Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Talið er að allt að helmingur alls innflutts hunangs til Evrópu sé svikin vara, ýmist að öllu leyti eða hunangið blandað út með ódýru sírópi.
Talið er að allt að helmingur alls innflutts hunangs til Evrópu sé svikin vara, ýmist að öllu leyti eða hunangið blandað út með ódýru sírópi.
Mynd / Pixabay
Fréttir 18. ágúst 2025

Þriðjungur af öllu hunangi á alþjóðamarkaði svikinn

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Holskefla af ódýru kínversku hunangi ríður yfir Evrópu. Rannsóknir benda til þess að um stórfelld vörusvik sé að ræða í allt að helmingi innflutts hunangs til álfunnar.

Gríðarleg svik í hunangsframleiðslu valda verðfalli á hunangi og stuðla að veikingu býflugnaræktar og -verndar á alþjóðavísu. Mest af hinu svikna hunangi er rakið til Kína, þar sem það er bæði selt innanlands og flutt út í gífurlegu magni. Þriðjungur af öllu hunangi sem flutt er út er kínverskt en fleiri lönd, svo sem Tyrkland og Víetnam, flytja út hunang og önnur lönd í minna mæli. Óttast er að svikið hunang sé notað í grunn ódýrara hunangs sem selt er í stórmörkuðum um allan hinn vestræna heim og víðar.

Ógnar evrópskri hunangsframleiðslu

Franskur rannsóknarhópur skoðaði fyrir nokkru síðan sérstaklega kínverskt innflutt hunang sem selt var í matvöruverslunum. Niðurstaðan var að algengustu svikin í hunanginu voru að í það hafði verið bætt sykri, maíssírópi eða rófumelassa. Vatnsmagn var mikið og fundust einnig efnaleifar, jafnvel eiturefni, en auk þess varð vart við dýraleifar í einhverjum tilfella, svo sem hluta af rottum. Hunangið var ýmist svikið að hluta eða öllu leyti. Talið er að hunangi sé gjarnan safnað of snemma í Kína, áður en það hefur þroskast, sem þýði að það sé af lélegum gæðum, mettað vatni og hafi tilhneigingu til að ofgerjast. Að auki er útþynning með sykri mikið iðkuð.

Rannsóknir í Ástralíu, Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, á Spáni og Indlandi, sem eru helstu innflytjendur heims á kínversku hunangi, hafa leitt sömu eða svipuð vörusvik í ljós. Hið ódýra svikna hunang sem flæði inn til þessara landa sé að eyðileggja lífsviðurværi býflugnaræktenda sem séu síðasta varnarlínan til björgunar og verndar býflugum.

Frakkland býr yfir einum elsta og best stýrða hunangsiðnaði í heiminum. Frakklandi er skipt í 18 svæði, eða héruð, og hvert og eitt framleiðir hunang.

Franskir neytendur æfir

Franskir neytendur hafa lengi kvartað yfir að upprunamerkingar hunangs séu falsaðar. M.a. hafa verið afhjúpuð svik þar sem þúsundir tonna af bæði kínversku og spænsku hunangi höfðu verið merktar sem franskt hunang. Þá eru alþekkt svik þar sem t.d. blandað blómahunang er merkt sem akasíuhunang. Einnig er sagt vandamál að hunangi sé safnað víða að úr heiminum og því blandað saman, meðal annars í Bretlandi, og selt áfram til Evrópusambandsríkjanna. Food Times greinir frá.

Franska dagblaðið Le Monde sagði frá því að talið væri að allt að helmingur alls innflutnings á hunangi til Evrópu væri svikin vara. Skýrsla framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá árinu 2023, um úttekt á innfluttu hunangi, hefði leitt í ljós stórfelld svik. Stærstur hluti svikna hunangsins kæmi frá Kína og næstmest frá Tyrklandi. Um 74% af 89 tegundum kínversks hunangs og 14 af 15 tegundum tyrknesks hunangs reyndust vörusvik, segir í Eurofins.

Til að tryggja lífræn gæði hunangs er í gildi evrópsk tilskipun um að farið sé að ákveðnum ferskleikabreytum (sérstaklega lágmarksgildi ensímvirkni), sem vitni um gott ástand vörunnar. Öll aukefni eru bönnuð samkvæmt evrópskum reglum.

Sykurblandað hunang

Segir í grein Le Monde að samkvæmt sýnatöku- og eftirlitsvinnu á vegum ESB væri næstum helmingur hunangs frá löndum utan Evrópu blandaður með sykursírópi úr hrísgrjónum, hveiti eða sykurrófum. Af 320 lotum af hunangi sem Sameiginlega rannsóknamiðstöðin (e. Joint Research Centre), opinber rannsóknastofa framkvæmdastjórnar ESB, prófaði, reyndust 147 vera sviknar. Það eru 46% þeirra sýna sem greind voru. Þetta er verulegur hluti af því hunangi sem neytt er í Evrópu. Tölur frá sambærilegri sýnatöku árið 2015 sýndu 14% vörusvik og því hefur vandamálið snaraukist.

