Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Bændur og búalið í Norður-Þingeyjarsýslu í heimsókn hjá Íslandsbleikju í Öxarfirði.
Bændur og búalið í Norður-Þingeyjarsýslu í heimsókn hjá Íslandsbleikju í Öxarfirði.
Mynd / Kristín Gunnarsdóttir og Nanna Steinunn Höskuldsdóttir
Líf og starf 5. apríl 2017

Bændur í Norður-Þingeyjarsýslu gerðu sér glaðan dag

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Nokkur fyrirtæki hér á svæðinu lögðu okkur lið og gerðu okkur mögulegt að eiga hér saman góðan dag,“ segir Sigþór Þórarinsson, bóndi í Sandfellshaga 1.  
 
Bændur í Norður-Þingeyjarsýslu, innan Búnaðarsambands Norður­þingeyinga (BSNÞ), hafa skipst á heimboðum undanfarin ár. Starfssvæði sambandsins nær frá Kelduhverfi austur í Bakkafjörð og innan þess svæðis eru fjögur þorp auk dreifbýlisins, Kópasker, Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafjörður.
 
Keldhverfingar riðu á vaðið og buðu bændum á svæði BSNÞ í heimsókn til sín árið 2012 og ári síðar voru það Þistlar og Langnesingar sem stóðu fyrir heimboði á sitt svæði. Nú var röðin komin að svæðinu í Öxarfirði, Núpasveit og á Sléttu, en bændur á svæðinu buðu heim nú á dögunum og var þátttaka góð líkt og áður hafði verið, um 100 manns hafa þegið heimboðin.
 
Venjan er sú að heimsækja fyrirtæki á svæðinu, bæði stór og smá, líta heim á bæi og skoða útihús eða annað markvert og dagurinn endar yfirleitt í viðeigandi húsnæði, félagsheimili eða reiðhöll. 
 
Íslandsbleikja í hópi stærstu landeldisstöðva í heimi
 
Vel var að venju mætt í heimboðið á dögunum þar sem bændur úr Norður-Þingeyjarsýslu gerðu sér glaðan dag. Mæting var við Íslandsbleikju í Öxarfirði og lék veður við gesti, sólskin,  hlýtt í veðri og örlítil sunnan gola. Arnar Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri Íslandsbleikju, sem áður hét Silfurstjarnan, tók á móti hópnum og greindi frá starfsemi félagsins. 
 
Fiskurinn er alinn upp í sláturstærð, eða allt upp í 4 kíló og er vinnsla starfrækt samhliða eldinu. Þar fer slátrun einnig fram, slæging og pökkun á heilum ferskum fiski.  Framleiðsla fyrirtækisins er um 1.400 tonn af laxi á ári og er félagið í hópi stærstu landeldisframleiðenda á laxi í heiminum. Stefnt er að því að auka framleiðsluna á næstu árum. Eldisstöðin í Öxarfirði hefur nokkra sérstöðu þar sem töluverður jarðhiti er á svæðinu og hægt að ala laxinn upp við 10 til 11 gráðu heitt ísalt vatn. Bændur fóru um svæðið og skoðuðu fiska og aðbúnað, nýframkvæmdir og fleira auk þess að þiggja veitingar.
 
Heimsins bestu gulrætur í Akurseli
 
Frá Íslandsbleikju var haldið niður austursand og heim að Akurseli.
 „Þar eru heimsins bestu gulrætur ræktaðar,“ segir Sigþór.  Ábúendur, Sara Stefánsdóttir, Árni Sigurðsson og Sigurbjörg Jónsdóttir, móðir Söru, tóku á móti bændum og fræddu um starfsemi býlisins, en foreldrar Söru keyptu jörðina árið 2002 og þar hefur m.a. verið stunduð umfangsmikil ræktun á gulrótum.
 
Sýnikennsla í rúningi
 
Næst lá leiðin í Ærlækjarsel þar sem þau Eyrún Egilsdóttir og Bernharð Grímsson búa með um 400 fjár og nokkrar hænur. Farið var í fjárhús, tæki og tól skoðuð og notið veitinga.  Loks lá leiðin í Sandfellshaga 1 þar sem bræðurnir Rúnar og Sigþór Þórarinssynir búa ásamt sambýliskonu þess síðarnefnda, Kristínu Gunnarsdóttur. 
 
Á búinu eru um 670 kindur á húsi og örfáar hænur. Verið er að byggja 350 fermetra vélaskemmu sem varð fokheld á þorranum. Þar eru einnig nýleg 400 kinda fjárhús. 
 
Fram fór sýnikennsla í rúningi á meðan gestir stöldruðu við, um hana sáu þeir Klifshagabræður, Baldur og Daníel Stefánssynir. Gestir þáðu súpu og brauð, kaffi og með því áður en haldið var út á Sléttu. 
 
Í Leirhöfn var fyrsta fjárhúsið með vélgengum kjallara
 
Hópurinn hélt þá að Leirhöfn og Nýhöfn þar sem m.a. var skoðuð fjárrétt við bæinn. Á Leirhöfn var á sínum tíma reist fyrsta fjárhús hér á landi með vélgengum kjallara. Þá var haldið heim að Snartarstöðum og skógrækt ábúenda, Helga Árnasonar og Sigurlínu Jóhannesdóttur, og fræðst um hana, en þau hjónin rækta skóg á um 100 hektara lands.
 
Veglegur kvöldverður í Feykishöll
 
Dagsferðinni lauk með veglegum kvöldverði í reiðhöllinni á Snartarstöðum, Feykishöllinni, lambasteik með öllu tilheyrandi. 
 
Sigþór segir ýmsa hafa lagt sitt lóð á vogarskálar til að gera daginn eftirminnilegan, auk Búnaðarsambands Norður-Þingeyinga tóku Bústólpi, Búvís, Fjallalamb, Guðmundur Arason smiðja, Jötunn vélar, SS, VB Landbúnaður og Vökvaþjónustan Kópaskeri þátt.
 
Allir lögðust sælir á koddann um kvöldið
 
„Þessi dagur tókst í alla staði mjög vel verð ég að segja og örugglega flestir ef ekki allir sem lögðust sælir og ánægðir á koddann um kvöldið,“ sagði Sigþór. 

9 myndir:

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...