Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Jens Árni Ingimundarson hikar ekki við að mála svo sem eitt þak þótt hann sé orðinn 88 ára. Hann segist þó vera vel bundinn og fara eftir öllum reglum.
Jens Árni Ingimundarson hikar ekki við að mála svo sem eitt þak þótt hann sé orðinn 88 ára. Hann segist þó vera vel bundinn og fara eftir öllum reglum.
Fréttir 16. nóvember 2020

Annaðhvort er að duga eða drepast

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Tíðindamaður Bændablaðsins var á ferð á dögunum austur í Flóa og ók inn í litla sumarhúsabyggð rétt austan Selfoss. Þar blasti við honum hetjulegur maður uppi á þaki að mála. Þegar málarinn hafði klöngrast niður af þakinu kom í ljós að hann var vel við aldur, fæddur 1932, eða 88 ára gamall. 

Þetta þótti tíðindamanni magnað og settist niður og tók spjall við málarann. Hann kvaðst heita Jens Árni Ingimundarson og vera fæddur á Djúpavogi, þar sem hann sleit barnsskónum og gerðist sjómaður. 

– Hvað dró þig suður? 

„Það var konan, hún hét Karitas Geirsdóttir, hérna frá Hallanda í Flóa, hún er dáin fyrir átján árum. Við bjuggum tvö ár á Djúpavogi en síðan lá leiðin til Reykjavíkur. Hvað starfaðir þú þar? Ég vann hjá Sól h/f, svo hjá Hampiðjunni og Sláturfélagi Suðurlands.“

Oft stutt á milli þess að vera hugaður og heimskur

Nú víkur blaðamaður sér að málaranum og þessum kjarki í 88 ára gömlum manni að príla uppi á þaki. Jens glottir við tönn og segir:

„Það er nú oft stutt á milli þess að vera hugaður og heimskur. Ég fer að öllum reglum, er vel bundinn, svo byrja ég á að skrapa og hreinsa svo þakið með háþrýstidælu áður en ég mála.  En ég ek mínum bíl og reyni að halda mér við, fer í líkamsrækt og hef stundað hana í 21 ár og þar sæki ég mér kraft og þrek og liðka mig. Ég tel það allra meinabót að vera í líkamsrækt.“ 

Drap í síðustu sígarettunni 18. júlí 1992

– Jens, ertu reglumaður? 

„Nei, nei, ég var reykingamaður en fór til læknis og þá var kransæðastífla að angra mig. Læknirinn sagði mér að hætta að reykja, ég ætti engan annan kost ef ég vildi lifa og verða gamall. 

Ég tók lækninn á orðinu því lífið er betra en dauðinn. Ég drap í síðustu sígarettunni 18. júlí 1992 klukkan hálfníu um kvöldið, og hef aldrei séð eftir því, var farinn að reykja á annan pakka af Camel á dag.“  

– Áttu þér ekki einhver áhugamál? 

„Jú, veiðidella hefur fylgt mér allt lífið, að skjóta af byssu fara á gæs og rjúpu og svo veiðistöngin. Ég hnýti mínar flugur yfir veturinn og veit hvað passar í Veiðivötnin og svo upp í silunginn og sjóbirtinginn hér í Ölfusá, í Kaldaðarnesi eða Auðsholti. Svo fór ég oft hér í Langholt/Hallanda í Hvítá og veiddi laxa í Hallskerinu eða á Breiðunni, stórkostlegt svæði. En Veiðivötnin eru mér kærust, þangað fer ég á hverju sumri og alltaf á afmælisdaginn minn, 6. ágúst.“

Er fjölskyldan stór? 

„Nei, við Karitas eignuðumst einn son, sem heitir Sigurður Jensson, og svo á ég uppeldisdóttur sem Karitas átti fyrir, Höllu Margréti Þórarinsdóttur.” 

Að lokum var málarinn spurður hvort honum hafi dottið það í hug sem ungum manni að hann ætti eftir að sjá sig sem 88 ára gamlan mann uppi á þaki að mála? 

„Nei, nei, það hugsaði ég aldrei.“

Að duga eða drepast

Eru börnin þá ekki hrædd þegar þú stendur uppi á þaki? 

„Jú, jú, Þær Halla og Gígja dóttir hennar loka augunum og finnst þetta hættulegt. En þetta er mitt mál, annaðhvort er að duga eða drepast,“ segir Jens Árni Ingimundarson að lokum.  

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...

Steypan í Þverárrétt rannsökuð
Fréttir 13. maí 2024

Steypan í Þverárrétt rannsökuð

Úlfheiður Embla Ásgeirsdóttir framkvæmdi rannsókn á gæðum steypunnar sem notuð v...

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...