Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Lykillinn að góðri nyt eru góð hey
Mynd / HKr.
Fréttir 18. nóvember 2016

Lykillinn að góðri nyt eru góð hey

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Eins og fram kemur á forsíðu stefnir í hörkukeppni milli kúabænda landsins varðandi röðun í tíu efstu sætin yfir afurðahæstu búin að meðaltali á kú 2016. Brúsastaðir í Vatnsdal tróna þar efst með 8.814 kg eftir hverja mjólkurkú að meðaltali síðustu 12 mánuði þar á undan. 
 
Þýðir þetta að margar kýr á bænum eru með meiri nyt og nokkrar með um og yfir 12.000 kg. 
 
Það eru hjónin Gróa Margrét Lárusdóttir og Sigurður Ólafsson sem reka búið Brúsa ehf. Þau kunna greinilega vel til verka, því þau voru líka með afurðahæsta búið að meðaltali á hverja kú á árinu 2014 og 2013. Þá var búið í tíunda sæti árið 2012.
 
Á Brúsastöðum eru nú 51,1 árskýr og hefur fjöldinn verið svipaður undanfarin ár. Þar er mjaltaþjónn sem Sigurður segir að standi sig vel.
 
Aukning upp á nær tonn á hverja kú á tveim árum
 
Er árangurinn á Brúsastöðum í Vatnsdal nú sérlega eftirtektarverður, því kýrnar á bænum eru að skila nær þúsund kílóum (einu tonni) meira að meðaltali en 2014. Ljóst má vera að til að ná slíkum árangri verður ansi margt að ganga upp, bæði í ræktun gripa, heyskap, fóðrun og umhirðu. Þá mjólka kýrnar í raunveruleikanum ekki eftir neinum meðaltölum enda einhverjar að fara yfir 12.000 kg nyt á ári.  
 
Lykillinn að góðri nyt eru góð hey fremur en kjarnfóður
 
Sigurður Ólafsson bóndi segir að lykillinn að þessum góða árangri séu góð hey. 
„Sérstaklega heyin frá því í fyrra, þau eru snöggtum betri en í sumar. Það var kaldara og hægari spretta og þar af leiðandi kjarnbetra hey. Lystileikinn er líka mikið meiri. Það er alltaf slæmt þegar grasið veður upp eins og í hlýviðrinu í sumar. Við byrjuðum samt að slá snemma, eða 10. júní, en heyið var samt ekki eins gott.
 
Okkur fannst það kostur hvað spratt hægt í fyrra enda eigum við nóg af túnum og verðum ekkert tæp á heyjum þó það spretti aðeins minna. Það er því gott að vera svo birgur af túnum,“ segir Sigurður.  
Hann segir að ekkert hafi verið aukið við kornfóðurgjöf til að ná þessum árangri, heldur frekar dregið úr henni. Í ljósi gæða á heyi sumarið 2015 drógu þau úr kornfóðurgjöfinni og hafa haldið henni eins á yfirstandandi ári. 
 
„Við höfum reynt að keyra þetta eftir mælingum á heyinu og kaupum þá kjarnfóður sem passar við heyið en ekki bara eitthvað af því að það var keypt fyrir hundrað árum. Ef fóðrið passar ekki fyrir heyið skiptum við hiklaust um.“ 
 
Þurfa mikið hey á móti kjarnfóðrinu
 
„Það mjólkar ekki af kjarnfóðrinu einu saman. Til að kýr geti innbyrt mikið af kjarnfóðri þurfa þær gríðarlegt magn af góðu heyi. Það er mikil sóun falin í því að gefa mikið kjarnfóður og vera með léleg hey. 
 
