Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Ráðunautar RML í þjálfun hér á Íslandi ásamt Anu Ella og Jarkko Storberg.
Ráðunautar RML í þjálfun hér á Íslandi ásamt Anu Ella og Jarkko Storberg.
Mynd / STS
Á faglegum nótum 14. desember 2022

Árangursrík aðferð í samtali og samvinnu bænda

Höfundur: Sigurður Torfi Sigurðsson, ráðunautur á rekstrar- og umhverfissviði og Þórey Gylfadóttir, ráðunautur á rekstrar- og umhverfissviði

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins fer af stað með nýja þjónustu í byrjun næsta árs, svokallaða „Bændahópa“.


Þetta eru umræðuhópar bænda (e. discussion groups) þar sem þeir miðla þekkingu sinni og reynslu með markvissu samtali og vinnufundum. Ráðunautar leiða samtalið og stýra vinnufundum auk þess að deila upplýsingum og þekkingu þegar á vantar. Bændahópar geta unnið með ólík viðfangsefni. Þessi bændahópanálgun hefur reynst mjög vel víða erlendis, aukið ávinning bænda í búrekstri auk þess sem bændur upplifa félagsleg tengsl í hópunum sem jákvæðan og mikilvægan þátt. Hægt er að vinna í bændahópum með allt sem viðkemur landbúnaði og í ólíkum hópum t.d. rekstrarhópum, nautgripahópum og jarðræktarhópum. Í fyrstu mun RML setja upp bændahópa þar sem markmiðið er að auka þekkingu bænda í jarðrækt og öflun fóðurs, auk þess að bæta nýtingu áburðarefna og annarra aðfanga.

Ráðunautar RML í þjálfun hér á Íslandi ásamt Anu Ella og Jarkko Storberg.


Það að bændur hittist skipulega í hópum til að ráða ráðum sínum er ekki nýtt af nálinni. Í bændahópunum, sem RML mun nú bjóða upp á, er hins vegar beitt aðferðum sem sérstaklega hafa verið settar upp og þróaðar í þeim tilgangi að ná megi sem bestum árangri. Þetta er gert með skipulögðum vinnufundum og stýrðri umræðu. Mikilvægt er að halda vinnunni innan þess viðfangsefnis sem taka á fyrir hverju sinni og ná fram þeim þáttum sem hafa áhrif á útkomu vinnunnar. Bændur deila sín á milli hvað það er sem skilar þeim árangri í búskap og aðstoða jafningja við að innleiða árangursríkar nálganir og aðferðir, t.d. í jarðrækt. Einnig og ekki síður mikilvægt, er að huga að því sem ekki tókst eins og lagt var upp með heldur en því sem heppnaðist. Í bændahópum deila bændur með jafningjum hvaða helstu áskoranir það eru sem þeir standa frammi fyrir og hvaða vandamál þeir hafa verið að glíma við og í samtali leitar hópurinn bestu lausna. Árangur og gildi fundanna byggir á virku samtali, en öll reynsla er góð reynsla. Ráðunautar sem vinna með hópa leiða samtalið til að það skili markvissum upplýsingum. Þeir þurfa að setja sig í ný og tiltekin hlutverk með það að markmiði að geta lóðsað hópinn að sem bestri niðurstöðu og að sérhver bóndi geti náð markmiðum sínum og aukið árangur sinn.