Evrópa er næststærsti innflytjandi hunangs í heiminum á eftir Bandaríkjunum, flytur inn um 175.000 tonn af hunangi á ári (um 40% af heildarneyslu).

Íslendingar fluttu inn á árabilinu 2023 til júní 2025 alls um 457.428 kg af hunangi. Í tollflokki 0409.0010 (hunang í minna en 2 kg umbúðum, ekki til endursölu) voru flutt inn 7.357 kg og ekkert af því frá Kína, skv. gögnum Hagstofu Íslands. Á sama tímabili voru flutt inn, undir tollflokki 0409.0090 (annað hunang), alls 450.071 kg, þar af 69.595 kg frá Kína, eða um 16%.

Stórfelld vörusvik í hunangi eru sögð grafa undan lífsviðurværi býflugnaræktenda sem séu síðasta varnarlínan til björgunar og verndar býflugum.

Svikarar sjá við gæðaeftirliti

Að sögn Honey Authenticity Network (HAN), alþjóðlegra samtaka einstaklinga og stofnana sem berjast gegn hunangsfölsun, hefur tæknin til að falsa hunang skotist fram úr hefðbundnum greiningaraðferðum sem staðfesta hreinleika vörunnar. Nýti framleiðendur og markaðsaðilar sér það til hins ýtrasta.

Algeng leið til að svíkja hunang er að bæta við maíssírópi eða sykurreyr. Hvort tveggja eru plöntur sem framkvæma ljóstillífun með því að nota fjögurra kolefna efnaskiptaferil (C4-plöntur). Hins vegar er samsetning sykra í sírópi sem framleitt er með C4-plöntum mjög frábrugðin samsetningu sykra í hunangi. Þetta er vegna þess að býflugur safna nektar aðallega frá plöntum með þriggja kolefna efnaskiptaferil (C3-plöntur) þar sem þær eru algengastar (90%). Þessi mikli munur á sykrum geri greininguna sem er notuð til að greina C4-síróp (EA-IRMS5) nægilega áreiðanlega.

HAN segja aftur á móti mjög erfitt að greina síróp úr C3-plöntu eins og hrísgrjónum, hveiti, rófum, kassava eða kartöflum, þar sem samsetning sykra þeirra geti verið mjög svipuð samsetningu sykra í hunangi. Svokallað LC-IRMS6-próf er mest notað til að greina C3-síróp. Hins vegar hefur það reynst árangurslaust miðað við háþróaðar aðferðir til að svíkja eða falsa hunang, segja HAN.

Útsmogin svik

Hreint hunang inniheldur ófrávíkjanlega ákveðið magn og ákveðnar tegundir frjókorna (allt að 0,5%) og með vissum ummerkjum sem tengjast grasafræði og landafræði svæðisins sem hunangið kemur frá. Sömuleiðis þarf hunang að innihalda díastasa og prólín, ensím og amínósýru sem verður að vera til staðar í hunangi í ákveðnu magni og tiltekinni röðun.

Til að dylja síróp í hunangi er þessum innihaldsefnum, sem fáanleg eru víða, blandað í hunangið í nákvæmum skömmtum. Þetta getur gefið góðan hagnað því á meðan tonnið af hunangi kostar á markaði um 3.000 Bandaríkjadali er meðalverð á sírópi í það minnsta sexfalt lægra, að sögn HAN.

Auk þess nái hunangsframleiðsla á heimsvísu samtals um 1,5 milljónum tonna á ári, sem sé miklu minna en hin gríðarstóra uppspretta aðfanga til sírópsframleiðslu: 2,39 milljónir tonna á ári af rófum, hrísgrjónum, kassava, hveiti og kartöflum.

ESB grípur til varna

Eurofins segir Evrópusambandið hafa reynt að grípa til varna með umfangsmiklum eftirlitsaðgerðum. Þannig hafi matvælaöryggisstofnun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins samræmt umfangsmikla eftirlitsaðgerð gegn svikum á hunangi með 16 Evrópulöndum auk Sviss, Noregs og Evrópustofu gegn svikum (e. European Anti-Fraud Office). Það hefur þó ekki dugað til að stöðva flæði svikins hunangs inn til gamalgróinna hunangsframleiðslulanda Evrópu. Svo snemma sem árið 2016 var Evrópuþingið spurt hvort það hygðist banna innflutning á kínversku hunangi til Evrópusambandslanda en það þótti ekki fýsilegur kostur og eftirlit og rannsóknir taldar skila betri árangri.

Samkvæmt Matvælastofnun tóku í nóvember 2024 gildi nýjar reglur varðandi innflutning hunangs frá „þriðju ríkjum“ sem kveða á um að yfirvöld viðkomandi ríkja skuli skrá í TRACES þau fyrirtæki sem leyfi hafa til útflutnings á hunangi og afurðum úr hunangi til ESB og EES. TRACES er netvettvangur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrir dýraog plöntuheilbrigðisvottun. Hjá Neytendasamtökunum hefur orðið vart við umræðu um svikið hunang en kvartanir ekki borist frá neytendum þar um, að sögn forsvarsmanna.

Skylt efni: hunang | Matvælasvik

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...