Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Garpur 23-746 frá Ytri-Skógum, síðar stöðvahrútur númer 23-936. Hann varð því miður bráðkvaddur á dögunum en bót í máli er að enginn stöðvahrútur er með fleiri skráðar sæðingar eftir síðasta fengitíma, eða 1.373 sæðingar.
Garpur 23-746 frá Ytri-Skógum, síðar stöðvahrútur númer 23-936. Hann varð því miður bráðkvaddur á dögunum en bót í máli er að enginn stöðvahrútur er með fleiri skráðar sæðingar eftir síðasta fengitíma, eða 1.373 sæðingar.
Mynd / Birna Sigurðardóttir
Á faglegum nótum 13. mars 2025

Afkvæmarannsóknir hjá bændum 2024

Höfundur: Árni Brynjar Bragason, r ráðunautur á búfjárræktar- og þjónustusviði.

Haustið 2024 voru greiddir út styrkir vegna 65 afkvæmarannsókna hjá bændum sem töldust styrkhæfar. Í heild voru afkvæmahóparnir 601 og þar af eiga veturgamlir hrútar 422 afkvæmahópa.

Umfangið er nokkuð minna en haustið 2023 en þá voru búin 71 og afkvæmahóparnir 720. Afkvæmahópunum hefur því fækkað tiltölulega meira en búunum. Nú eru 70% hrútanna í afkvæmarannsóknunum veturgamlir en haustið 2023 var hlutfall veturgamalla hrúta 59%. Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi riðuarfgerðum leiðir til þess að notkun á veturgömlum hrútum hefur aukist og færri eldri hrútar í notkun. Jafnframt má búast við að sá þröskuldurinn sé orðinn hærri sem veturgamlir hrútar þurfa að komast yfir til að fá áframhaldandi notkun. Samantekt yfir niðurstöður styrkhæfra afkvæmarannsókna sem framkvæmdar voru af bændum veturinn 2023 til 2024 er að finna á heimasíðu RML undir liðnum Forrit og skýrsluhald – Niðurstöður 2024. Lengri listar yfir hrúta sem skara fram úr verða jafnframt birtir í frétt á heimasíðunni.

Hrútar sem sýna mesta yfirburði í heildareinkunn

Þór 19-307 í Innri-Múla á Barðaströnd stendur hér efstur fjórða haustið í röð. Hann hefur verið einn besti hrúturinn á sínu heimabúi undanfarin ár en samt með mjög öfluga keppinauta. Þór er sonur Spaks 16-302 sem stóð á toppnum á búinu í afkvæmarannsóknum 2017-2019 og sýndi jafnan mikla yfirburði. Þór hefur reynst frábær lambafaðir en þetta var hans síðasti lambahópur. Í öðru sæti er veturgamall hrútur, Glaður 23-490 frá Hvammi í Lóni. Glaður er sonur Galla 20-875 frá Hesti. Glaður sýnir mikla yfirburði á sínu heimabúi bæði í mati á lifandi lömbum og í kjötmatshlutanum. Móðir Glaðs er dóttir Kögguls 17- 810 frá Hesti þannig að það er nokkuð þykkt Hestblóð í þessum hrút. Í þriðja sæti er annar veturgamall hrútur og heitir sá Séra Bjössi 23-108. Hann er frá Ragnari og Sigríði á Heydalsá en sonur Glæsis 19-887 frá LitluÁvík. Sláturlömb undan Séra Bjössa flokkast framúrskarandi vel og eins kemur hann sterkur út úr mati á lifandi lömbum. Sá fjórði í röðinni er nú orðinn stöðvahrútur, Faldur 23-937 frá Ytri-Skógum og þarf ekki að hafa mörg orð hér um þann glæsilega og eftirsótta kynbótahrút (sjá töflu 1).

Tafla 1: Hrútar með 124 eða meira í heildareinkunn.

Hrútar sem sýna mesta yfirburði í kjötmatseinkunn

Þegar raðað er eftir kjötmatseinkunn stendur Séra Bjössi 23-108 sem fyrr er getið efstur. Annar í röðinni er Uggur 23-115 frá Lindarbrekku í Berufirði. Uggur er hyrndur og kemur raunar frá sama búi og Séra Bjössi því hann var keyptur sem lamb frá Ragnari og Sigríði á Heydalsá 1. Sá þriðji er eldri kappi Örn 20- 761 sem var nú afkvæmaprófaður í Sandfellshaga 1 en er frá Klifshaga 2. Þar hafði hann áður reynst mjög vel sem lambafaðir og komið við sögu í afkvæmarannsóknum. Þessi hrútur er sonur Fálka 17-821 frá Bassastöðum en út af hyrndu fé í móðurætt (sjá töflu 2).

