Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Eysteinn Steingrímsson og forystuhrúturinn Frakkur ásamt hestinum Létti og hundinum Kjarki.
Eysteinn Steingrímsson og forystuhrúturinn Frakkur ásamt hestinum Létti og hundinum Kjarki.
Mynd / Aðsend
Viðtal 27. desember 2024

Arkar fram í eyðidal með forystuhrút í bandi

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Forystuhrúturinn Frakkur hefur reynst gulls ígildi. Í haust hefur hann aðstoðað eiganda sinn, Eystein Steingrímsson á Laufhóli í Skagafirði, við eftirleitir og heldur betur haft erindi sem erfiði.

Eysteinn rataði í fréttirnar árið 2022 þegar til hans sást ríðandi um sveitir með forystuhrút í taumi. „Móri var upphafið að þessari vitleysu og hefur þessi fíflagangur undið upp á sig. Það er ekkert grín að vera svona sérvitur,“ segir hann og á þá við þá iðju sína að ganga lengra í tamningum hrúta en menn yfirleitt gera.

Frakkur í essinu sínu.

Móri er því miður allur, en fjölástir urðu honum líklegast að aldurtila. Frakkur er náskyldur Móra.

„Frakkur er að sumu leyti skemmtilegri en Móri var. Frakkur er enn þá næmari gagnvart því að kenna honum. Ég gerði hann strax bandvanan á fyrsta vetri. Hann var mjög fljótur að tileinka sér það. Ég notaði hann við að finna blæsmur og tók fljótt eftir því þá hvað þægilegt er að eiga við hann,“ segir Eysteinn. Þegar kind er blæsma er hún eðlunarfús, og þá er æskilegur tími til að sæða.

Dýrin eru vinir

Eysteinn gekk þá lengra við tamningu Frakks. „Ég þjálfa aðeins hunda líka og hef haft hann með mér þar, því hann kemur alltaf til mín ef það er hundur nálægt. Því hann veit að hann er öruggur hjá mér.“

Hann segir tamningu forystuhrúta í sjálfu sér ekki ólíka þjálfun annarra nytjadýra.

„Það hefur verið heilmikil vakning með að viðhalda hreinu forystufjárkyni en svo bölva þessu margir líka, því þær geta verið mjög óþekkar. En það er með forystuféð eins og hunda og hross, það þarf að gera féð að vinum sínum. Þá fyrst getur maður farið að temja það og þá getur maður nýtt sér dýrin eins og í þessu tilfelli.“

Svo vel fór á með þeim Frakki að Eysteini datt í hug að láta reyna á notagildi forystuhrútsins við eftirleitir.

„Byrjunin á þessu var þegar ég missti kind, sem ekki náðist, fram af Skálum upp í Kolbeinsdal sem er upprekstrarsvæðið okkar. Það var kominn snjór og ég keyrði Frakk áleiðis og teymdi hann að Tungnahrygg, fremst í dalnum, og skildi hann eftir þar. Nokkrum dögum seinna skilaði hann sér niður á láglendi, að gangnamannakofanum, með þessa kind,“ segir Eysteinn hróðugur.

Síðan þá hefur hann þrammað aftur fram í dal í eftirleitir með forystuhrútinn í bandi, rétt eins og Fjalla-Bensi og förunautar hans, Eitill og Leó, í hinni dáðu nóvellu Gunnars Gunnarssonar, Aðventu.

Eysteinn fór með Frakk upp á Heljardal í Kolbeinsdal í þeim tilgangi að finna eftirlegukindur. Reyndist það ferð til fjár.
Dýrmætt bataferli

„Það sem er frábærast við Frakk er að hann tekur aldrei í taum. Hann fylgir manni bara eftir og maður veit varla af honum. Það er snjór og leiðindi þarna framfrá og ég hefði ekki getað farið með hann öðruvísi, enda hef ég ekki náð upp fyrri styrk eftir krabbameinsmeðferðir,“ segir Eysteinn en hann hefur verið að berjast við þann vágest í nokkur ár.

„Þetta hefur verið liður í mínu bataferli að standa í þessu því ég nennti ekki að fara í líkamsrækt. Ég þarf að hafa einhvern tilgang með að fara út og labba – brasa eitthvað. Þetta er sérviska í hnotskurn. En það er dásamlegt að fara til fjalla, vera einn þarna með hund, hest og hrút og engan til að segja manni fyrir verkum.“

Eysteinn hefur deilt ferðum sínum með myndum af fegurð Kolbeinsdals um haust og að vetrarlagi og bjölluskreyttur Frakkur í forgrunni vekur hrifningu. „Þetta er bara pjátur,“ segir Eysteinn um tilgang bjöllunnar.

Holdgervingur Fjalla-Bensa

Í bókinni Forystufé og fólk í landinu eftir Daníel Hansen og Guðjón Ragnar Jónasson er sagt frá forystufjárræktinni í Laufhóli sem rekja má til ársins 1961. Einnig er samvinnu forystuhrútsins Móra og Eysteins gerð góð skil, meðal annars með skemmtilegum brag Gunnars Rögnvaldssonar en hér fylgja þrjú erindi:

Í Kolbeinsdalnum haustsins hret
háði gangnamönnum.
En Eysteinn skjátur ekki lét
eftir sitja í bönnum.

Lögðu af stað í ferð til fjár
fram í eyðidalinn.
Traustur hestur, hundur knár
hrúturinn og smalinn.

Í brunagaddi, birtu van,
brota og þæfingsfæri.
Var þar eins og Aðventan
endurskrifuð væri.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...