Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Vegna bráðnunar jökuls hefur 1.500 ára sláturrétt komið í ljós í Noregi. Undir ísnum voru kjöraðstæður til varðveislu minjanna.
Vegna bráðnunar jökuls hefur 1.500 ára sláturrétt komið í ljós í Noregi. Undir ísnum voru kjöraðstæður til varðveislu minjanna.
Mynd / Universitetsmuseet i Bergen
Fréttir 26. nóvember 2025

Aldagömul rétt birtist undan jökli

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Fornleifafræðingar í Noregi hafa fundið minjar í 1.400 metrum yfir sjávarmáli sem birtust í kjölfar bráðnunar lítils jökuls á Aurlandsfjallinu við Sognarfjörðinn.

Þarna mátti meðal annars finna rétt sem líklega var notuð af höfðingja í Aurland í kringum árið 500 til að smala hreindýrum til slátrunar. Hún er gerð úr tilhöggnum trjágreinum og stærri bautum. Hún er staðsett í fjallshlíð og í laginu eins og trekt, þar sem breiðasti hlutinn er efst. Neðst má sjá ummerki eftir stíu sem sennilega var nýtt til að taka dýrin af lífi. Samkvæmt fornleifafræðingunum hefur þetta verið varanlegt mannvirki og skipulagt í kringum slátrunina.

Tveir spjótsoddar úr járni leyndust undir ísnum.

Efniviðurinn hefur varðveist einstaklega vel undir ísnum, en jafnframt hafa fundist aðrir munir eins og tveir spjótsoddar úr járni, viðarsköft, nál úr beini og verkfæri sem líkist ár. Horn af hreinkúm og kálfum liggja þar hjá í haugum, sem fornleifafræðingarnir segja sterka vísbendingu um að þarna hafi þessum dýrum verið slátrað í stórum stíl. Nánast engin horn af hjörtum fundust á vettvangi, sem þykir benda til að þau hafi verið nýtt til vinnslu á nytjamunum.

Á sverari lurkunum má sjá að trén hafa verið felld með tveimur til þremur axarslögum, sem bendir til að verkfærin hafi verið sérlega beitt. Þá eru fornminjarnar það vel varðveittar að hægt er að sjá ummerki eftir skemmdir í verkfærunum sem notuð voru til að höggva til viðinn. Á árinni hefur varðveist fíngert útskorið mynstur og slitför benda til þess að hún hafi verið nýtt sem reka.

Á hreindýrshornunum má sjá skýr merki eftir axarhögg.

Er þetta í fyrsta skipti sem slík rétt, sem nýtt hefur verið til stórtækrar slátrunar, hefur komið undan jökli í Noregi og er sennilega einstök í allri Evrópu. Fyrstu ummerki hennar komu í ljós sumarið 2024. Fornleifafræðingar á vegum Háskólasafnsins í Björgvin og Vestland-fylkis voru að störfum á vettvangi í sumar og unnu í kappi við tímann við skrásetningu, varðveislu og sýnatöku. Samkvæmt mælingum er talið að það sem eftir er af ísbreiðunni sé sex metra þykkt og eru áætlanir uppi um að halda áfram rannsóknum á næstu árum samfara því sem ísinn bráðnar.

Ástæðan fyrir því að þessi rétt hefur varðveist svona vel er sú að hún var í notkun rétt fyrir kuldaskeið sem gekk yfir á sjöttu öldinni. Mannvirkið hvarf undir jökul á skömmum tíma þar sem var mátulega kalt, rakt og dimmt til að varðveita minjarnar í 1.500 ár. Nú koma þær í ljós vegna hnattrænnar hlýnunar.

Skylt efni: fornminjar

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...