Afkvæmahestar á Íslandi árið 2025
Þegar kynbótamat í hrossarækt var reiknað í september varð það ljóst að fjórir hestar staðsettir á Íslandi náðu lágmörkum til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi. Það eru þeir Dofri frá Sauðárkróki, Útherji frá Blesastöðum 1A, Vákur frá Vatnsenda og Vökull frá Efri-Brú. Þá náðu þeir Hreyfill frá Vorsabæ II og Þráinn frá Flagbjarnarholti lágmörkum til heiðursverðlauna. Til að ná lágmörkum til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi þarf hesturinn að eiga að minnsta kosti 15 dæmd afkvæmi og vera með 118 stig í aðaleinkunn, eða aðaleinkunn án skeiðs í kynbótamatinu. Það sama gildir um heiðursverðlaunahesta nema fjöldi dæmdra afkvæma hestsins eru 50 að lágmarki. Hér verður gerð nokkur grein fyrir þessum hestum.
Hestar með fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi
Dofri frá Sauðárkróki er móbrúnn að lit og 13 vetra gamall. Eftir sumarið á Dofri 19 dæmd afkvæmi og stendur með 116 stig í aðaleinkunn, og 123 stig í aðaleinkunn án skeiðs í kynbótamatinu. Dofri er undan Hvítserk frá Sauðárkróki sem var undan Álfi frá Selfossi og Smáradótturinni Kná frá Varmalæk. Þá er móðir Dofra gæðingshryssan Dimmbrá frá Sauðárkróki, dóttir Kveiks frá Miðsitju. Það er því ljóst að það stendur skrokkmýkt og gott tölt að Dofra. Ræktandi og eigandi er Stefán Öxndal Reynisson, hestamaður á Sauðárkróki. Dofri er sjálfur úrvals einstaklingur, bolléttur og fótahár og býr yfir mýkt og teygju á gangi en hann hlaut hæst 9,5 fyrir tölt á Landsmóti 2016, og náði raunar strax 9,0 fyrir tölt fjögurra vetra gamall. Hæst dæmda afkvæmi hans er Viktor frá Hamarsey, stórmyndarlegur klárhestur undan Viðju frá Hvolsvelli. Þá voru eftirminnilegar frá sumrinu þær Ósk frá Narfastöðum og Veröld frá Varmalæk; fallegar klárhryssur með tölti.
Útherji frá Blesastöðum 1A er rauðstjörnóttur að lit og 11 vetra gamall. Útherji er með 121 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins, 126 stig fyrir aðaleinkunn án skeiðs, og er eftir sumarið með 18 dæmd afkvæmi. Hann er undan Framherja frá Flagbjarnarholti og gæðingamóðurinni og Kjarvalsdótturinni Blúndu frá Kílhrauni. Undan Blúndu voru sýnd 10 hross og þar af fóru sjö í fyrstu verðlaun. Þá er Framherji rétt við heiðursverðlaun fyrir afkvæmi en hann stendur vel í kynbótamatinu og er með 49 dæmd afkvæmi. Ræktandi Útherja er Magnús Trausti Svavarsson og eigendur eru Bragi Guðmundsson, Sveinbjörn Bragason, Valgerður Þorvaldsdóttir og Þórunn Hannesdóttir. Útherji er sjálfur reistur og myndarlegur klárhestur með afar sterka yfirlínu, en hann hefur hlotið 9,5 fyrir bak og lend. Þá er hann flugrúmur á tölti og hreyfingarmikill og fljótur til en hann var eftirminnilegur fjögurra vetra gamall á Landsmóti í Víðidal árið 2016. Hæst dæmda afkvæmi Útherja er Súperstjarna frá Stórhóli en hún hefur hlotið 9,0 fyrir tölt og fegurð í reið. Kormákur frá Flagbjarnarholti var sýndur í góðan dóm í sumar og einnig Garún frá Austurási en það er gullfríð og falleg klárhryssa sem stóð sig einnig feikna vel á síðasta Landsmóti þá fjögurra vetra gömul, og hlaut þá meðal annars 9,0 fyrir tölt. Þá eru þær Dís og Rún frá Eystri-Hól, dætur Útherja, báðar með 9,5 fyrir tölt og samstarfvilja en Rún hlaut 9,5 fyrir tölt einungis fjögurra vetra gömul sem er afrek enda einstaklega jafnvægisgóð og fim.
