Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Framleiðnisjóður landbúnaðarins mun brátt heyra sögunni til
Mynd / Framleiðnisjóður
Fréttir 16. september 2019

Framleiðnisjóður landbúnaðarins mun brátt heyra sögunni til

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Í meira en hálfa öld hefur Framleiðni­sjóður landbúnaðarins verið nýsköpunar- og framfar­a­sjóður greinarinnar. Hann kann brátt að heyra sögunni til verði frumvarp sem nú er í smíðum að veruleika á haustþinginu.
 
Hlutverk sjóðsins er að veita styrki til nýsköpunar og þróunar í landbúnaði á Íslandi og eru verkefnin, sem notið hafa stuðnings, afar fjölbreytt. Sjóðurinn styrkir hagnýt rannsókna- og þróunarverkefni á vegum stofnana, félaga og annarra aðila innan þróunargeirans, ýmis fræðslutengd verkefni, sem og verkefni á vegum bænda sem lúta að nýsköpun og þróun á bújörðum. Um fjármuni til Framleiðnisjóðs er samið í rammasamningi Bændasamtaka Íslands og ríkisins.
 
Nýr Matvælasjóður
 
Nú er í smíðum lagafrumvarp í atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytinu er varðar stofnun nýs Matvælasjóðs. Hinum nýja sjóði er ætlað að taka til starfa 1. janúar 2021. Gert er ráð fyrir að Framleiðnisjóður renni inn í þennan nýja sjóð og að árið 2020 verði því síðasta starfsár sjóðsins. Framleiðnisjóður annast í dag umsýslu með Þróunarfé búgreinanna og Markaðssjóði sauðfjárafurða, en ekki er gert ráð fyrir að þeir fjármunir falli undir hinn nýja Matvælasjóð. 
 
Ekki er ljóst hvaða aðila verður falin umsýsla með styrkveitingum af Þróunarfé og úr Markaðssjóði, eftir að Framleiðnisjóður verður lagður niður. 
 
Stefnt er að því að leggja fram frumvarp um Matvælasjóð nú á haustþingi. Einnig stendur til að vinna að stefnumótun fyrir hinn nýja sjóð. Frumvarpið hefur ekki verið gert opinbert og því liggur ekki fyrir hverjar verkefnaáherslur hins nýja sjóðs verða. 
 
Mikilvægt að áherslur verði kynntar sem fyrst
 
Að sögn Elínar Aradóttur, formanns stjórnar Framleiðnisjóðs, er enn ekki ljóst hvort allir þeir verkefnaflokkar og/eða efnissvið sem notið hafa stuðnings Framleiðnisjóðs falli undir verksvið hins nýja Matvælasjóðs. Stjórn Framleiðnisjóðs hefur nokkrar áhyggjur af því að t.d. hagnýt rannsókna- og þróunarverkefni m.a. á sviði skógræktar og landnytja, ýmis verkefni sem tengjast framþróun ráðgjafarþjónustu fyrir bændur og margvísleg fræðslutengd verkefni muni mögulega ekki verða á starfssviði sjóðsins.
 
„Framleiðnisjóður hefur einnig um árabil gegnt mikilvægu hlutverki í byggðalegu samhengi, sér í lagi í tengslum við styrkveitingar til nýsköpunarverkefna á vegum bænda. Innan þessa verkefnaflokks eru margvísleg atvinnuskapandi verkefni sem mörg hver hafa lítið með matvæli að gera, en uppbygging margvíslegrar ferðaþjónustu er þar langalgengasta viðfangsefnið,“ segir Elín. 
 
Hún leggur áherslu á að í ljósi þess hversu fjölbreytt verkefni hafa notið stuðnings hjá Framleiðnisjóði sé mikilvægt að sem fyrst verði upplýst um áherslur hins nýja sjóðs, svo ólíkir hagsmunaaðilar geti kynnt sér málið og aðlagað sig að breyttu stuðningsumhverfi.
 
„Leita þarf allra leiða til að aðgengi að fjármagni til mikilvægs þróunarstarfs í greininni verði áfram tryggt,“ bætir Elín við.
 
Starfið með hefðbundnu sniði 2020
 
Forsvarsaðilar Framleiðnisjóðs eru nú að undirbúa starf sjóðsins árið 2020, en meginhluti starfsins fer fram fyrri hluta árs. Stefnt er að því að áherslur og tímasetningar umsóknarfresta verði með svipuðum hætti og á árinu 2019. 
 
Umsóknarfrestur fyrir rannsókna- og þróunarverkefni á vegum stofnana, félaga og annarra aðila innan þróunar­geirans verði um miðjan nóvember 2019, en auglýst verður eftir styrkumsóknum með fyrirvara um fjárveitingar Alþingis á fjárlögum 2020. 
 
Líkt og undanfarin ár er stefnt að því að afgreiða umsóknir um styrki til rannsókna- og þróunarverkefna í lok febrúar á nýju ári. 
 
Umsóknarfrestur um styrki til nýsköpunarverkefna á bújörðum á vegum bænda verður væntanlega undir lok janúar 2020 og stefnt að því að ljúka afgreiðslu í byrjun apríl.
Norðlenskir bændur verðlaunaðir
Fréttir 1. maí 2024

Norðlenskir bændur verðlaunaðir

Bændur á þremur bæjum voru verðlaunaðir á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar ...

Rekstrarbati hjá Norðlenska Kjarnafæði
Fréttir 1. maí 2024

Rekstrarbati hjá Norðlenska Kjarnafæði

Hagnaður Kjarnafæðis Norð­lenska var 385,5 milljónir króna á síðasta ári fyrir s...

Engir hveitibrauðsdagar
Fréttir 30. apríl 2024

Engir hveitibrauðsdagar

Nýi matvælaráðherrann, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, segir of stutt vera eftir af...

Vanræksla kærð til lögreglunnar
Fréttir 30. apríl 2024

Vanræksla kærð til lögreglunnar

Matvælastofnun tilkynnti þann 9. apríl sl. að stofnunin hefði kært til lögreglu ...

Kjötmjöl verði skilgreint sem áburður en ekki aukaafurð dýra
Fréttir 30. apríl 2024

Kjötmjöl verði skilgreint sem áburður en ekki aukaafurð dýra

Orkugerðin ehf. í Flóanum stefnir að því innan fárra mánaða að breyta framleiðsl...

Sveinn Rúnar nýr stjórnarformaður
Fréttir 29. apríl 2024

Sveinn Rúnar nýr stjórnarformaður

Breytingar hafa orðið á stjórn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...