Ákvað að byrja aftur að berjast
Hann er að sumu leyti kynlegur kvistur, húsasmíðameistarinn í Hveragerði sem líka er kartöflu- og skógarbóndi í Lettlandi og byggir hús á einni fegurstu strönd Afríkuálfu.
Brynleifur Siglaugsson.
Brynleifur Siglaugsson er fæddur árið 1970, bjó lengi á Vopnafirði en flutti suður 1996. Hann á tvo syni, fædda 1998 og 2004. Lengst af hefur hann byggt og selt hús hingað og þangað um landið en 2008 urðu verulegar breytingar á högum hans.
„Í hruninu fór allur byggingariðnaðurinn lóðrétt til helvítis,“ segir Brynleifur. „Það þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um hvað gerðist: í rauninni var bara öllu stolið af fólki. Við vorum með rekstur, áttum svolítið af atvinnuhúsnæði með erlendum lánum sem þrefölduðust svo það fór bara allt lóðbeint til fjandans.“
Erfitt að búa hér
Brynleifur sendi frá sér opinbera yfirlýsingu þar sem hann vandaði ráðamönnum ekki kveðjurnar og sagðist vera farinn úr landi, hér væri ekki hægt að búa. Hann fór til Noregs en entist þar ekki nema í þrjá mánuði. „Það var ekkert mjög gaman af því,“ segir hann, nokkuð kaldranalega. Hann kom því aftur upp. „Ég ákvað að vera hér og byrja aftur að berjast.“
Hann segir hafa gengið fínt hjá sér síðan. Árið 2014 keypti hann gamalt hús í Hveragerði og gerði upp og hefur búið þar síðan ásamt sonum sínum. „Ég er með byggingafyrirtæki hér og búinn að byggja slatta af húsum í Hveragerði og Mosfellsbæ og taka að mér alls konar verk. Var m.a. að klára íbúðir í Mývatnssveit núna.“ Honum sýnist þó að allt sé að fara á verri veg í þjóðfélaginu aftur. „Ég er með verkefni út næsta ár, er ekki með einhver erlend lán – maður lærði eitthvað af þessu hruni – og er því rólegur.“ Hann segist sakna sterkra stjórnmálaleiðtoga á þingi og gefur lítið fyrir pólitíkina nú til dags, auk þess sem hann segist hafa illan bifur á hvernig ríki séu að gefa lýðræðisrétt sinn eftir til ýmissa alþjóðastofnana.
Byggði sér hús á bestu strönd álfunnar
Víkur þá sögunni út fyrir landsteina. „Ég fór til Brasilíu 2005 og varð alveg heillaður,“ heldur Brynleifur áfram. „Ég keypti mér svolítið land þar og ætlaði að byggja mér hús en svo varð hrunið 2008 og setti strik í reikninginn.“
Hann seldi landið og ekki varð meira úr Brasilíuhugmyndinni. En var þó ekki af baki dottinn. Hann hafi afar gaman af því að ferðast og helst til staða þar sem eru ekki margir Íslendingar. Árið 2019 fór hann til Kenía með vinum og hreifst af landinu. „Ég var búinn að bíta í mig og vinna að því í nokkur ár að geta keypt mér land einhvers staðar þar sem er almennilegt veður og byggt mér hús. Eftir fyrstu ferðina til Kenía gerðist allt mjög hratt: ég keypti mér lóð og fór svo bara að byggja, fyrir einu og hálfu ári síðan.“
Húsið stendur á Diani- ströndinni, í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Mombasa, annarri stærstu borg landsins, og er ströndin sögð ein af fimm bestu og fegurstu ströndum allrar heilu Afríku. Brynleifur segir svæðið gríðarlega fallegt. „Það er bara alveg dásamlegt að vera þarna,“ segir hann en reiknar þó með að setja húsið í leigu til ferðamanna, það sé allt of stórt fyrir sig. Ekki sé tiltakanlega flókið að kaupa sér landskika í Kenía og hann hyggst byggja þar meira.
Skógar- og kartöflubóndi í Lettlandi
Fyrir þremur árum festi Brynleifur sér einnig litla jörð í Lettlandi.
Fánar Íslands og Lettlands blakta við húsið í lettnesku sveitinni.
„Ég hef alltaf verið dálítið hrifinn af Austur-Evrópu,“ segir hann og bætir við að hann hafi verið með mannskap frá Litháen í vinnu síðan 2005 og sumir þeirra séu enn að vinna hjá honum. „Þegar ég skoðaði Lettland í alvöru varð ég alveg heillaður af því líka,“ bætir hann við og heldur áfram: „Mig langaði alltaf að kaupa mér svolitla spildu og gamalt hús í einhverju af þessum löndum þarna. Ég keypti 21 hektara og þar er skógur, ræktarland og gamalt bjálkahús sem við feðgarnir stefnum á að gera upp.“
Jörðin er í um eins og hálfs tíma akstursfjarlægð í austur frá höfuðborginni Ríga.