Vákur frá Vatnsenda er jarpur að lit og 15 vetra gamall. Hann á í dag 17 dæmd afkvæmi og er með 109 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins en 118 stig í aðaleinkunn án skeiðs. Vákur er undan Mídasi frá Kaldbak og Dáð frá Halldórsstöðum. Dáð var undan Óði frá Brún og Sögu frá Kirkjubæ, dóttur Skós frá Flatey en frá honum hefur komið gott tölt. Dáð var einmitt flinkur töltari; hlaut 9,5 fyrir tölt í kynbótadómi og varð Íslandsmeistari í tölti árið 2003. Ræktandi Váks er Þorsteinn Hjaltested og eigandi er Hafliði Þ. Halldórsson. Vákur er fríður á höfuð, með hvelfdan háls og góða fótahæð og hlaut góðan dóm sem klárhestur; 9,0 fyrir tölt og flesta eiginleika hæfileikanna, þar af 9,0 fyrir hægt tölt og hægt stökk. Það gefur oft fyrirheit um hæfni hrossa í keppni enda er Vákur með 120 stig í fjórgangsgreinum ef kynbótamat fyrir keppnisárangur er skoðað. Hæst dæmda afkvæmi Váks er Dáð frá Tjaldhólum með 9,0 fyrir tölt. Þá er Erró frá Ármóti stórmyndarlegur og rúmur klárhestur. Í sumar var sýndur afar efnilegur foli undan Vák sem heitir Svarti-Vákur frá Kviku og hlaut 9,0 fyrir tölt og samstarfsvilja.
Vökull frá Efri-Brú er brúnn að lit og 16 vetra gamall. Eftir sumarið á Vökull 15 dæmd afkvæmi og stendur með 119 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins og 126 í aðaleinkunn án skeiðs. Vökull er undan Arði frá Brautarholti og Kjalvöru frá Efri-Brú sem var undan Kolfinni frá Kjarnholtum og Væntingu Gáskadóttur frá EfriBrú. Ræktandi Vökuls er Böðvar Guðmundsson og eigendur eru Hafsteinn Jónsson og Hestar ehf. Vökull er sjálfur stólpa myndarlegur með 9,0 fyrir samræmi, hefur gefið mikla stærð og stendur næst hæstur allra stóðhesta í kynbótamatinu fyrir hæð á herðar. Þá er hann fasmikill og skreflangur með 9,0 fyrir tölt og brokk og 9,5 fyrir fegurð í reið. Hæst dæmda afkvæmi Vökuls er hestagullið Salka frá Efri-Brú en það er fallegur alhliða gæðingur sem varð heimsmeistari í fimmgangi ungmenna á Heimsmeistaramóti í Hollandi 2023. Þá stóð Vökulssonurinn Hersir frá Húsavík efstur í elsta flokki stóðhesta á sama móti en hann er feikna gripur að byggingu, með 9,5 fyrir háls, herðar og bóga, samræmi og hófa. Hlaut hann 9,0 fyrir tölt og 9,5 fyrir brokk. Þá er Steinn frá Stíghúsi einnig afar eftirtektarverður hestur með 9,0 fyrir tölt og 10 fyrir brokk; enda með ógnþrungin afköst á brokki.
