Ætlaði sér alltaf að verða bóndi
Á fögrum haustdegi liggur leiðin í heimsókn til ungs bónda á Velbastað sem er í um fimmtán mínútna akstri frá Tórshavn, höfuðborg Færeyja.
Það er bjart þennan morgun en þegar keyrt er frá Tórshavn byrjar þoku að leggja yfir og er umhverfið nokkuð draumkennt . Þegar nálgast Velbastað tekur að birta á ný og þetta fallega bæjarstæði blasir við meðfram sjónum í frekar miklum bratta. Hérna er nálægðin við hafið og náttúruna stórfengleg. Velbastaður er eitt elsta bæjarstæði í Færeyjum með um 250 íbúa og þar er einnig að finna nokkra sveitabæi, meðal annars þennan sem við heimsækjum í dag.
Það er enginn venjulegur dagur á sveitabænum sem ber heitið „Garðurin í Búðini“. Í dag er nefnilega verið að rýja og slátra kindum á bænum og við hittumst í fjárhúsunum hjá Dánjal Paula.
,,Báðir foreldrar mínir er aldir upp á sínum sveitabænum hvort hérna á Velbastað og þessir sveitabæir hafa nú verið sameinaðir,“ segir Dánjal, sem tók við búskapnum af foreldrum sínum árið 2022. „En frá árinu 2014 til 2022 voru foreldrar mínir í rauninni með tvo sveitabæi sem þau ráku saman en hafa nú verið sameinaðir og ég tekinn við öllum búskapnum,“ segir Dánjal, sem býr á bænum með fjölskyldu sinni, konu og tveimur ungum dætrum. Hann er sauðfjárbóndi með 360 kindur. Áður hafði verið mjólkurbú á bænum en Dánjal tók ákvörðun um að selja mjólkurkvótann fyrr á þessu ári því það hefði þurft að fara í miklar framkvæmdir við að byggja nýtt fjós. ,,Hér í Færeyjum eru kröfurnar orðnar miklar varðandi fjós fyrir kúabúskap. Það er svo dýrt að byggja og þá myndi maður þurfa að gera það mest sjálfur og þá verður þetta of mikill tími frá fjölskyldu og ungum börnum.“
Það eru þrettán kúabú eftir í Færeyjum og eru þau mörg hver stórbýli. Þeir bændur lifa af þessu. Sauðfjárbændur í Færeyjum eru margir hverjir með eitthvert aukastarf á veturna eins og Dánjal sjálfur en hann vinnur meðfram sauðfjárbúskapnum í byggingabransanum yfir vetrartímann.
Á réttum stað
Móðir Dánjals er fjórtándi ættliður á bænum svo þetta er sannarlega mikið fjölskyldubýli þar sem sama fjölskyldan hefur verið alin upp í kringum búskap í nokkur hundruð ár. Hefðirnar hafa sannarlega breyst eitthvað en enn þá er heyjað að einhverju leyti upp á gamla mátann. Hlíðarnar og túnin eru brött og því erfitt að notast við traktor og vélar sums staðar.
,,Við ætluðum á fjall í dag að ná síðustu kindunum inn en það var of mikil þoka. Svo dagurinn í dag fer í að rýja kindur sem eru komnar í hús og sláturtíðin í fullum gangi,“segir Dánjal kátur í bragði á fullu í fjárhúsunum. Það skín af honum gleðin og eitt er víst að hann er á réttum stað í lífinu, í því starfi sem hann alltaf sá fyrir sér og nýtur þess best að vera bóndi.
