Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Kínverskir rafmagnsbílar hafa á undanförnum misserum orðið algengari á íslenskum vegum. Xpeng G9 er einn þeirra, en það er stór bíll sem er þýður í akstri. Helst er hægt að gagnrýna stýrikerfið í margmiðlunarskjánum.
Kínverskir rafmagnsbílar hafa á undanförnum misserum orðið algengari á íslenskum vegum. Xpeng G9 er einn þeirra, en það er stór bíll sem er þýður í akstri. Helst er hægt að gagnrýna stýrikerfið í margmiðlunarskjánum.
Mynd / ál
Vélabásinn 13. febrúar 2025

Áður óþekkt tegund fundin

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu dýrustu útgáfu Xpeng G9 sem nefnist Performance. Hér er á ferðinni ný bílategund sem hefur ekki sést lengi á íslenskum markaði, en ökutækin eru framleidd í Kína af fyrirtæki sem var sett á laggirnar árið 2014.

Að utan eru mjúkar línur ráðandi en eitt helsta einkenni þessa bíls og annarra Xpeng eru aðalljós sem eru mjó rönd þvert yfir framendann. Þegar inn er komið halda mjúku línurnar áfram og tekur á móti manni sérlega vönduð innrétting. Það er áberandi hversu stór hluti hennar er klæddur með mjúku leðurlíki af svipaðri gerð og er á sætunum. Innra rýmið er allt frekar dökkt en glerþakið hleypir talsverðri birtu inn.

Þegar bíllinn er skoðaður er ekkert sem bendir til að Xpeng hafi eingöngu framleitt bíla í nokkur ár.

Þýður í akstri

Allt sem viðkemur akstri er vel útfært af framleiðandanum og finnst strax á fyrstu metrunum að gæðin eru mikil á þeirri hlið. Xpeng G9 Performance er með loftpúðafjöðrun, á meðan ódýrari útgáfurnar eru með gormafjöðrun. Því er þessi bíll mýkri en flestir rafmagnsbílar og er jafnframt hægt að auka veghæðina. Hljóðeinangrunin er með besta móti og eru sætin býsna þægileg.

Með fjórhjóladrifinu nær ökutækið miklu gripi við flestar aðstæður, en eingöngu dýrasta útgáfan er með drifi á öllum á meðan ódýrari bílarnir eru með afturhjóladrifi. Performance-bíllinn er jafnframt mjög kraftmikill, eða 551 hestafl.

Til þess að virkja akstur er stönginni hægra megin við stýrið ýtt einu sinni niður. Með því að ýta sömu stöng einu sinni niður í akstri fer í gang hraðastillir, en með því að ýta henni tvisvar niður virkjast akreinaaðstoðin.

Fátt um hnappa

Í stýrinu eru tveir pílárar með tökkum. Hægra megin er hægt að stilla útvarpið, en hnapparnir í vinstri píláranum eru til þess að stjórna hraðastilli. Ef hraðastillirinn er ekki í notkun er sami takki notaður til að stjórna hita miðstöðvarinnar.

Í stýrinu er einnig flýtihnappur og er hægt að velja á milli þess að láta hann opna og loka skotti, virkja akstursaðstoð, virkja 360° gráða myndavélar, opna eða loka hleðslulok, eða að virkja bílastæðaaðstoð. Það hefði verið gott að hafa allavega sitthvorn takkann fyrir algengar skipanir, eins og hraðastilli og myndavélakerfið. Á bak við stýrið eru tvær stangir. Sú hægri er gírstöngin, en með henni er einnig virkjuð akstursaðstoðin. Vinstri stöngin er til að stjórna stefnuljósum og rúðuþurrkum. Nánast enga hnappa er að finna umfram þá sem hafa verið taldir upp hér að framan, sem er að vissu leyti galli í ljósi þess að flestar skipanir fara fram í gegnum margmiðlunarskjá sem getur verið erfiður í notkun.

Innréttingin er stílhrein og með þrjá stóra skjái.

Merking tapast í þýðingu

Eitt af því sem má nefna er að textinn í stýrikerfinu hefur sennilega ekki verið prófarkalesinn af aðila með ensku að móðurmáli og merkingin hefur stundum ekki skilað sér í þýðingu. Þar sem tungumálið er stundum bjagað flækir það notkun kerfisins og gat undirritaður oft verið fulllengi að átta sig á hlutunum. Jafnframt var orðfærið oft hvassara en við höfum vanist úr evrópskum bílum.

Þegar síminn er tengdur með Android-auto hverfur flýtivalmyndin sem er annars neðst á skjánum. Þar með tapast óskertur aðgangur að stillingum miðstöðvarinnar, hitanum í sætunum eða 360° gráða myndavélinni.

Skjár fyrir farþega

Einnig kom nokkuð á óvart hversu illa hljóðgæðin skiluðu sér úr annars öflugu hljóðkerfi og forðaðist undirritaður að spila tónlist í of háum hljóðstyrk. Það er ólíkt hljóðkerfunum í mörgum bílum þar sem er hægt að skrúfa allt í botn án þess að finna fyrir þreytu í eyrunum.

Við hlið hins hefðbundna skjás sem er framan við miðjustokkinn er annar skjár sem er hugsaður til dægrastyttingar fyrir farþegann. Þar er hægt að horfa meðal annars á Netflix og Youtube án þess að það trufli ökumanninn, en frá hans sjónarhorni er skermurinn alltaf svartur. Eins og í flestum nýjum bílum heyrist hljóðmerki þegar ekið er yfir hámarkshraða. Xpeng fær sérstakt hrós fyrir að það kemur upp valmynd á snertiskjáinn um leið og hljóðið heyrist sem býður ökumanninum að slökkva á því.

Þetta er eitthvað sem þarf svo að gera einu sinni í hverri ökuferð.

Þessi stóri bíll er með mikið innrarými.

Að lokum

Þegar litið er til þess að Xpeng er nýr bílaframleiðandi er ekki annað hægt en að dást að því hversu góður bíllinn er. Um leið og tekið er í bílinn finnst að þetta er vandað ökutæki að flestu leyti. Æ oftar sjást bílar frá þessum framleiðanda á götunum, enda bjóða margir upp á mikinn staðalbúnað á hagstæðum kjörum. Þar má helst nefna Xpeng G6, sem kostar frá 5.990.000 krónum með orkustyrk.

Helstu mál G9 í millimetrum eru: Lengd, 4.891; breidd, 1.937; hæð, 1.680. Ódýrasta útgáfan af Xpeng G9 með minni rafhlöðu kostar frá 7.990.000 krónum með orkustyrk. Með stærri rafhlöðu kostar sá bíll 8.990.000 krónur með orkustyrk. Grunnverðið á G9 í Performance-útgáfu er 10.900.000 krónur og uppfyllir hann ekki kröfur til að fá orkustyrk. Öll verð eru með vsk. Vegna þessa verðs horfir undirritaður á ökutækið með gagnrýnni augum en annars og eru ódýrari útgáfur bílsins eflaust vænlegir kostir.

Skylt efni: prufuakstur

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...