Árstíðabundin hringrás út í hött
Snemmþroski berja í Bretlandi sýnir að náttúran er streitt, segja sérfræðingar. Heitt sumar veldur því m.a. að ber hafa rýrnað vegna vatnsskorts og tré fella laufið fyrr.
Víða í Bretlandi hafa hrútaber verið þrútin að vöxtum síðan um mitt sumar, en eru nú skrælnuð og samanskroppin. Og það er ekki eina einkenni haustsins, sem virðist hafa komið mjög snemma; tré eru að fella lauf, epli eru þroskuð og akörn hrynja í jörðina.
Sérfræðingar segja þetta ekki aðeins merki um óvenjulega snemmkomið haust heldur sé þetta beinlínis vísbending um að náttúran sé undir miklu álagi. Í Englandi varð fyrir skemmstu fjórða hitabylgja sumarsins, hiti náði allt að 33,4°C og fimm héruð líða fyrir mikla þurrka. Guardian greinir frá.
„Margt af því sem við sjáum nú stafar af mjög heitu og þurru vori og sumri, þetta hefur verið eitt þurrasta tímabil sem sögur fara af,“ sagði Kathryn Brown, forstöðumaður loftslagsbreytinga og gagna hjá Wildlife Trusts. „Þetta lítur út eins og haustið hafi komið snemma, en í rauninni er um að ræða viðbrögð náttúrulegs umhverfis við þessu mjög öfgafulla vori og sumri sem eru fjarri því að vera meðaltalsaðstæður sem tegundir eru aðlagaðar að með tilliti til árstíðabundinnar hringrásar,“ sagði Brown jafnframt.
Trén rugluð í ríminu
Brown sagði að nú bæri á því að lauf birkis og aspar væru orðin brún og féllu, en í hennar eigin garði væru akörn þegar að detta af eikartrjám. „Tré fella fræ sín fyrr, sem viðbragð við streitu, því að þau reyna sjálfkrafa að tryggja viðgang sinn,“ sagði hún.
Einnig hefur verið varað við því að tré felli skyndilega greinar. Þó orsök þessa fyrirbæris sé ekki ljós, gerist það oft eftir langvarandi þurrt veður.
Samkvæmt loftslagsskýrslu veðurstofunnar (e. State of the UK Climate), valda loftslagsbreytingar nú breytingum á mörgum líffræðilegum ferlum í Bretlandi. Tim Sparks prófessor hefur bent á að plöntur og skordýr kvikni æ fyrr á vorin.
Sparks sagði einnig að fljótari þroski ávaxta væri afleiðing af hærra hitastigi, þar sem t.d. brómber rýrni vegna skorts á vatni. „Lauffall er líka vatnsvandamál; það er ekki haust í þeim skilningi að enn er vaxtarskeiði trjáa ekki lokið ef við fáum meiri rigningu,“ sagði hann.
Þó að tré séu að missa lauf vegna þurrka, sagði Sparks að almennt væri búist við að hlýrra loftslag myndi leiða til þess að tré haldi laufi lengur. Samfara snemmbúnum þroska ávaxta myndi það leiða til lengra hausts.
Hætt við skorti á fæðuframboði
Þó að breytingar á tímasetningu náttúrulegra atburða geti verið truflandi fyrir menn, gætu afleiðingarnar verið alvarlegar fyrir dýralíf. Eins og Brown bendir á hafa fuglarm svo sem svartþrestir, tilhneigingu til að borða skordýr að vori og sumri og gefa ungunum sínum þau þegar þeir eru að verpa. „Á á haustin skipta þeir yfir í fræ og ber, og ávexti eins og brómber. Og ef þau eru þegar komin og farin, þá verður fæðugjá á haustin,” sagði hún og bætti við að þetta hefði alvarleg áhrif á dýr sem reyndu að búa sig undir veturinn, þegar fæða væri af skornum skammti.
„Það er mjög erfitt að spá fyrir um hver áhrifin verða fyrir mismunandi tegundir, en þetta er áhyggjuefni, vegna þess að árstíðabundin hringrás er algjörlega út í hött í augnablikinu og dýralíf okkar er ekki aðlagað því,“ sagði hún.
Bændur í óvissu
Bændur reyna að aðlaga sig óútreiknanlegu veðri. Talsmenn forystu bænda í Bretlandi segja að bændur og ræktendur víðs vegar um landið standi frammi fyrir fjölbreyttum áskorunum hvað varðar uppskeru á þessu ári. Vaxandi öfgaveður hafi áhrif á getu bænda til að framleiða mat. Öfgarnar í ár séu fordæmalausar. Uppskeran á síðasta ári einkenndist af mikilli rigningu; í ár er það skortur á henni. Þessar sveiflur þurrka og flóða eru að verða áberandi og reglulegri.
Gögn frá Veðurstofunni hafa leitt í ljós að vetur eru að verða blautari og hitaöfgar hafa aukist, orðið tíðari og ákafari. Síðastliðinn júní var sá hlýjasti sem mælst hefur í Englandi, og sá næst hlýjasti í Bretlandi síðan mælingar hófust, árið 1884.
Spurt um framhaldið
Brown sagði að lykiláhyggjuefni væri að núverandi aðstæður væru að eiga sér stað með hlýnun jarðar um það bil 1,5°C yfir því sem var fyrir iðnbyltingu, en búist væri við meiri hlýnun.
„Það sem veldur mér virkilega áhyggjum er að sjá áhrifin nú á þessu tiltölulega lága stigi hlýnunar þar sem hlutirnir eru nú þegar að verða mjög streittir, og hugsa um hvernig þetta verður eftir fimm eða tíu ár, eða jafnvel á næsta ári,“ sagði hún. „Það er frekar erfitt að spá fyrir um, en lítur ekki mjög vel út,“ sagði hún við Guardian.