Það var sannarlega mikið um að vera á sveitabænum þegar okkur bar að garði. Þarna voru kunningjar og nágrannabændur mættir að hjálpast að við að rýja og slátra. ,,Þannig er þetta hér, við hjálpumst að á sveitabæjunum og ætli ég sé ekki með lista yfir þrjátíu manns sem ég get hringt í, einhverjir komast og aðrir ekki en oftast næ ég að smala saman um fimmtán manns að hjálpa.“
Heimaslátrun og einkasala
Heimaslátrun á sauðfé er það sem þekkist í Færeyjum; ,,Hér eru ekki sláturhús og því slátrum við bændurnir sjálfir og við seljum mest í einkasölu, heilu skrokkana. Við getum einnig selt í matvörubúðir en það þarf að vera sérstaklega merkt að það sé heimaslátrun og kjötið liggur þá í sér kæli í matvörubúðinni.“ Hann segist vera með það marga viðskiptavini að allt kjöltið selji hann í einkasölu. Það séu margir fastir viðskiptavinir frá foreldrunum og fyrri tíð. Það eru einnig kynslóðaskipti þegar kemur að viðskiptavinum eins og á bænum og mikil vinna fari í þessa heimasölu á kjöti að hans sögn. ,,Þetta fer oftast þannig fram að það er slátrað á laugardegi og svo kemur fólk að ná í kjötið sitt á sunnudegi. Svo eru alltaf nokkuð margir sem einnig vilja „ræst“ kjöt, sem er þurrkað lambakjöt og þá kemur fólk seinna að sækja það því það þarf að hanga í hjalli í nokkurn tíma. Skerpikjöt, sem er einnig þurrkað lambakjöt, hangir mun lengur.
Heimablíðni
Heimablíðni, sem þýðir á íslensku heimagestrisni, er nýbreytni sem nokkrir bændur í Færeyjum eru með til hliðar við búskapinn. Það eru nokkuð margir bændur farnir að bjóða ferðamönnum upp á þetta og um allar eyjarnar er hægt að njóta hefðbundins færeysks heimalagaðs matar á heimilum fólks og á sveitabæjum. Auk þess að smakka heimalagaðan færeyskan mat er einnig fróðleikur um menningu og sögu Færeyja. Þetta hefur gefist bændum nokkuð vel og er góð leið til að kynna fyrir ferðafólki færeyskan mat og menningu.
Það er mikill samgangur á milli bæja og bændur hjálpast að ásamt vinum og kunningjum sem taka meðal annars þátt þegar farið er á fjall eftir kindum. Oft gerir þokan fólki erfitt fyrir og þá þarf að bíða, eins og þennan dag. Fjöllin eru brött og því er ekki notast við hesta heldur er farið í leitir á tveimur jafnfljótum. Kindur ganga úti allt árið í Færeyjum en þar er veðurlag hlýrra en á Íslandi og ekki sami snjóþungi. Kindur í Færeyjum bera oftast einu lambi og eru úti í sauðburði, sem byrjar yfirleitt í lok apríl, og þurfa sjaldnast aðstoð. Kindunum er gefið úti á hverjum degi yfir vetrartímann.
,,Kona mín, systir, mamma og tengdamóðir sjá um nesti og mat þegar farið er á fjall. Þá erum við með nestið með okkur og svo er alltaf kvöldmatur fyrir allan hópinn þegar komið er aftur af fjalli. Þetta er góð hefð sem skapast hefur og samheldinn og góður hópur sem kemur og hjálpar til. Þetta skapar góða upplifun fyrir fólk sem kemur að hjálpa að borða öll saman um kvöldið og að fara saman á fjall.“
Það er að mörgu að huga hjá bóndanum og ætlunin að heimsækja Ísland einhvern tímann. Hann hafi áhuga á að kynna sér landbúnaðarhætti á Íslandi og í Noregi. ,,Ég vissi alltaf að ég ætlaði mér að verða bóndi. Systir mín er dýralæknir og það hafði hún alltaf ætlað sér. Við erum tvö systkinin.“ Það var því alltaf í kortunum að Dánjal myndi taka við búskapnum af foreldrum sínum. ,,Hér er afar gott að búa, einstaklega fallegt og ég hef unun af búskapnum. Minn draumur var alltaf að gerast bóndi hér á Velbastað,“ segir Dánjal.
