Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Áburðartilraun á byggi
Á faglegum nótum 4. apríl 2024

Áburðartilraun á byggi

Höfundur: Sunna Skeggjadóttir mastersnemi og Hrannar Smári Hilmarsson, tilraunastjóri í jarðrækt hjá LbhÍ.

Nokkuð langt er síðan áburðartilraunir voru gerðar með bygg hér á landi. Ósennilegt er að eitthvað hafi breyst í lögmálum áburðarfræðinnar síðan þá annað en verðlag áburðar.

Engu að síður, í ljósi þess að nú eru aftur hafnar kynbætur á byggi á Íslandi, er ástæða til að huga að áburðartilraunum með bygg. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Kynbæta má fyrir bættri áburðarnýtingu, fá nákvæmari áburðarskammta í byggyrkjatilraunum og þar með hámarka áburðarsvörun til þess að bera kennsl á afurðahæstu byggyrkin. Þar að auki munu slíkar tilraunir skila hagnýtum upplýsingum til bænda.

Fyrri tilraunir hafa sýnt fram á breytileika í uppskeru og gæðum eftir jarðvegsgerðum og áburðarskömmtum. Bygg ræktað á mýrarjarðvegi við lægri áburðarskammta gefur alla jafnan meiri uppskeru samanborið við melajarðveg þrátt fyrir hærri áburðarskammta. Hins vegar hafa niðurstöður tilrauna sýnt hærri gæði korns á rýrari jarðvegsgerðum en þeim frjósamari.

Þann 6. maí 2023 var lögð út áburðartilraun í sandjarðvegi í Gunnarsholti. Markmiðið var að kanna áhrif mismunandi köfnunarefniskammta (N) á uppskeru og þroska byggs, nánar tiltekið tvíraða yrkisins Anneli og sexraða yrkisins Brage. Tilraunin var lögð út í þremur endurtekningum í hefðbundnu blokkarskipulagi og allur áburður var felldur niður með sáðinu. Bornir voru saman áburðarliðirnir 30, 60, 120, 150 og 180 kg N/ha, en allir reitir fengu jafn mikið magn af fosfór (20 kg/ ha) og kalí (60 kg/ha). Ekki þótti ástæða til að vera með reit sem fékk engan áburð. Vaxtartímabilið var úrkomusamt ásamt því sem heldur kalt var í veðri, þó má taka fram að hæsti hiti í Árnesi í maí var 20,8°C, en hiti mældist ekki yfir 20°C í júní, júlí eða ágúst. Þegar leið á sumarið dróg talsvert úr úrkomu og mikið sólskin tók við. Meðalhiti vaxtartímabilsins var 9,5°C. Um miðjan júlí var þroskastig byggsins metið í tilraunum í Gunnarsholti og ekki sást munur eftir áburðarskömmtum. Síðar um vaxtartímabilið, í ágúst, sást þurrkastress í plöntum. Tilraunin var uppskorin þann 2. október. Allir reitir sýndust fullþroskaðir en misgisnir. Ekki sáust merki um óþroskaða hliðarsprota í tilrauninni og engin merki um legu eða áhrif áburðarskammta á strástyrk.

Niðurstöður uppskerumælinga leiddu í ljós marktækan uppskeruauka með hækkandi köfnunarefnismagni óháð því hvort um var að ræða tví- eða sexraða yrki.

Á meðfylgjandi mynd eru meðaltöl uppskeru og dreifni mælinga ásamt marktækni milli meðferðaliða sem táknuð eru með mismunandi bókstaf. Á myndinni sést að uppskera eykst eftir því sem N skammtur eykst. Hins vegar mælist hæsta uppskeran ekki nema tæp fjögur t/ha og lægsti N skammturinn gaf lægstu uppskeruna eða rúmlega eitt t/ha.

Meðaluppskera byggs í Gunnarsholti eftir vaxandi áburðarskömmtum. Mismunandi bókstafir tákna tölfræðilega marktækni, þar sem sami bókstafur táknar ómarktækan mun milli meðaltalna.

Þurrefnishlutfall við skurð er mikilvægur eiginleiki. Niðurstöður sýndu engan marktækan mun á þurrefnishlutfalli eftir meðferðarliðum þó að dreifnin hafi verið á bilinu 75-87% og 83% að meðaltali. Ekki hefur tekist að mæla gæði sýna sökum aðstöðuleysis en reitaþreskivélin tekur rúmþyngdarmælingar við uppskeru. Niðurstöður sýndu engan marktækan mun eftir áburðarskömmtum, að undanskildum lægsta skammti sem gaf lægstu rúmþyngd. Það er óhætt að segja að þessar niðurstöður komu á óvart. Hér hefði mátt búast við að uppskera færi lækkandi við svo háa skammta, eða í það minnsta hætta að aukast. Einnig hefði mátt búast við að byggið færi að leggjast og stórir áburðarskammtar tefðu þroska byggsins. Auknir áburðarskammtar geta líka leitt til óþroskaðra hliðarsprota sem leiða til lægri rúmþyngdar en það sást ekki í tilrauninni.

Þótt uppskera hélt áfram að aukast eftir vaxandi áburðarskömmtum er hagkvæmni þeirra ekki til staðar. Stærstur hluti áburðarins endaði ekki í uppskerunni og sennilega má gera ráð fyrir því að áburðurinn hafi ekki verið að fullu aðgengilegur plöntunum sökum veðurfars á fyrri hluta vaxtartímabilsins. Hugsanlegt er að skipting áburðar hefði skilað aukinni áburðarnýtingu í byggrækt við þessar aðstæður, sérstaklega á þessari jarðvegsgerð.

Þessi tilraun sýnir mikilvægi þess að halda áfram áburðartilraunum með bygg á Íslandi. Áburður er einn hæsti kostnaðarliðurinn þegar kemur að kornrækt. Því er mikilvægt að fjölga þessum tilraunum með hliðsjón af jarðvegs- og efnagreiningum til að meta jarðvegsgæði og áætla áburðarþörf til að hámarka nýtingu hans. Þannig má stuðla að auknum nákvæmnisbúskap og hagkvæmni ræktunar og hámarka skilvirkni kynbótaverkefnisins.

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...