Tafla 2: Hrútar með 134 eða meira í kjötmatseinkunn.

Hrútar sem sýna mesta yfirburði í fallþungaeinkunn

Hrútar sem skila miklum yfirburðum í fallþunga eru allrar athygli verðir á hverju búi því viðbótarkíló skilar fleiri krónum í budduna en svolítið hærri gerð. Verðmætastir eru að sjálfsögðu gripir sem ná frábærum árangri í öllum þremur þáttunum sem heildareinkunn er reiknuð út frá. Fálki 22-302 frá InnriMúla á Barðaströnd nær hæstri fallþungaeinkunn að þessu sinni. Hann er aðkeyptur frá Miðdalsgröf, sonarsonur Fálka 17-821 frá Bassastöðum (sjá töflu 3).

Tafla 3: Hrútar með 115 eða meira í fallþungaeinkunn.

Stöðvahrútar sem áttu flesta syni í afkvæmarannsóknum 2024

Í töflu fjögur má sjá þá stöðvahrúta sem áttu flesta syni sem tóku þátt í afkvæmarannsóknum á síðasta ári. Þarna er ánægjulegt að sjá að Þernuneshrútarnir þrír, sem eru frumkvöðlarnir í að koma riðuþolna geninu R171 í fjárstofn landsmanna, eiga flesta syni. Af þeim á Gimsteinn 21-899 langflesta syni, eða 39. Hvergi stendur þó sonur Gimsteins efstur í afkvæmarannsókn en allmargir standa sig þó vel í samanburði við aðra hrúta á sínu heimabúi. Bestu kostir Gimsteins liggja væntalega í dætrum hans sem virðast ætla að reynast bæði frjósamar og mjólkurlagnar. Hornsteinn 22-901, sonur Gimsteins, á 23 syni. Þar sem hann er sívalhyrndur hefur hann talsvert verið notaður á hyrndar ær. Hornsteinn virðist ætla að reynast föðurbetrungur sem lambafaðir. Í stórri rannsókn á Mýrum í Hrútafirði er sonur Hornsteins efstur í heildareinkunn og í nokkrum öðrum rannsóknum má sjá þá raða sér ofarlega. Gullmoli 22-902 frá Þernunesi á 17 syni og þar má sjá marga spennandi lambafeður. Í Miðdalsgröf við Steingrímsfjörð, Hólabæ í Langadal og á Brúnastöðum í Fljótum er það sonur Gullmola sem stendur efstur í heildareinkunn. Á nokkrum öðrum bæjum má sjá Gullmolasynina í fremstu röð á sínum heimabúum. Gullmoli fékk verðlaun sem besti lambafaðir stöðvanna árið 2023 og ánægjulegt að sjá að margir sona hans virðast skila kostum hans vel áfram sem lambafeður. Hnaus 20-890 frá Mýrum 2 á 16 syni í afkvæmarannsóknum þessa árs, Alli 19-885 frá Snartarstöðum á 15 syni og Grettir 20-877 frá YtriSkógum 13 syni. Synir Grettis standa efstir í þremur rannsóknum, synir Hnauss í tveimur rannsóknum en synir Alla skipa hvergi toppsætið í heildareinkunn (sjá töflu 4).

Tafla 4: Stöðvahrútar sem áttu flesta syni í afkvæmarannsóknum 2023.

Afkvæmarannsóknir hjá bændum hafa gegnt mikilvægu hlutverki í ræktunarstarfinu í sauðfjárrækt um árabil. Margoft hafa niðurstöður úr einstökum rannsóknum beint kastljósinu að efnilegum hrútum sem síðar hafa endað sem stöðvahrútar. Riðuarfgerð lamba mun væntanlega ráða mestu við ásetningsval á mörgum búum á allra næstu árum. Þá hafa bændur verið hvattir til að skipta hrútum ört út, sérstaklega þar sem keyra á hratt á innleiðingu verndandi riðuarfgerðar, til þess að forðast of mikla aukningu á skyldleikarækt. Því er enn mikilvægara en áður að vanda valið á þeim hrútum sem fá áframhaldandi notkun og eru vel skipulagðar afkvæmarannsóknir ein besta leiðin til að velja af kostgæfni hvaða hrútar ættu að fá áframhaldandi notkun.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...