Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Bjartsýni á að takist að endurreisa Sjávarleður, Atlantic Leather
Fréttir 2. ágúst 2016

Bjartsýni á að takist að endurreisa Sjávarleður, Atlantic Leather

„Það eru þreifingar í gangi en hvert þær leiða er ómögulegt að segja fyrir um á þessari stundu,“ segir Gunnsteinn Björnsson, framkvæmdastjóri Sjávarleðurs, Atlantic Leather á Sauðárkróki. Fyrirtækið fór í greiðsluþrot um síðustu mánaðamót, en vilji er til þess að vinna að endurreisn þess. Starfsemi á vegum fyrirtækisins er nú í lágmarki, en helstu kröfu­hafar hafa veitt leyfi sitt fyrir því að halda starfseminni gangandi á meðan leitað er leiða til að reisa félagið við. 
 
Mest verðmæti með því að endurreisa félagið
 
Um 20 manns starfa hjá Sjávarleðri, þeim hefur verið sagt upp störfum, en að sögn Gunnsteins hefur fengist leyfi til að ráða um helming þeirra aftur. Stór hluti starfsmanna hefur verið í sumarleyfi í júlí en framkvæmdastjórinn segir að þegar ágúst gangi í garð sjái menn vonandi hvernig mál félagsins fari, hvort hægt verði að ýta úr vör á nýjan leik. „Starfsfólkið er auðvitað og því miður í lausu lofti um þessar mundir. Það er hins vegar ríkur vilji til að fá hjólin til að snúast á nýjan leik, aðalkröfuhafar þess telja hagsmunum sínum best borgið með þeim hætti. Það eru meiri verðmæti í því fólgin að endurreisa félagið heldur en að setja í lás,“ segir hann. 
 
Gunnsteinn segir að starfsemi félagsins byggi á fjórum meginstoðum, unnið sé með roð og loðgærur og svo mokka og hrávöru. Vel hefur gengið með vinnslu úr roði og loðgærum, en annað er upp á teningnum þegar kemur að hinu síðarnefnda, mokka og hrávöru. „Það hafa alla tíð skipst á skin og skúrir með hrávöruna, hún gengur upp og niður og okkur er vel kunnugt um þær sveiflur sem eru á markaði þegar að henni kemur,“ segir hann. 
 
Algjört hrun í sölu mokkaskinna
 
Algjört hrun hefur verið í sölu á mokkaskinnum á núverandi rekstrarári, en það hefst 1. september ár hvert og er það því langt komið. Velta á yfirstandandi rekstrarári er um 20 milljónir króna, en var á sama tíma á liðnu ári um 300 milljónir króna. „Það ástand sem skapast hefur á mörkuðum er mikill skellur fyrir félagið, við þetta ráðum við ekki og það má segja að þessi gríðarlega niðursveifla verður til þess að það er sjálfhætt,“ segir Gunnsteinn. „Þetta gerist á mjög skömmum tíma og er ekkert annað en reiðarslag.“
 
Markaðir í Rússlandi lokaðir
 
Lokun markaða í Rússlandi er ein helsta ástæða þess að fór sem fór, en stór hluti af framleiðsluvörum Sjávarleðurs fór á þann markað. Evrópumarkaður er í ofanálag ekki sterkur, en inn á þann markað senda Tyrkir mikið magn af ódýrum mokkaskinnum sem ekki er hægt að keppa við. Til að bæta gráu ofan á svart var síðastliðinn vetur með hlýrra móti og sala á mokkaskinnum fyrir vikið minni en vant er. Loks nefnir Gunnsteinn að íslenska krónan hafi styrkst undanfarið og það hafi einnig sitt að segja. 
 
Skynsamlegasta leiðin
 
Gærukaup fara fram á haustin og keypti fyrirtækið inn afar lítið af gærum síðastliðið haust þar sem samdráttur var þá þegar hafinn og til voru birgðir frá fyrri árum. Þau ljón sem verið hafa í vegi félagsins á liðnum vetri gera nú að verkum að mikill lager er til staðar sem lækkar í verði dag frá degi. „Við bregðumst við með því að afskrifa birgðir og skuldirnar hlaðast upp. Þá kemur að því á ákveðnum tímapunkti að ekki er hægt að fara nema eina leið, skynsamlegasta leiðin út úr þessum ógöngum var að fara með félagið í greiðsluþrot,“ segir Gunnsteinn. 
 
Mikilvægt að ekki verði rof í framleiðslunni
 
Það sem nú blasir við er að halda áfram þeirri starfsemi sem vel hefur gengið með, þ. e. með roð og gærur og kveðst Gunnsteinn nokkuð bjartsýnn á að takist að fá hjólin í gang á nýjan leik hvað þann þátt varðar. „Það er afskaplega mikilvægt að ekki verði rof í framleiðslunni og að okkur takist að standa við þær skuldbindingar sem við höfum gert varðandi afhendingar á vörum til okkar viðskiptavina. Við kappkostum að hraða þeirri vinnu sem við nú erum í og varðar endurreisn, en fyrir hendi eru áhugasamir aðilar, bæði hér heima og erlendis, sem eru tilbúnir að koma til liðs við okkur,“ segir hann. 
 
Hjá Sjávarleðri er fyrir hendi mikil þekking, en fyrirtækið hefur verið í fararbroddi þegar kemur að sútun á fiskroði. Það gefur mönnum tilefni til bjartsýni á að áfram verði haldið.

Skylt efni: Sjávarleður

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f