu. Fyrstu lömbin sem koma í heiminn á vorin eru líka alltaf sérstakir gleðigjafar. Rúningur, heyskapur og dagleg hirðing er líka ljómandi skemmtileg. Að takast á við veikindi í skepnum er aftur á móti líklega það sem er minnst spennandi og svo verður að viðurkennast að þrif á gripahúsum eru nú kannski ekki alvinsælustu störfin.

Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir 5 ár? Stærri, meiri, betri.
Hvaða skoðun hafið þið á félagsmálum bænda? Sem betur fer er til talsvert af framsýnu, duglegu og áhugasömu fólki sem fórnar tíma sínum í þágu kollega sinna og er jafnvel tilbúið að horfa fram hjá beinum eiginhagsmunum þegar það er í þágu stéttarinnar í heild. Það fólk er ómetanlegt fyrir okkur.

Hvernig mun íslenskum landbúnaði vegna í framtíðinni? Hefur alla burði til að vegna vel. Bændur þurfa að læra að streitast ekki á móti breytingum sem verða í samfélögum og þar með neysluvenjum heldur fylgja straumnum, stökkva til og nýta tækifærin sem felast í breyttum heimi. Bændur mega heldur ekki gleyma að þeir eru að reka fyrirtæki sem í öllum meginatriðum lýtur sömu lögmálum og allur annar fyrirtækjarekstur og þurfa að hugsa hvert skref sem þeir taka í búskapnum út frá því.

Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara? Um allan heim sem vara fyrir neytendur sem átta sig á að það þarf að borga fyrir gæði og eru tilbúnir til þess. Við getum hvorki keppt í magni né verði við þá sem eru að framleiða fyrir þann stóra hluta neytenda sem ekki áttar sig á að krafan um ódýrari matvæli leiðir af sér verri meðferð á dýrum og umhverfi og lakari vöru.

Hvað er alltaf til í ísskápnum? Brauðostur, bláberjasulta (helst heimatilbúin) og svo auðvitað mjólkurdreitill út í kaffið er standard í ísskápnum hér á bæ. Ýmiss konar íslenskt grænmeti, skyr og aðrir ostar eru einnig vörur sem æskilegt er að séu til. Væri reyndar hægt að skrifa langan pistil um matarvenjur og sérviskur þeim tengdar en verður látið ógert að sinni.

Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Er ekki sjálfsagt, svona í upphafi sláturtíðar, að tilgreina sérstaklega lambalærið en léttreyktur hryggur af veturgömlu (auðvitað heimareyktur) trónir líklega á toppnum. Svo eru ýmsar fæðutegundir sem eru misvinsælar eftir því hvora kynslóðina er verið að ræða við.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Allir dagar geta verið fullir af eftirminnilegum og skemmtilegum atburðum ef maður horfir á þá með því hugarfari, sérstaklega er alltaf ánægjulegt og eftirminnilegt þegar einhverju markmiði er náð í þróun og uppbyggingu búskaparins, sigrar eru alltaf eftirminnilegir. En ef nefna á eitthvert eitt atvik þá hlýtur að teljast sérstaklega eftirminnileg stund þegar aftur kom fé á bæinn eftir tveggja ára biðtíma í kjölfar niðurskurðar.

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f