Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Mynd 1: Aðstoð við umferðaróhöpp milli Dyrhólaeyjarvegar og Víkur 2018 samkvæmt samantekt Framrásar ehf. Tvö í Skarphól, tvö við Gatnabrún, fjögur við gatnamót Reynishverfisvegar og 32 frá Heiðardalsvegi til Víkur. Sláandi dæmi um hvað mörg umferðaróhöpp verða í fjallaskarðinu upp af Víkurþorpi en þar er mjög illviðrasamt og misvinda, ásamt því að þar er miklu oftar hálka, snjór og krapi en á láglendinu.
Mynd 1: Aðstoð við umferðaróhöpp milli Dyrhólaeyjarvegar og Víkur 2018 samkvæmt samantekt Framrásar ehf. Tvö í Skarphól, tvö við Gatnabrún, fjögur við gatnamót Reynishverfisvegar og 32 frá Heiðardalsvegi til Víkur. Sláandi dæmi um hvað mörg umferðaróhöpp verða í fjallaskarðinu upp af Víkurþorpi en þar er mjög illviðrasamt og misvinda, ásamt því að þar er miklu oftar hálka, snjór og krapi en á láglendinu.
Mynd / Landmælingar Íslands
Lesendarýni 4. desember 2023

Meira um samgöngumál í Mýrdal

Höfundur: Þórir N. Kjartansson, Vík

Þegar þetta er skrifað hefur umhverfismatsskýrsla verið birt um þennan fyrirhugaða láglendisveg og jarðgöng undir Reynisfjall.

Við lestur skýrslunnar verður manni fyrst hugsað til þess hvað óskapleg vinna og kostnaður er orðinn í kringum allar framkvæmdir. Alltaf er gott að flana ekki að hlutunum en fyrr má nú rota en dauðrota. Flækjustigið við allar verklegar framkvæmdir er komið út yfir öll skynsamleg mörk. Annað sem er mjög sláandi er að Vegagerðin leggur til að farið skuli í ,,valkost 4“ sem að áliti flestra sem til þekkja er algerlega fráleitt ef litið er til þess að með honum verður minni en enginn umferðarsparnaður, slysahætta jafnvel meiri en á óbreyttum vegi auk þess sem sá vegkafli fer yfir framtíðarbyggingarland Víkurbúa. Þá myndi þetta kalla á rándýra vegagerð um gil og misjafnt land auk vegabóta í Gatnabrún og Skarphól. Eina bótin við þennan valkost er að umferðin færist út fyrir þorpið. Hann tekur ekki af langhættulegasta kaflann af núverandi vegi, sem er fjallaskarðið inn af Víkurþorpi, en þar er gríðarlega vindasamt og misvinda og er langhættulegasti kaflinn sem jarðgöng og láglendisvegur myndu leysa af hólmi en þar fjúka ófáir bílar út af veginum á hverjum vetri. (Sjá mynd 1)

Sem betur fer er vegurinn á þessu svæði lítið uppbyggður og því tiltölulega sjaldgæft að bílar velti sem blessunarlega hefur forðað miklum slysum á fólki en tjón á ökutækjum er oft verulegt. Ekki er annað að sjá en þetta sé mjög vanmetið í umhverfisskýrslunni, vegna þess að sjaldnast er lögregla kölluð til nema slys verði en björgunaraðilar fara ótal ferðir á þetta svæði til bjargar bílum og fólki. Slys og umferðaróhöpp eru miklu fleiri þarna en skráðar tölur sýna og verði vegurinn hafður þarna mun það á einhverjum tímapunkti enda með stórslysi. Umferðaröryggi og fækkun slysa er það sem fyrst og fremst þarf að horfa til varðandi vegaframkvæmdir og finnst mér sá þáttur fá ótrúlega lítið rými í skýrslunni. Miklu þyngra virðist vega t.d. hvort fuglar verði fyrir ónæði af nýjum vegi. Þar má t.d. sjá áhyggjur af því að hugsanlega þurfi þrjú kjóapör að flytja hreiðurstæði sitt, komi vegur eftir bökkum Dyrhólaóss. En svo öllu sé til haga haldið er mikið og fjölskrúðugt fuglalíf í graslendinu norðan Óssins en fuglar og vegir lifa í ágætri sambúð um allt land.

Í þeim kafla er líka talað um ómissandi sjávarleirur í vesturhluta Dyrhólaóss sem hugsanlega verði fyrir raski. Sannleikurinn er hins vegar sá að þar sem þessi hluti Óssins er óðum að fyllast upp eru þetta í dag einungis líflausar sandleirur þar sem fuglar hafa ekkert að sækja nema í hæsta lagi til hvíldar eða næturdvalar. Veiðiréttareigendur sem þarna stunda dálitla netaveiði staðfesta þetta og einnig að fuglalíf á þessum leirum sé hverfandi. Til að sannreyna þetta enn betur flaug greinarhöfundur dróna yfir þetta svæði kerfisbundið frá byrjun maí til loka október 2022 og þessi 40 myndbönd staðfesta þeirra álit. Segja má að telja megi á fingrum sér þá fugla sem báru fyrir myndavélina og þessi myndbönd eru öll til ef einhver efast um sannleiksgildi frásagnarinnar. Haldi fram sem horfir mun allt þetta svæði verða uppgróið eftir örfáa áratugi. Þarna gætir varla flóðs og fjöru lengur þó Ósútfallið sé vel opið sem segir auðvitað að selta er þarna hverfandi lítil eða engin. Einn órækasti votturinn um þetta er að fyrir örfáum áratugum var á þessu svæði ótrúlegt magn af marfló en nú er hún alveg horfin. Allt tal um sjávarleirur á því ekki lengur við um þennan hluta Óssins. (Sjá mynd 2)

Mynd 2: Vegur í Dyrhólaey Mynd/ Þórir N.K.