Þá er talað um að kýr haldi illa (kálfum) ef mikið kjarnfóður er gefið. Hér var sæðingamaður í morgun sem var að þinga með Þorsteini Ólafssyni dýralækni. Samkvæmt honum eru kýrnar hér að halda mjög vel miðað við það sem þekkist á landsvísu. Það staðfestir að við erum ekki að gefa mikið kjarnfóður þó það sé alltaf töluvert.“ 
 
Gamla góða tuggan stendur fyrir sínu
 
„Hjá okkur eru þetta um 260 grömm af kjarnfóðri á hvert framleitt kíló af mjólk. Maður er að sjá mun hærri kjarnfóðurgjöf á búum sem eru jafnvel með 1.800 kílóum minna í árs framleiðslu á kú en við. Gamla góða tuggan er lykillinn að þessu öllu.  
 
Nú svo snýst þetta bara mikið um að sinna þessu vel,“ segir Sigurður. Hann segir svo sem ekkert útséð með að hann verði efstur þegar árið er á enda, enda sé haustburður rétt að byrja hjá þeim núna sem er óvenju seint. Sem stendur eru kýrnar ekki að skila „nema“ um 850 lítrum á dag, en voru að skila um 1.400 til 1.500 lítrum þegar best lét. 
 
„Fyrstu sex mánuði ársins vorum við að skila í kringum 40.000 lítrum á mánuði í samlag og gáfum kálfunum mjólk að auki.“ 
 
Blóðugt að horfa á eftir bestu kúnum í júgurslit vegna útivistarskyldu
 
Sigurður segir að hjá þeim hafi verið margar góðar kýr sem mjólka vel. Útivistarskyldan hafi þó verið að gera þeim grikk. Hún taki frá þeim um 5 kýr á ári vegna þess að júgrin slitna niður á þeim við að ráfa út á tún.
 
„Fimmta kýrin eftir sumarið er einmitt að fara í sláturhús í þessari viku af þessum sökum. Það er blóðugt að þurfa að horfa á slík afföll, jafnvel á bestu mjólkurkúnum. Það eru aldrei færri en þrjár sem þarf að fella eftir sumarið og upp í fimm eins og núna. Allt eru þetta 12 þúsund kílóa kýr.“
 
Þetta er athyglisvert og setur óneitanlega spurningu um hvort í útivistarskyldu felist í raun nokkur dýravelferð ef það er svo að leiða til þess að slá verður af miklar mjólkurkýr vegna áverka á júgrum. 
„Þetta er nú krafan úr 101 Reykjavík,“ segir Sigurður. Yfirleitt er bent á ESB-regluverk þegar talað er um útivistarkröfuna í sambandi við dýravelferð. Ljóst er þó að á kúabúum í Þýskalandi, sem blaðamaður Bændablaðsins heimsótti, er mjólkurkúm aldrei hleypt lausum út á tún. Segist Sigurður hafa sömu reynslu.
 
„Síðast þegar ég kom á bú í Þýskalandi þar sem voru 50 kýr voru einungis geldbeljur settar út og kvígur. Að mínu mati er allt í lagi að setja út nautgripi og geldar kýr. 
 
Kílógrömm í fljótandi formi
 
Fyrir leikmenn getur verið ruglandi þegar ýmist er verið að tala um lítra og kílógrömm í mjólkurframleiðslu. Flestir hafa vanist því að vökvi sé mældur í lítrum en það er ákveðin skýring á því af hverju mjólkin frá kúnum er mæld í kílógrömmum. 
 
Ástæðan er sú að mjólk hefur ekki sömu eðlisþyngd og vatn vegna efnainnihalds og bændum er greitt í samræmi við fitu- og próteininnihald mjólkurinnar sem vigtað er í kg. Þess vegna skapaðist fljótt sú hefð að mæla mjólk eftir þyngd en ekki í lítratali. Einnig er öll fóðurgjöf og breytingar á henni í forritum reiknaðar út frá þeirri kílógrammatölu sem kýrnar eru að skila í mjólk. Þá gefa flestir ef ekki allir mjaltaþjónar upp mjólkurmagnið eftir vigt þótt þeir geti líka gefið upp lítrafjöldann.

Skylt efni: góð nyt | Brúsastaðir

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...