Undanfarið ár hafa ráðunautar RML verið að afla sér þekkingar á hvernig best er að leiða umræðu og vinnu í bændahópum. Nálgun og skipulag funda verður að finnskri fyrirmynd, en sótt hefur verið þekking og reynsla til eins fremsta grasræktarsérfræðings Finna, Anu Ellä. Anu hefur mjög mikla reynslu í að stýra bændahópum og hefur undanfarin 18 ár stýrt hópum sem hafa að markmiði að bæta þekkingu í jarðrækt og auka fóðurgæði. Reynsla Finna af þessum hópum sýnir að dæmi eru um að þeir hafi aukið uppskeru og afurðir á búum sínum umtalsvert. Þannig var meðaluppskera þátttakenda í bændahópum í Vestur- Finnlandi 10.600 kg.þe./ha meðan meðaluppskera í Finnlandi var 6000 kg.þe./ha árið 2021. Bændur í bændahópunum þakka þennan góða árangur m.a. aukinni meðvitund um ólíka kosti fræblandna, betri nýtingu áburðarefna, notkun skjólsáningar og ísáningar við endurræktun og einnig auknum sýnatökum úr jarðvegi og fóðri. Rétt er að taka fram að margir hóparnir halda áfram ár eftir ár sem er mikilvægur hluti af því að ná svo góðum árangri. Vegna þessa góða árangurs hefur Anu verið fengin til að þjálfa ráðunauta víða um heim. Hún hefur m.a. þjálfað ráðunauta í Noregi þar sem þessi þjónusta hefur verið í boði undanfarin ár og skilað þarlendum bændum miklum ávinningi í búrekstri.

Hóparnir skila þátttakendum miklum árangri í öllum búrekstri en hafa einnig félagslegt gildi. Þegar bændahópar halda saman í mörg ár verður þróun og breyting á viðfangsefnum auk þess sem þá er gjarnan farið í ferðir til annarra svæða eða landa til að afla frekari þekkingar og læra af reynslu annarra. Þátttaka í hópunum hefur líka sýnt sig að vera jákvæð félagsleg upplifun en fátt er skemmtilegra en að grúska í því sem maður hefur áhuga á í góðum félagsskap.

Finnskur bændahópur og íslenskir ráðunautar frá RML fylgjast með (til vinstri).


Bændahópar eru fyrir alla bændur sem vilja ná árangri í búrekstri og auka uppskeru og afurðir.

Áætlað er að fyrstu bændahópar RML komi saman um miðjan febrúar nk. Eins og fyrr segir mun viðfangsefni sem unnið verður með í þessum hópum snerta jarðrækt og bætta nýtingu áburðarefna. Atriði sem falla hér undir eru t.d. áburðarnýting, kölkun, aukinn þéttleiki svarðar, tegundir og yrki, heilbrigði jarðvegs, fóðurgæði og framleiðslukostnaður út frá áburðarkostnaði. Hópurinn hefur áhrif á hvar áherslurnar eiga að vera og getur það tengst markmiðum sem bændur hafa sett sér.

Alla jafna samanstendur hver bændahópur af 10 bændum og tveimur starfsmönnum RML en nú í okkar fyrstu skrefum munu ráðunautarnir vera þrír með hverjum hóp. Ef fleiri en einn aðili kemur að búrekstri á búi geta báðir aðilar tekið þátt og þá með þeim hætti að sami aðilinn mæti alltaf eða báðir en ekki er leyfilegt að skiptast á að mæta. Verkefnið er ársverkefni og hist er sex sinnum nú þetta fyrsta ár, auk þess sem sambandi er haldið þess á milli í gegnum netið.

Á fyrsta fundi er ákveðið hvaða þætti skuli lögð áherslu á það árið, hver markmið hópsins eru, auk þess sem hópurinn setur sér reglur varðandi t.d. símanotkun, stundvísi og hvaða gögnum menn ætli að deila með hópnum. Fyrsti fundur er í fundarsal, eða sambærilegri aðstöðu. Næstu fundir þar á eftir eru á bæjum einhvers úr hópnum og koma þátttakendur í hópnum sér saman um fyrirkomulag og staðsetningar. Dagskrá funda fer bæði fram innan- og utandyra eftir eðli verkefna sem tekin verða fyrir hverju sinni.

Við bindum miklar vonir við þetta nýja verkefni og teljum að það geti verið bændum til mikilla hagsbóta. Búið er að opna fyrir umsóknir á heimasíðu RML.

Skylt efni: Bændahópar

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...