Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Höfundur: Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda eru gríðarleg í íslenskum landbúnaði. Og þessi tækifæri fara fullkomlega saman við markmið um aukna framleiðni, verðmætasköpun og fæðuöryggi á Íslandi. Á fyrsta ári mínu sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hef ég lagt mig fram um að nýta þau tæki sem ég hef yfir að ráða til að styðja bændur á þessari vegferð.

Jóhann Páll Jóhannsson.

Íslenskur landbúnaður er raforkufrekur í alþjóðlegum samanburði og notar mikið rafmagn á hverja framleidda einingu. Skýringin liggur kannski helst í legu landsins að teknu tilliti til jarðvegs, fjölda sólarstunda og lágs hitastigs.

Við breytum ekki legu landsins eða fjölda sólarstunda, en tækifærin til bættrar orkunýtni eru sannarlega til staðar. Þau liggja ekki síst í garðyrkju og gróðurhúsum.

Stærstu garðyrkjubændur í ylrækt nota á bilinu 2–7 GWh á ári. Raforkukostnaður garðyrkjubænda í ylrækt á föstu verðlagi hækkaði á tímabilinu 2020 til 2025 um 6% af tekjum þeirra samkvæmt skýrslu sem ég óskaði eftir frá Raforkueftirlitinu.

Niðurgreiðslur ríkisins til garðyrkjubænda hafa á undanförnum árum verið 86–93% af kostnaði flutnings og dreifingar, svo orkusparnaður í garðyrkju er bæði hagsmunamál fyrir garðyrkjubændur og ríkissjóð – okkur öll.

Eftir góðan fund með hópi garðyrkjubænda og starfsmönnum Bændasamtaka Íslands í vor ákvað ég að breyta reglugerðinni um Loftslags- og orkusjóð og fela sjóðnum að veita garðyrkjubændum sérstakan fjárfestingarstuðning í þágu bættrar orkunýtni og orkusparnaðar.

Þetta er í fyrsta skipti í áratugi sem stjórnvöld ráðast í skipulegan fjárfestingarstuðning við framleiðendur garðyrkjuafurða.

Áhuginn á verkefninu leyndi sér ekki og kann ég Bændasamtökum Íslands bestu þakkir fyrir góða kynningu á styrkjunum og hvatningu til rekstraraðila. 118 milljónum var úthlutað til 10 verkefna í júlí. Við tókum frá 160 milljónir sem reyndist nokkuð umfram þá fjárhæð sem sótt var um, en Umhverfis- og orkustofnun áætlar að orkusparnaðurinn vegna verkefnanna nemi allt að 8,3 GWst sem jafngildir árlegri raforkunotkun 2 þúsund heimila.

Aðgerðirnar eru nú þegar farnar að spara gróðurhúsum tugi milljóna í raforkukostnað. Í ljósi góðs árangurs ákvað ég að gefa í og styðja enn frekar við orkusparandi aðgerðir í gróðurhúsum með 100 milljóna fjárveitingu til viðbótar. Styrkirnir munu skila sér í lækkandi orkukostnaði og aukinni framleiðni í greininni.

Aðgerðir mínar sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra einskorðast ekki við garðyrkjubændur. Fyrr í þessum mánuði undirritaði ég reglugerð þar sem Loftslags- og orkusjóði er falið að annast úthlutun styrkja til loftslagsvænna tæknilausna í landbúnaði.

Um er að ræða samstarfsverkefni mitt og Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra. Styrkir verða veittir framleiðendum landbúnaðarafurða vegna fjárfestingar í tækjakaupum sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna áburðarnotkunar í landbúnaði, svo sem GPS-tækni fyrir bætta nákvæmni við áburðardreifingu, tækni til niðurfellingar og lagningar á áburði, og annarra sambærilegra tækja.

Ég hef lagt þunga áherslu á að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í orkumálum og loftslagsmálum skili margþættum ávinningi. Þær aðgerðir sem ég hef þegar ráðist í á sviði landbúnaðarmála munu skila sér í minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda, sparnaði í búrekstri og bættri nýtingu takmarkaðra náttúruauðlinda.

Þær snúast ekki aðeins um loftslag og umhverfi heldur líka um framleiðni, fæðuöryggi og verðmætasköpun.

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f