Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Karl G. Friðriksson og Grétar Gústavsson við Massey Ferguson 35x árgerð 1963 sem verður notaður til þess að keyra Vestfjarðahringinn í sumar.
Karl G. Friðriksson og Grétar Gústavsson við Massey Ferguson 35x árgerð 1963 sem verður notaður til þess að keyra Vestfjarðahringinn í sumar.
Mynd / ÁL
Líf og starf 11. júlí 2022

Á traktor gegn einelti

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Æskuvinirnir Karl G. Friðriksson og Grétar Gústavsson ætla að aka Vestfjarðahringinn í sumar.

Með því ætla þeir að láta gott af sér leiða og safna styrkjum fyrir Vináttu, sem er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti. Árið 2015 óku þeir félagar hringinn í kringum landið á þjóðvegi 1 til þess að vekja máls á þessu sama málefni.

„Við ætlum að klára það sem eftir er af hringnum núna í sumar með því að aka Vestfirðina frá Staðarskála að Hvanneyri. Við leggjum af stað frá Staðarskála miðvikudaginn 13. júlí klukkan tíu og vonumst til þess að sjá sem flesta. Við höfum verið í sambandi við nokkra bændur og Ferguson-áhugamenn á svæðinu, en öllum er velkomið að koma. Það skemmir ekki fyrir ef menn mæta á Ferguson. Ef allt gengur að óskum þá komum við í mark á Hvanneyri þann 20. júlí,“ segir Karl.

Félagarnir munu stoppa í leikskólum á leiðinni til þess að kynna verkefni Barnaheilla Vinátta gegn einelti, sem er fyrirbyggjandi verkefni fyrir leikskólabörn. „Við ferðumst með fjólubláan bangsa sem heitir Blær, sem er einkennismerki verkefnisins, og við munum taka hann með okkur á leikskólana,“ segir Karl.

„Jafnframt munum við heimsækja nokkur fyrirtæki á svæðinu þar sem þau ætla að lýsa yfir stuðningi við verkefnið, en auðvitað munum við líka heimsækja bændur þegar við erum að keyra um sveitirnar; rennum í hlað, heilsum og eigum vonandi gott samtal um landsins gagn og nauðsynjar.“

Keyra 100 km á fjórum tímum

„Við getum keyrt í 10–13 tíma á dag,“ segir Grétar. „Það er hins vegar mjög misjafnt. Suma daga keyrum við bara í tvo tíma og jafnvel ekki neitt. Við erum að jafnaði fjóra klukkutíma að keyra hundrað kílómetra með stoppum.“
Félagarnir beita ýmsum ráðum til þess að halda kostnaði við ferðalagið í lágmarki. „Við erum að reyna að fá vini og vandamenn til þess að styðja okkur, en við viljum helst að peningurinn sem við söfnum renni beint í Barnaheill. Við höfum til að mynda leitað til vina, vandamanna og vina þeirra eftir gistingu til þess að spara kostnað,“ segir Karl.

Gamall draumur æskuvina
Vinir Ferguson ungir að árum á Valdarási í Fitjárdal. Mynd / Einkaeign

Grétar og Karl kynntust ungir að aldri í sveit á Valdarási í Fitjárdal í Vestur-Húnavatnssýslu. „Ég var sex ára þegar ég kom þangað og Karl var fimm ára þegar hann kom fyrst. Ég bjó þarna alveg þangað til ég var 17
ára og Karl var alltaf í sveit þarna á sumrin,“ segir Grétar.

Karl bendir á fagurrauðan Massey Ferguson 35x við hlið sér. „Þegar þessi gripur kemur í hlaðið árið 1963 vorum við farnir að keyra traktora og tókum ástfóstri við vélina. Þetta er sama vélin og kom á Valdarás á sjöunda áratugnum. Hin vélin sem við notum er sambærileg og er í eigu Hauks Júlíussonar á Hvanneyri. Hann hefur verið einstök hjálparhella í báðum þessum ævintýraferðum okkar.“

Axel Guðmundsson, bóndi á Valdarási, keypti vélina á sínum tíma en að sögn Grétars lærði hann aldrei að keyra traktor. „Við urðum því hálfgerðir umsjónarmenn vélarinnar, ég tíu ára og Karl átta ára. Ég segi svo við Karl
þarna um sumarið að það væri nú gaman að fara hringinn á þessum traktor. Við veltum því mikið fyrir okkur en við vissum ekki alveg hvernig við ættum að komast yfir Skeiðarársand. Svo hringir Karl í mig fyrir nokkrum árum og fer að spyrja mig hvort við ætlum ekki að láta verða af því að fara hringinn þar sem að allt sé orðið brúað og fínt. Ég hélt fyrst að hann væri að grínast, en svo hélt hann áfram að ýta á eftir þessu. Að lokum ákváðum við að láta verða af því og fórum hringveginn sumarið 2015.“

Allir styrkir af ferðinni renna í verkefni Barnaheilla

Meðal stuðningsaðila ferðarinnar eru Olís, N1, Húsasmiðjan, Búvélar, Plexigler og Bílagler. „Okkur hefur alls staðar verið tekið opnum örmum, en við höfum ekki verið sérstaklega að leita styrkja til þess að kosta sjálfa ferðina, heldur höfum við verið að hvetja fyrirtæki og fólk til þess að styrkja Barnaheill,“ segir Karl.

„Ég man ekki nákvæmlega hvað við náðum að safna miklum
fjármunum síðast, en Erna Reynisdóttir hjá Barnaheillum sagði okkur eftir ferðina að Vináttuverkefnið væri komið í meira en helming allra leikskóla á landinu og þessi fjáröflun hjálpaði til við það,“ segir Karl. „Peningarnir söfnuðust bæði þegar við vorum að keyra og þegar við gáfum út bókina Vinir Ferguson. Allar tekjur af sölu þeirrar bókar fóru í verkefnið.“

Með ferðinni vilja félagarnir leggja sérstaka áherslu á hugtakið „vinátta“ enda hafa þeir haldið í sína miklu vináttu þótt þeir færu ólíkar leiðir í lífinu. „Grétar varð fyrir miklu einelti og átti erfiða æsku. Sjálfur finn ég mikið til með fólki sem fær ekki þá virðingu sem það á skilið. Þetta hefur sérstaklega mikil áhrif á börn,“ segir Karl.

Hægt er að fylgjast með ferðum félaganna á Facebook og Instagram, undir Vinir Ferguson og Vestfjarða. Þau sem vilja leggja verkefninu lið geta sent SMS skilaboðin „Barnaheill“ í síma 1900 og styrkt um 1.900 krónur. Það er líka hægt að styrkja verkefnið í gegnum heimasíðuna barnaheill.is.

Skylt efni: vinir ferguson

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f