„Ákveðið var að sjálfur aftökustaðurinn skyldi vera á einum af ystu melhólunum í Vatnsdalshólum, á Þrístöpum, en þar hafði áður verið kot kennt við Ranahóla.“
„Ákveðið var að sjálfur aftökustaðurinn skyldi vera á einum af ystu melhólunum í Vatnsdalshólum, á Þrístöpum, en þar hafði áður verið kot kennt við Ranahóla.“
Líf og starf 26. janúar 2026

Öxin kysst

Höfundur: Kristján B. Jónasson

Þann 12. janúar voru 195 ár liðin frá því að Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru tekin af lífi fyrir morðin á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni að Þrístöpum í Austur-Húnavatnssýslu.

Það er svo ótalmargt sem þarf að gera þegar fólk er tekið af lífi. Fyrir liggur að þrír hafa verið dæmdir til dauða, karl og tvær konur, og nú þarf að ljúka málinu á fullnægjandi hátt. Það er eitt og annað sem sýslumaður Húnavatnssýslu, Björn Auðunsson Blöndal, þarf að hugsa um í félagi við amtmann sinn í Norður- og Austuramti, Grím Jónsson á Möðruvöllum. Það yrði álitshnekkir ef aftakan lukkaðist ekki vel.

Böðulsleit

Fyrir það fyrsta er það persónan sem allt veltur á. Valið á böðlinum olli sýslumanninum áhyggjum. Raunar hafði hann ekki síður áhyggjur af því hvort einhver innlendur maður fengist yfirleitt til verksins. Tækist það ekki yrði að fá „skarprettara“ utanlands frá og hvílíkur kostnaður sem af því myndi hljótast: ferðir, laun og uppihald. Þótt ýmsir fáist til að láta hrís og keyri ríða á bak og þjó þegar brotafólki er refsað er það ekki á hverjum degi sem höggva þarf mann og konur. En þegar fréttist hvað til stæði – nokkuð er jú liðið síðan dómar voru kveðnir upp í héraði – og já, þegar hæstaréttardómurinn barst loks frá Kaupmannahöfn og ljóst var að ekki yrði aftur snúið, þá gerðu víst nokkrar miður þokkaðar persónur sér ferð á sýslumannssetrið í Hvammi í Vatnsdal til að spyrjast fyrir um kaup og kjör. Þar á meðal var Eyfirðingur, Jón Þórðarson, sem kvaðst alvanur að sjá um framkvæmd dóma. Sér fyndist létt að fletta húðinni af sakafólki og yrði ekki skotaskuld úr að gera tvo til þrjá höfðinu styttri. Í einni heimild segir að Jón hafi gert sig ánægðan með „tóbakspund og brennivínspott“ að launum. Sýslumaður velti málinu fyrir sér en afþakkaði. Þess í stað bað hann bróður annars hinna myrtu, Guðmund Ketilsson, um að taka verkið að sér. Fyrir sextíu ríkisbankadali.

Dæmdir menn

Guðmundur færðist undan. Hann hafði sjálfur fengið að kenna á lögunum, verið dæmdur fyrir þjófnað og hlotið þessi venjulegu tíu vandarhögg eða svo sem þjófum voru úthlutuð. Ætti maður fé var leyfilegt að borga sig frá barsmíðunum, en öðrum hinum myrta, Natani Ketilssyni, hafði þó verið meinað slíkt þegar hann fékk sinn dóm. Já, báðir hinir myrtu voru nefnilega með „dóma á bakinu“ eins og nú er sagt. Natan hafði verið dæmdur til að þola tíu vandarhögg í undirrétti í Húnavatnssýslu árið 1824 fyrir hlutdeild í þjófnaði og yfirhylmingu yfir þeim sama þjófnaði, þótt hinn meinti þjófur hefði raunar sloppið við refsingu vegna skorts á sönnunargögnum. Óneitanlega virðist sérstakt að hægt sé að dæma mann fyrir yfirhylmingu yfir glæp sem ekki er hægt að sanna á glæpamanninn. En eins og tíundað er í úrskurði landsyfirréttar (þangað sem Natan áfrýjaði dómi í héraði) var embættismannastéttin gjörsamlega búin að fá sig fullsadda af Natani og færði margvísleg rök fyrir refsingu honum til handa, manni sem var „að svo mörgum óhæfum kunnu[r], óráðvendni og markleysu“, eins og stendur í dómsorði. Niðurstaðan var því að vandarhöggin tíu stóðu og bætt var við öðrum fimm.

Félagi Natans í dauðanum, Pétur Jónsson, eða Fjárdráps-Pétur sem svo er jafnan nefndur í húnverskri sagnageymd, hafði fengið enn þyngri dóm fyrir sínar misgjörðir. Hann hafði í nóvember 1826 verið dæmdur í undirrétti í Húnavatnssýslu til „æfilegs þrældóms í Kaupinhafnar festingu“, þungrar sektar, greiðslu málskostnaðar og svo kaghýðingar. Við kaghýðingu var sakamaðurinn bundinn á höndum við staur það hátt að fætur hans rétt námu við jörð og síðan reyrður við staurinn um læri og mitti svo hann hoppaði ekki til og frá við refsinguna og síðan hýddur vel og lengi, oftast með hrísvendi, en stundum hnútakaðli eða keyri á bert bakið þar til húðin á baki var meira og minna á brott. Pétur hafði hlotið þennan dóm fyrir að hafa í félagi við annan murkað lífið úr um 30 kindum á Ytri-Löngumýri í Blöndudal, stungið þær eða hálsbrotið, til að hræða fjáreigandann og kúga til hlýðni. Voru þeir Pétur keyptir til verksins, en verkkaupinn slapp.