„Þegar ég var búinn að kaupa þetta gat ég náttúrlega ekki annað en sett niður kartöflur,“ segir Brynleifur og hlær dátt. „Það er ekki nóg að vera bara skógarbóndi, maður verður líka að vera kartöflubóndi!“ Hann segir það þó til gamans gert.
„Við setjum niður kartöflur á vorin og stundum kemur fólk frá Íslandi að hjálpa til. Við höfum svo þrjú ár í röð haldið sérstaka kartöfluhátíð í lok ágúst þegar kartöflurnar eru teknar upp. Og það er búið að vefja ansi mikið upp á sig,“ hnýtir hann við.
Sérstakur kartöflubjór er bruggaður fyrir kartöfluhátíðina.
Kartöfluhátíð og sérbruggaður kartöflubjór
Í tilefni kartöfluhátíðarinnar er haldin heilmikil matarveisla með dúkuðum borðum og miklu skrauti í gamalli þaklausri hlöðu. Ekki er kastað til höndum í undirbúningi. „Þar er raðað upp, mikið lagt í skreytingar og komið fyrir sviði,“ útskýrir Brynleifur. „Fólk mætir yfirleitt daginn áður og kemur sér fyrir í kring, á hótelum og gistiheimilum. Núna í haust komu þrjátíu manns frá Íslandi og annað eins frá Lettlandi og Litháen. Svona sérvalið fólk!
Á laugardagsmorgni mætir fólkið svo í kartöfluupptöku. Og þá eru teknar upp kartöflur, sem tekur svona tuttugu mínútur til hálftíma, og er gert með dyggri aðstoð nágrannabónda okkar sem kemur á gamalli dráttarvél og fræsir upp kartöflurnar,“ segir hann og bætir við að magnið hafi verið um 500 kg.
Brynleifur sér elliheimili í grenndinni fyrir bæði eldiviði og kartöflum auk þess sem foreldrar sérlegrar aðstoðarkonu hans starfa þar. Því fór allur hópurinn sem mættur var á kartöfluhátíðina þangað í skoðunarferð eftir kartöfluupptökuna.
„Aðbúnaður á lettnesku elliheimili er svolítið öðruvísi en á Íslandi,“ segir hann og bætir við að þótt húsnæðið sé gamalt og fólk deili herbergi sé áberandi hversu því líði vel, andinn sé góður og hugsað vel um mannskapinn. „Um kvöldið var svo vínkynning úr héraði fyrir borðhald, við fengum kokka sem komu og elduðu, og síðan mætti band og spilaði fyrir dansi fram á nótt.“ Hann segir þetta hafa verið gríðarlega skemmtilegt.
Falleg innsetning við heimreiðina til að auglýsa karöfluhátíðina.
Rjúpur og takkaskór með til Kenía
Brynleifur segist munu halda jól í Kenía ásamt sonum sínum. Hátíðin þar sé látlaus. Hann segist ætla að taka með sér þrjár rjúpur í jólamáltíðina: „Það er spurning hvernig kokkurinn minn úti tekur því þegar ég fer að hamfletta þær á Þorláksmessu!“ Hann tekur líka með sér bjúgu og hákarl – og jafnvel hangikjötsbita og harðfisk. En það sem þyngst mun vega í farangrinum verða tvær fullar ferðatöskur af fótboltaskóm.
„Yngri sonur minn er mikið í fótbolta,“ segir Brynleifur. „Nú förum við með tvær ferðatöskur af takkaskóm sem vinur okkar, Gunnar Borgþórsson, fótboltaþjálfari á Selfossi, er búinn að safna. Í Ukunda, sem er lítið þorp á svæðinu þar sem ég bý, eru fótboltalið sem fá takkaskóna. Í haust fór ég með tvær ferðatöskur af notuðum og nýjum fótboltabúningum frá Selfossi og Hamri í Hveragerði. Það vakti gríðarlega lukku þarna úti. Það þarf lítið til að gleðja þau og þetta er mjög gaman.“
Brynleifur segist hafa tilfinningu fyrir að Kenía sé á barmi mikilla breytinga. Þar sé nýr forseti sem vilji koma hlutum til betra horfs en gríðarleg spilling sé landlæg. Kenía sé þó eftirsótt til búsetu vegna þess að landið teljist sæmilega öruggt og efnahagur ekki sérlega óstöðugur. Veðursæld sé og mikil og fólkið gott. Gestir hans hafi orðið yfir sig hrifnir af landi og þjóð.
Hann segist í framtíðinni ætla að vera heima á Diani-strönd á vetrum og á vorin og haustin heima í Lettlandi. „Svo í júlí og ágúst heima á Íslandi, það er planið,“ segir hann kankvís.
Hann ætli ekki að byggja upp í fleiri löndum í bili: „Ég verð að reyna að hemja mig eitthvað!“ segir Brynleifur húsasmíðameistari að lokum.