Hestar með heiðursverðlaun fyrir afkvæmi
Hreyfill frá Vorsabæ II er brúntvístjörnóttur að lit og 17 vetra gamall. Hreyfill er með 119 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins, 128 stig í aðaleinkunn án skeiðs og á 54 dæmd afkvæmi. Hann er undan Dug frá Þúfu í Landeyjum og Kolbrúnu frá Vorsabæ II sem var undan Vák frá Brattholti og Litlu-Jörp frá Vorsabæ II, sem gerir hana að systur Forseta frá Vorsabæ II að móðurinni. Ræktandi Hreyfils er Björn Jónsson í Vorsabæ og hann er eigandi ásamt Stefaníu Sigurðardóttur. Hreyfill er vel gerður hestur með sterka yfirlínu og öfluga fótagerð og hófa. Þá var hann einstaklega mjúkur og teygjumikill á gangi, stefnufastur og yfirvegaður og hlaut 9,5 fyrir tölt og brokk og vilja og geðslag og 8,5 fyrir fet á sínum tíma. Hæst dæmda afkvæmi Hreyfils er Þrá frá Fornusöndum, mjúk og skrefmikil alhliða hryssa. Börkur frá Fákshólum stóð efstur á Landsmóti 2022 í flokki sex vetra stóðhesta, mikill útgeislunarhestur með 9,5 fyrir brokk og fegurð í reið. Fleiri úrvalshross mætti nefna en afar góð reynsla er komin á Hreyfil og er hann rakinn afkvæmahestur.
Þráinn frá Flagbjarnarholti er brúnskjóttur að lit og 13 vetra gamall. Þráinn stendur afar vel í kynbótamatinu með 132 stig í aðaleinkunn og á þegar 59 dæmd afkvæmi. Hann er undan Álfi frá Selfossi og Þyrlu frá Ragnheiðarstöðum en sú var undan Svarti frá Unalæk og Krás frá Laugarvatni sem var með fyrstu hrossum sögunnar til að hljóta 9,0 fyrir tölt, brokk og skeið í kynbótadómi. Ræktandi Þráins er Jaap Groven og eigandi er félagið Þráinsskjöldur ehf. Þráinn er afar vel gerður hestur og magnaður enda með eina hæstu aðaleinkunn sem gefin hefur verið í kynbótadómi eða 8,95. Hæst dæmda afkvæmi hans er Fenrir frá Finnastöðum en hann hlaut hæstu hæfileikaeinkunn ársins 2025, 9,04 og er stórmagnaður gæðingur. Hetja frá Ragnheiðarstöðum er hæst dæmda dóttir Þráins og var einnig efst sex vetra hryssna í ár. Hún er stórfalleg og fríð með 9,5 fyrir bæði höfuð og samræmi og er gæðingur á gangi. Þá var Vala frá Garðshorni á Þelamörk efst í fjögurra vetra hópi hryssna á Landsmóti 2022 og Feykir frá Stóra-Vatnsskarði hlaut hæstu aðaleinkunn fjögurra vetra stóðhesta í fyrra.
Ræktendum og eigendum þessara heiðurshesta er óskað innilega til hamingju með árangurinn. Þá er rétt að nefna að þeir Fimur frá Selfossi, sem er staðsettur í Svíþjóð, og Jökull frá Rauðalæk, sem er staðsettur í Þýskalandi, náðu lágmörkum til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi nú í haust. Einnig náði Herkúles frá Ragnheiðarstöðum lágmörkum til heiðursverðlauna fyrir afkvæmi en hann er staðsettur í Þýskalandi. Þessir hestar verða heiðraðir í þeim löndum þar sem þeir eru nú staðsettir.
Þetta er góður hópur stóðhesta sem hljóta afkvæmaverðlaun í ár en eigendur þeirra taka við viðurkenningu fyrir sína hesta á árlegri ráðstefnu fagráðs í hrossarækt sem haldin verður laugardaginn 8. nóvember. Hún hefst klukkan 13.00 og verður í reiðhöll hestamannafélagsins Spretts.
