Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Austin-dráttarvélin reynd við jarðvinnslu á Korpúlfsstöðum, ef til vill vorið 1923.
Austin-dráttarvélin reynd við jarðvinnslu á Korpúlfsstöðum, ef til vill vorið 1923.
Mynd / Úr bókinni Korpúlfsstaðir eftir Birgi Sigurðsson
Lesendarýni 5. maí 2021

Austin-dráttarvélin sem lenti í skugganum

Höfundur: Bjarni Guðmundsson

Fyrra stríðið ýtti mjög undir þróun traktora, ekki síst hjólatraktora. Mannsafl til matvælaframleiðslunnar skorti svo að ákaft var kallað á vélaafl. Englendingurinn Herbert Austin (f. 1866) tók með góðum árangri þátt í kapphlaupi dráttarvélasmiða. Með auga á hönnun Henry Ford smíðaði hann tuttugu hestafla dráttarvél sem sérstaklega skyldi henta breskum bændum. Fyrir vélina hlaut hann silfurmedalíu plægingarfélaga árið 1919 og árið eftir vakti hún mikla athygli á stóru landbúnaðarsýningunum, svo mikla að eftir Hálandasýninguna það árið keypti Bretakóngur eina Austin-dráttarvél til nota á búi sínu í Balmoral.

Búnaðarfélag Íslands sendi ráðunaut sinn, Eggert Briem, til Englands árið 1920 til þess að „kynna sjer sem bezt, alt er að búnaðarverkfærum lýtur.“ Ytra rakst hann á Sigurð Þórólfsson frá Baldursheimi sem þar hugaði að smábýlarækt og notkun verkfæra. Þeim félögum leist svo vel á Austin-dráttarvélina að þeir hvöttu Búnaðarfélagið til þess að kaupa eina vél og sex vagna enda var það helsta hugmynd þeirra að beita vélinni til flutninga.

Austin-dráttarvélin í frumgerð sinni. Mynd / Mike Eggenton

Þótt athygli vekti á Búsáhalda­sýningunni 1921 hvarf Austin-dráttarvélin í skugga Lanz-þúfna­banans, sem yfirtók sviðið seinna um sumarið. Það heillaði áhrifamikla jarðræktarmenn að geta með honum fræst niður þúfurnar í einni eða tveimur umferðum. Jarðvinnslutæki við hæfi Austin-vélarinnar skorti og fátt hvatti því til notkunar hennar í því skyni. Ekkert varð því af tilraunum til þess að beita dráttarvélinni til jarðvinnslu eða ræktunar.

Austin-dráttarvélin stóð iðjulaus líklega til vors 1923 en þá var hún komin að Korpúlfsstöðum, þar sem brotið var land með Lanz-þúfnabananum. Sáð skyldi grænfóðri í fyrstu spildurnar. Árni G. Eylands, sem með þessar vélar kunni að fara, skrifaði m.a.: „Var þá Austin traktorinn tekinn, tjaslað aftan í hann tveimur gömlum diskaherfum og útgerð þessi notuð til þess að herfa niður hafra í flögin. Þá var einnig reynt að plægja með traktornum“ . . . Seinna skrifaði Árni: „Þetta var hin fyrsta jarðvinnsla með traktor á Íslandi sem nokkru nam og kom að fullkomnum notum.“ Hér má þó minnast Avery-hjólatraktorsins sem komið hafði fimm árum fyrr (1918) til Akraness en reyndist ekki alls kostar. Austin-vélin í Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri er góður fulltrúi þessara aldar gömlu tilrauna og tímamóta.

Það er hins vegar af dráttar­vélasmiðju Herberts Austin að segja að þótt hún kæmist upp í að smíða 66 dráttarvélar á viku (1920), brást markaðurinn; hún beið lægri hlut m.a. fyrir ódýrari framleiðslu Henry Ford. Af hagkvæmniástæðum var dráttarvélamíðin flutt til Frakklands. Í byrjun seinna stríðs lenti hún í höndum Þjóðverja sem héldu henni gangandi fram til 1942.

Bjarni Guðmundsson, Hvanneyri

Skylt efni: dráttarvélar | traktorar

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...