Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Mikil vonbrigði en kemur ekki á óvart
Fréttir 9. október 2014

Mikil vonbrigði en kemur ekki á óvart

Höfundur: Vilmundur Hansen

Íslensk löggjöf um innflutning á fersku kjöti er andstæð EES-samningnum samkvæmt rökstuddu áliti sem Eftirlitsstofnun EFTA sendi frá sér í gær.

Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, innmat og sláturúrgang hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alifuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.

Mikil vonbrigði að sögn landbúnaðarráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra sagði í samtali við Bændablaðið að niðurstaða ESA komi sér ekki á óvart en að hún valdi sér miklum vonbrigðum.

„Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að innflutningshöftin snúist um heilbrigðismál og verndun fjár á Íslandi sem er laust við mikið af búfjársjúkdómum sem þekkjast og eru vandamál annars staðar. Auk þess sem gæði og öryggi matvæla á Íslandi er mjög gott og við viljum tryggja að svo sé áfram. Dæmi um slíkt er að tíðni matarsýkinga er hvað lægst í heiminum á Íslandi ef ekki sú lægsta.

Álit ESA er aftur á móti það að málið snúist um verslun með matvæli yfir landamæri og ESA ekki viljað taka okkar sjónarmið til greina og um málið er grundvallarágreiningur. Niðurstaðan kom mér því ekki á óvart en hún veldur mér vonbrigðum.

Við höfum núna tvo mánuði til að skoða málið og þar sem um grundvallarhagsmuni er að ræða geri ég ráð fyrir að við látum á álitið reyna fyrir EFTA-dómstólnum,“ segir landbúnaðarráðherra.

Ekki sýnt fram á réttmæti

ESA telur íslensk stjórnvöld ekki hafa sýnt fram á að núverandi fyrirkomulag megi réttlæta með þeim rökum að það sé nauðsynlegt til að vernda líf og heilsu manna og dýra. Þau vísindalegu gögn sem íslensk stjórnvöld hafa framvísað renna ekki stoðum undir gildandi reglur heldur sýna þvert á móti að áhætta á sýkingu búfjár gegnum innflutning á fersku kjöti sé hverfandi.

ESA telur umrætt kerfi leyfis­veitinga þannig fela í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir. Rökstutt álit er annað skref í meðferð samnings­brotamáls.

Ekki endanleg niðurstaða

Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, segir að álit ESA um að innflutningsbann á fersku kjöti til Íslands standist ekki samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sé ekki endanleg niðurstaða í málinu.

„Þetta er það sem er kallað rökstutt álit en ekki þar með sagt að það standist fyrir EFTA-dómstólnum og hann sé á annarri skoðun en ESA. Íslendingar geta því enn varið sína ákvörðun fyrir honum. Nærtækt dæmi um að álit ESA hafi ekki staðið fyrir EFTA-dómstólnum er niðurstaðan í Icesave-málinu.

Standi álitið úrskurð aftur á móti verður að heilbrigðisvotta ferska kjötið eftir evrópskum reglum en ekki íslenskum sem eru mun strangari.“

Helstu rök íslenskra stjórnvalda um nauðsyn þess að hefta innflutning á fersku kjöti byggja á þeim rökum að innflutningurinn geti leitt til aukningar á dýrasjúkdómum og að lýðheilsu þjóðarinnar sé stefnt í voða vegna notkunar sýklalyfja sem vaxtarhvata í erlendri kjötframleiðslu.

Íslenskir bændur ekki tryggðir

Í Evrópu er sérstakur tryggingar­sjóður sem greiðir bændum og framleiðendum verði þeir fyrir tjóni sem kemur upp vegna sýkinga eða sjúkdómsfaraldra. Ísland er ekki aðili að þessum sjóði og mundi tjón af völdum sýkinga vegna innflutnings á fersku kjöti lenda alfarið á bændum eða ríkinu.

Á árunum 1997 til 2010 eyddi ESB um 1,1 milljarði evra til að fjármagna kostnað og tap vegna gin- og klaufaveiki, svínaflensu og fuglaflensu.

Miklir hagsmunir í húfi

Erna Bjarnadóttir, aðstoðar­framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, sagði í samtali við Bændablaðið að í raun væri ekkert nýtt í áliti ESA.

„ESA hefur alltaf hafnað rökum okkar bænda um að innflutningur á fersku kjöti myndi ógna heilsu manna og dýra. Við erum að sjálfsögðu algjörlega ósammála því áliti eftirlitsstofnunarinnar. Við höfum meðal annars bent á að það sé einföldun að fara eftir áhættumati Alþjóða­heilbrigðisstofnunarinnar vegna dýrasjúkdóma í Evrópu. Á meginlandinu eru sjúkdómar sem erlend búfjárkyn þola ágætlega en íslenskir  búfjárstofnar hafa  ekki byggt upp ónæmi fyrir,“ segir Erna.

Um áframhald málsins segir Erna að það sé í höndum stjórnvalda. Miklir hagsmunir séu í húfi fyrir íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu á Íslandi til framtíðar.
„Okkur hefur verið tjáð að farið verði með málið alla leið fyrir EFTA-dómstólinn og við treystum því.“

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...