Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Af starfi NautBÍ
Af vettvangi Bændasamtakana 2. janúar 2025

Af starfi NautBÍ

Höfundur: Rafn Bergsson, formaður Nautgripabænda BÍ

Í þessari grein ætla ég að fara yfir nokkur verkefni úr starfi deildar nautgripabænda innan Bændasamtakanna á árinu sem er að líða.

Rafn Bergsson.

Veðurfar á árinu sem er að líða hefur ekki verið bændum hliðhollt. Eftir óveður sem gekk yfir í byrjun júní fylgdi sumar sem var bæði kalt og blautt víða um land. Á sumum svæðum kól mjög mikið af túnum bænda auk þess sem bleytutíð gerði bændum mjög erfitt fyrir með jarðrækt og önnur vorverk. Þetta hafði veruleg áhrif á heyskap og eru hey víða mun minni og lakari af gæðum en vanalegt er. Það er ljóst að þetta tíðarfar olli gríðarlegum kostnaði fyrir bændur, meðal annars í kaupum á heyi, endurrækt túna, afföllum á gripum og fleira. Þessu til viðbótar er ljóst að svona langvarandi erfiðar aðstæður valda miklu álagi hjá fólki. Því vil ég nota tækifærið og hvetja bændur til að huga að eigin líðan og gefa nágrönnum gaum.

Verðlagsgrunnur mjólkur

Bændur hafa lengi kallað eftir því að unninn verði nýr verðlagsgrunnur fyrir kúabú enda eldri grunnur síðan 2001. Og hefur ansi margt breyst í rekstri kúabúa á þessum tíma. Nýjum grunni hefur nú þegar verið gerð ágæt skil og hann kynntur fyrir félagsmönnum, því ætla ég ekki að fara í ítarlegar skýringar á honum hér. Niðurstaðan staðfestir hins vegar að tekjur fyrir mjólkurframleiðslu standa ekki undir framleiðslukostnaði mjólkur. Þetta birtist meðal annars í því að kúabændur sækja sífellt meiri tekjur utan bús og það er orðin veruleg uppbyggingarþörf í aðstöðu. Verkefnið fram undan er að finna leið til að loka bilinu milli framleiðslukostnaðar og tekna af mjólkurframleiðslu. Að því þurfa allir hlutaðeigandi að koma, það er; mjólkuriðnaðurinn, ríkisvaldið og bændur. Nýr verðlagsgrunnur er mikilvægt gagn í komandi búvörusamningum enda er stór hluti af því bili sem er til staðar tilkomið vegna þess hve mikið stuðningur ríkisins hefur dregist saman á framleiddan lítra.

Kyngreining á nautasæði

Í mars 2023 kom út skýrsla um kyngreint sæði í íslenskri nautgriparækt. Niðurstöður skýrslunnar voru að það væri vel framkvæmanlegt að innleiða kyngreiningu á nautasæði í íslenskri nautgriparækt. Í framhaldinu var stofnaður starfshópur til að vinna að málinu. Fyrstu verk hópsins voru að leggja mat á kostnað við kaup á vélum og meta þær framkvæmdir sem ráðast þyrfti í til að koma þeim fyrir. Einnig var hugað að rekstrarkostnaði og hversu mikið starfsfólk þyrfti. Síðar kom upp sá möguleiki að fá hingað til lands sérbúna rannsóknarstofu á hjólum sem kæmi með starfsfólki og öllu sem til þarf. Niðurstaðan var að lokum sú að gengið var til samninga við STgenetics, um að koma hingað til lands og gera til að byrja með tilraun með kyngreint sæði. Bera á saman árangurinn af sæðingum með kyngreindu og hefðbundnu sæði og þegar niðurstöður tilraunarinnar liggja fyrir verður áframhaldið ákveðið. Þegar þetta er skrifað stendur kyngreining yfir á nautastöðinni á Hesti. Virkilega fagnaðarefni að þetta sé loks að raungerast.

Félagsstarf

Stjórn NautBÍ hefur á árinu haldið þrjá opna fundi í netheimum fyrir félagsmenn. Í apríl héldum við fund þar sem farið var yfir tillögur og ályktanir sem samþykktar voru á deildarfundi, einnig kynntum við útfærslu á viðbótarfjármagni sem fékkst í sláturálag.

Í nóvember var haldinn fundur þar sem nýr verðlagsgrunnur í mjólk var kynntur og farið yfir þær forsendur sem stuðst er við í grunninum.

Nú í desember fengum við Jón Hjalta Eiríksson til að kynna skýrsluna „Samanburður á rekstrarhagkvæmni mjólkurframleiðslu á Íslandi með íslenskum og erlendum kúakynjum“.

Allir fundirnir tókust vel, góð mæting og málefnalegar umræður. Ég held að þetta sé form sem við eigum eftir að nýta meira í framtíðinni,enda einfalt að ná samtali og miðla upplýsingum til félagsmanna með þessum hætti.

Þann 4.–8. nóvember síðast­ liðinn tók ég þátt í fundarferð Bændasamtakanna um landið. Þessi fundarferð tókst mjög vel að mínu mati og ánægjulegt hversu margir gáfu sér tíma til að koma og taka samtalið. Takk fyrir það, bændur. Þó umræðurnar væru vissulega aðeins misjafnar eftir fundum og alls konar málefni rædd, þá voru þrjú atriði sem mér fannst alls staðar brenna á fólki. Það er afkoman, áhyggjur af nýliðun og eignarhald á landi, þ.e. hvernig við tryggjum land til landbúnaðarframleiðslu.

Deildarfundur NautBÍ

Deildarfundur nautgripabænda BÍ verður haldinn 27.–28. febrúar næstkomandi. Opnað hefur verið fyrir framboð til setu á fundinum og innsendingu tillagna. Nánari upplýsingar má finna inn á bondi.is undir „Deildafundir búgreina 2025“. Kynningarfundur á fyrirkomulagi ýmissa þátta í tengslum við deildafund nautgripabænda verður haldinn þann 7. febrúar klukkan 11.00 á Teams.

Framboðsfrestur fulltrúa er til 9. janúar. Kosning fulltrúa mun fara fram frá hádegi þann 15. janúar til hádegis þann 17. janúar. Ég hvet bændur til að bjóða sig fram til setu á deildarfundi og taka þátt í starfinu.

Að lokum óska ég kúabændum farsældar á komandi ári.

Matvæli hluti af þjóðaröryggi
Fréttir 5. desember 2025

Matvæli hluti af þjóðaröryggi

Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands skilaði fyrir skemmstu af sér til...

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f