Þá er einnig lýst nokkrum áhyggjum af fuglalífi í Reynisfjalli, sem er algerlega ástæðulaus ótti, enda laga fuglar sig vel að umferð bíla og manna séu þeir ekkert áreittir. Vöxtur og viðgangur þessara bjargfugla ræðst eingöngu af fæðuframboði í sjónum.

Þá hefur verið alið á hræðslu um afkomu brekkubobba í austurhlíðum Reynisfjalls. Þeir eru dreifðir yfir margra hektara svæði, svo nokkrir fermetrar sem gangnamunninn myndi taka hefði að sjálfsögðu engin áhrif á þeirra lífsskilyrði. Einnig eru viðraðar áhyggjur af því að brýr yfir Hvammsá og Víkurá geti haft neikvæð áhrif á göngufisk. Ekkert er hins vegar spáð í það að í þessum ársprænum er enginn fiskur nema staðbundnar lækjalontur þrátt fyrir að á árunum laust eftir 1990 var sleppt töluverðu af sjóbirtings- og laxaseiðum í árnar á vatnasvæði Dyrhólaóss, án sýnilegs árangurs.

Einnig má í því sambandi leiða hugann að því að allar bestu veiðiár landsins eru brúaðar á einum eða fleiri stöðum sem virðist ekki koma að sök. Mikið hefur verið talað um að vegagerð á norðurbakka Dyrhólaóss valdi miklum spjöllum á votlendi en sannleikurinn er sá að nánast allt þetta land er sundurgrafið af gömlum landþurrkunarskurðum. Einnig hefur því verið óspart flaggað að nýi vegurinn trufli upplifun fólks í Reynisfjöru en fjarlægð vegar og gangnamunna er u.þ.b. einn km frá fjörunni og ekki sjónlína á milli svo sá málflutningur dæmir sig sjálfur.

Það má þó segja höfundum matsskýrslunnar til hróss að þeir virðast ekki hafa tekið mark á þessum hræðsluáróðri en til að hafa eitthvað neikvætt um þetta að segja velta þeir upp þeim möguleika að hugsanlega yrði Reynisfjara oflestuð af ferðafólki færist vegurinn svona nærri henni. Vegagerðin telur að gríðarmikla grjótgarða þurfi til að verja nýja veginn ofan Víkurfjöru fyrir sjógangi. Af þessu hafa sumir hér í Vík nokkrar áhyggjur og spyrja hvort þessir garðar verði svo háir að þeir skyggi á útsýn úr þorpinu til sjávar. Því er til að svara að vestan Víkurár hefur aldrei komið sjór á væntanlegt vegstæði svo langt sem elstu menn muna og ekki heldur þegar landbrotið var sem mest og sjórinn miklu nær byggðinni en nú er. Að kosta til grjótvarna þar er alger óþarfi og eingöngu tilgangslaus peningaeyðsla.

Austan árinnar má aftur á móti ekki dragast deginum lengur að fara í frekari varnir því þar er enn þá landbrot. Í þetta verk verður að fara, alveg burtséð frá því hvort vegurinn kemur eða ekki og þann kostnað því fráleitt að taka með í kostnaðartölur vegar og ganga. Á þessu verki þarf að byrja með nýjum sandfangara milli þeirra eldri, því fullreynt virðist nú að þeir nái að byggja upp trygga fjöru með núverandi millibili. Ströndin þarf að færast fram og hækka svo hægt sé að festa þar gróður eins og gerst hefur á milli eldri sandfangarans og Reynisfjalls. ( Sjá mynd 3)

Mynd 3: Víkurfjara. Mynd/Þórir N.K.

Því miður fær maður það á tilfinninguna við lestur þessarar skýrslu að þar sé reynt að tína til sem flest neikvætt um framkvæmdina en lítið horft til jákvæðu þáttanna. Minnsta hugsanlega rask og ónæði sem yrði á búsvæðum fugla, fiska og brekkubobba virðist meira áhyggjuefni en líf og limir þeirra sem um veginn fara. Líklega er það að nokkru sprottið af lítilli eða engri staðþekkingu þeirra sem um þetta fjalla og að þeir hafa tekið of mikið mark á neikvæðum umsögnum þeirra sem af óskiljanlegum ástæðum vilja ekki að þetta þarfa verk verði að veruleika. Hins vegar verður það svo eins og víða hefur sannast að fljótlega eftir að framkvæmdum lýkur, spyrja menn sig af hverju þetta hafi ekki verið búið og gert fyrir löngu.

Skattaívilnanir í skógrækt
Lesendarýni 8. maí 2024

Skattaívilnanir í skógrækt

Í marsmánuði var hin árlega fagráðstefna Skógræktar á Íslandi haldin.

Dásamlega íslenska sveitin
Lesendarýni 6. maí 2024

Dásamlega íslenska sveitin

Þegar maður kemst á miðjan aldur, þá staldrar maður aðeins við og veltir fyrir s...

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...