Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Ingjaldur Ásmundsson tekur á móti áburði á athafnasvæði Sláturfélagsins í Þorlákshöfn. Hann vonast til að halda áfram minnst eitt vor í viðbót.
Ingjaldur Ásmundsson tekur á móti áburði á athafnasvæði Sláturfélagsins í Þorlákshöfn. Hann vonast til að halda áfram minnst eitt vor í viðbót.
Mynd / ál
Viðtal 23. maí 2025

Áburðarflutningur í næstum sex áratugi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Ingjaldur Ásmundsson frá Ferjunesi í Flóa hefur gert út vörubíla frá því hann keypti sér nýjan Scania árið 1967. Alla tíð síðan hefur hann unnið við hvers kyns flutninga, en útkeyrsla áburðar til bænda á vorin hefur verið fastur liður.

Algengast er að áburðarsalarnir sjái sjálfir um útkeyrslu á áburði eða semji við verktaka. Þeir bændur sem Ingjaldur flytur fyrir semja hins vegar beint við hann um flutninginn og hefur hann keyrt áburð frá nokkrum innflytjendum. „Ég fæ að halda mínum gömlu kúnnum og þeir eru velviljaðir mér,“ segir Ingjaldur, en á árum áður var mun algengara að bændur semdu sjálfir við flutningsaðila.

Tíndi mörg tonn með höndum

„Áburðarflutningur er mjög snar þáttur í lífinu á hverju vori og næsta ár verð ég að halda áfram, því það verður sextugasta vorið þar sem ég er með eigin útgerð.“ Ingjaldur hefur keyrt út áburð á hverju ári frá því hann eignaðist sinn fyrsta vörubíl og er bjartsýnn á að hann geti haldið áfram þar sem heilsan er góð. „Ég hef trappað mig niður og er ekki að gera meira en ég ræð við með góðu móti. Þetta er ekkert afkomuspursmál lengur, heldur er ég að þessu til þess að halda mér við, bæði fyrir sál og líkama. Sumir fara í ræktina og hlaupa út um allt, en ég nenni því ekki og keyri heldur.“

Ingjaldur segir talsverðan mun á starfinu í dag og þegar hann byrjaði að keyra. „Bílarnir og vegirnir hafa breyst. Það segja allir að vegirnir séu ómögulegir, en það er hreint ótrúlegt hvað þeir eru góðir. Þegar ég byrjaði var ekkert vegakerfi á Íslandi, heldur moldartroðningar í allar áttir.“

Þegar Áburðarverksmiðja ríkisins var enn þá starfandi sótti Ingjaldur allan áburð beint í Gufunes. „Fyrstu árin fékk maður áburðinn afhentan í 50 kílóa sekkjum og gat maður stundum orðið þreyttur eftir að hafa tínt 48 tonn yfir daginn. Síðar fóru þeir að afgreiða pokana á brettum sem létti heilmikið á.

Að lokum komu stórsekkirnir sem er langbesta lausnin á þessu. Maður fékk þá einfaldlega hífða á bílinn og svo voru þeir hífðir af og öllu erfiði létt af manni. Það eina sem maður þurfti að gera var að binda þá áður en maður fór af stað og losa áður en þeir voru teknir af.“

Keyrir á afmælisdaginn

Ég væri ekki búinn að vera í þessu í 59 ár ef mér hefði leiðst þetta,“ segir Ingjaldur. Hann segir erfitt að koma því í orð af hverju starf vörubílstjórans er svona ánægjulegt. „Þeir sem umgangast hesta af einlægni reyna að láta hestunum líða vel. Þeir komast í samband við hestinn og finna hvernig honum líður, en hann leynir engu. Þetta er alveg eins með bílinn, en maður þarf að hafa tilfinningu fyrir honum. Ég lít ekki á bílinn sem dauðan hlut, en þegar honum líður vel þá líður mér líka vel. Mér dettur ekki í hug að ætlast til þess að einhver skilji þetta.“

Blaðamaður ræddi við Ingjald degi fyrir 81 árs afmæli hans þann 7. maí. Spurður hvernig hann hygðist verja deginum svaraði hann: „Ég ætla að keyra á morgun, því ég má ekki bregða út af vananum. Ég hef haft það þannig að ef afmælið mitt ber upp á virkan dag hef ég keyrt áburð, jafnvel þótt það hafi verið stórafmæli.“

Scania frá upphafi

„Ég var langyngstur og hafði ekkert að gera hérna heima í Ferjunesi,“ segir Ingjaldur, en tveir eldri bræður hans og faðir ráku félagsbú sem var ekki nógu stórt til að standa undir fjórða manninum. „Fyrir tilviljun seldi ég Dodge 1959 á góðu verði og fyrst ég var með þessa aura fór ég að athuga hvort ég ætti ekki að kaupa mér vörubíl,“ segir hann.

„Ég var ákveðinn áður en ég fór að heiman að ég ætlaði ekki að kaupa Scania, því þeir voru svo dýrir. Svo fór ég að labba á milli umboða en fékk mjög dræmar undirtektir og enginn vildi ræða við mig af neinni alvöru. Ég endaði á því að labba niður í Ísarn, sem var með umboðið fyrir Scania, og þar er mér tekið eins og hverjum öðrum manni,“ segir Ingjaldur, en þetta var árið 1966 þegar hann var 22 ára.

Hann endaði á því að kaupa bíl frá þeim, sem var dýrari en hann hafði upphaflega hugsað sér, en honum var ráðlagt að kaupa stærri bíl en minni til að fá fleiri verkefni. „Ég sé ekkert eftir því. Þeir tóku vel á móti mér og ég fór til þeirra aftur og aftur,“ segir Ingjaldur, en bílinn fékk hann afgreiddan í byrjun árs 1967.

„Það endaði með því að ég hef keypt fjóra nýja bíla hjá þeim í gegnum tíðina. Ég var heppinn með að ég byrjaði á góðum bílum og losnaði við það basl sem henti marga sem byrjuðu á gömlum druslum og voru í eilífum vandræðum og bilunum.“

Ingjaldur segist aldrei hafa notað vörubíl af annarri tegund en Scania frá árinu 1967. „Ég eignaðist Volvo í einhverju braski og annan Man, en ég hef gaman af því að segja að ég hafi ekki tekið sénsinn á því að nota bílana og seldi þá strax.“ Bíllinn sem Ingjaldur notar í áburðarflutninga í dag er vörubíll sem hann keypti notaðan af Samskip fyrir átta árum. „Þá voru allir að segja að ég ætti að hætta þessu og fara að gera eitthvað skemmtilegt, þannig að ég fór bara og keypti þennan bíl og síðan hefur verið skemmtilegt hjá mér.“

Síðasta áburðarferð Ingjalds þetta vor var 8. maí. 

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...