Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Bæði gagn & gaman
Menning 29. mars 2023

Bæði gagn & gaman

Höfundur: Vilmundur Hansen

Hljóðbækur njóta sífellt meiri vinsælda og mörgum þykir þægilegt að láta lesa upphátt fyrir sig þegar þeir eru úti að skokka, á brettinu, við bústörfin eða halla sér í sófanum. Auk þess sem í dag eru margir sem gefa sér ekki tíma til að lesa en vilja samt kynnast bókum.

Aðalsteinn Magnússon, forstöðumaður Hlusta.is, segir að frá aldamótum hafi fyrirtækið verið að búa til hljóðskrár og án undantekninga er birt nýtt efni vikulega og er verði áskriftar stillt í hóf.

„Þetta eru bækur sem gjarnan eru kenndar í skólum, svo sem Grettis saga, Egils saga, Brennu-Njáls saga, Kjalnesinga saga, Laxdæla, Hrafnkels saga og Gísla saga Súrssonar auk Íslendingaþátta.“

Heimilisbókasafnið

„Hlusta var komið með mikið efni árið 2008 og augljóst að ef héldum áfram á þessari braut, gætum við boðið fólki upp á að „eiga“ álitlegt bókasafn í áskrift.

Heimilisbókasafn var stefnan okkar og að þar væri hægt að velja úrvalsefni. Bækur sem væri gaman að hafa aðgang að hvenær sem væri. Ekki síðasta skandinavíska morðgátan, heldur eitthvað sem gleddi hugann og skildi eitthvað eftir. Í ljós kom að Íslendingasögur vöktu áhuga margra, og það að geta fengið þær lesnar upp var ný og spennandi reynsla. Við héldum því áfram á braut fornbókmenntanna og létum lesa upp aðra sagnaflokka, fornaldarsögur, riddarasögur og biskupasögur svo það helsta af þessum toga sé nefnt.“

Íslenskir þjóðhættir eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili er ein þeirra áhugaverðu bóka sem finna má á Hlusta.is.

Þjóðleg fræði

„Dæmigerð bók af íslenskum toga eru Íslenskir þjóðhættir Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili, sem er brunnur þekkingar um forna menningu okkar, daglegt líf, venjur og atvinnuhætti. Það sama á við mikinn fjölda bóka í safni okkar, eins og t.d. verk Theódórs Friðrikssonar, Í verum. Og ekki má gleyma þjóðsögum Jóns Árnasonar.“

Sögulegar skáldsögur

„Við höfum síðan fært okkur nær nútímanum og höfum lesið sögulegar skáldsögur Torfhildar Hólm, fyrsta atvinnurithöfundar okkar sem fékk reglulegar greiðslur frá Alþingi. Þar má nefna sögurnar um Brynjólf biskup og Ragnheiði biskupsdóttur; einnig Jón Arason biskup og örlög hans. Þarna eru líka skáldsögur Jóns Thoroddsen, Piltur og stúlka og Maður og kona; Mannamunur Jóns Mýrdals o.s.frv. Svo koma ástsælir höfundar eins og Jón Trausti, en Halldór Laxness hafði mikið dálæti á honum, eins og þjóðin öll, og má í því sambandi minna á verk Jóns Trausta um Skaftárelda. Þarna eru líka rit eldklerksins um sömu atburði móðuharðindanna.

Íslendingasögurnar hafa vakið áhuga margra og það að geta fengið þær lesnar upp er mörgum ný og spennandi reynsla.

Torfhildur Hólm hafði verið í Vesturheimi en þar fóru á þeim tíma að birtast þýddar skáldsögur sem nutu mikilla vinsælda. Gjarnan voru það heimsbókmenntir eins og t.d. Hringjarinn í Notre Dame. Í gegnum þennan farveg komu líka rit Nóbelsverðlaunahafans Selmu Lagerlöf. Og við höfum haldið áfram á þessari braut og lesið sögur margra Nóbelskálda.“

Eitt og annað áhugavert

„Jóhann Magnús Bjarnason bjó í Vesturheimi og skrifaði Brasilíufarana og fleiri afar vinsælar bækur. Einar Hjörleifsson Kvaran var svo enn einn hinna vinsælu höfunda sem tengdust Vesturheimi.

Við höfum líka lesið flest það helsta sem var skrifað og þýtt hér heima og er í því sambandi gott að nefna þýðingu Steingríms Thorsteinssonar á Þúsund og einni nótt, verk sem slagar í 3.000 blaðsíður.“

Aðalsteinn segir að Hlusta.is hafi komið sér upp góðu safni fáséðra bóka sem komnar eru úr höfundarrétti í bland við margar nýrri bækur eftir núlifandi íslenska höfunda, sem enn eru í höfundarrétti.

„Það kennir því margra grasa á Hlusta.is og við eru stöðugt að fylla í eyður og meðal annars að beina sjónum að eldri bókum sem skrifaðar voru af konum, og eigum við þar mikið verk fyrir höndum. Auk þess sem við viljum líka vera með meiri umfjöllun um bækur, svo sem með podköstum.“

Matvæli hluti af þjóðaröryggi
Fréttir 5. desember 2025

Matvæli hluti af þjóðaröryggi

Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands skilaði fyrir skemmstu af sér til...

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f