Málinu var vísað til landsyfirréttar sem mildaði dóminn til muna. Nú var Pétri aðeins ætluð fjögurra ára betrunarvist í Rasphúsinu í Kaupmannahöfn þar sem sakamenn sátu og muldu plöntuklumpa úr nýlendunum niður í litunarduft og önduðu að sér í leiðinni ryki frá morgni til kvölds sem dró þá yfirleitt fyrr til dauða en síðar. Dómurinn féll á útmánuðum 1827 en enn var málinu skotið áfram og nú til hæstaréttar í Kaupmannahöfn. Pétur var á meðan í varðhaldi á Geitaskarði í Langadal og beið úrskurðar í sínum málum. Honum auðnaðist þó aldrei að heyra af þeim málalyktum sem reyndar voru enn ánægjulegri en niðurstaðan sem landsyfirréttur hafði komist að. Þegar dómurinn barst að utan árið 1828 var hann allur.

Aftökustaðurinn

Að endingu gaf Guðmundur sig eftir að Björn sýslumaður hafði nuddað í honum. Öxi hafði fyrir löngu verið pöntuð frá Kaupmannahöfn og stóðu þeir Björn sýslumaður og Grímur amtmaður á Möðruvöllum í því brasi, báðir miklir stjórnsýslumenn og umhugað um að allt gengi nú fyrir sig þannig að sem allra minnst mætti finna að framkvæmdinni.

Þegar nær dró aftökunni varð ljóst að ein af hinum þremur dæmdu hafði hlotið náð fyrir augum þeirra í Höfn. Líflátsdómi yfir Sigríði litlu Guðmundsdóttur frá Vatnsenda var breytt í lífstíðardóm sem hún skyldi afplána í Stokkhúsinu í Kaupmannahöfn. Eftir stóðu á aftökulistanum þau Friðrik Sigurðsson frá Katadal og Vatnsdælingurinn Agnes Magnúsdóttir. Þau höfðu beðið fregna af niðurstöðu hæstaréttar í varðhaldi um nokkurt skeið. Nú var best að drífa í þessu.

Það var því allnokkur asi í Þingi og í Vatnsdal upp úr nýári 1830. Undirbúningurinn fyrir aftökuna fór að mestu fram frá þrettándanum og fram undir aftökuna 12. janúar. Ákveðið var að sjálfur aftökustaðurinn skyldi vera á einum af ystu melhólunum í Vatnsdalshólum, á Þrístöpum, en þar hafði áður verið kot kennt við Ranahóla. Sýslumaður settist niður með séra Magnúsi Árnasyni Þingeyrapresti og Birni Ólsen, umboðsmanni Þingeyraklausturs, sem og tveimur „skynsömum bændum“ og fundu þeir út úr þessu í sameiningu. Efst á hólnum var dagana 6. til 8. janúar 1830 hlaðinn úr sniddum lítill ferhyrndur pallur og hafður lágur því tafsamt var að stinga torf úr freðinni jörð. Heppnin var þó í liði með yfirvöldum því tíðin var með eindæmum góð og hvorki ófærð eða stórveður komu í veg fyrir að hægt yrði að fá einn mann af hverjum bæ í sex hreppum í Húnaþingi til að fylgjast með aftökunni.

Ofan á torfhlaðna pallinn var tyllt höggstokk sem kom utan frá Höfðakaupstað, með laut í miðju fyrir hálsa sakafólksins, og einhvers staðar hafa sýslumaður eða amtmaðurinn á Möðruvöllum haft upp á rauðu klæði sem breitt var yfir allt saman. Umhverfis var svo slegin íslenska fátæktarútgáfan af pílárum, girðingarnefna úr efni sem sýslumaður fékk lánað, væntanlega á Þingeyrum, og sem skilað var að aftöku lokinni.

Náðarbrjóst

Friðrik Sigurðsson hafði verið í varðhaldi á Þingeyrum. Agnes Magnúsdóttir á Kornsá í Vatnsdal. Þau komu því hvort úr sinni áttinni til aftökustaðarins. Í fylgd með Friðriki var sálusorgari hans, Jóhann Tómasson, prestur á Tjörn á Vatnsnesi. Um tveimur vikum eftir aftökuna skrifaði Jóhann lýsingu á aftökunni og aðdraganda hennar undir formerkjum hjálpræðissögunnar: Náð Guðs stendur öllum til boða, einnig líflátsdæmdum morðingjum. Jóhann hafði dvalið á Þingeyrum og veitt Friðriki sálusorgun í varðhaldinu og slegið á kvíða hans og ótta.

Að sögn Jóhanns var Friðrik sáttur við allt og alla frammi fyrir dauðanum, líka böðulinn Guðmund: „Skarpréttarann ávarpaði hann með blíðsemdarorðum, beiddi hann að gjöra sitt verk með kærleika.“ Og Friðrik leyfði sér að vera smá leikrænn, hverju hafði hann svo sem að tapa? „Að því búnu,“ segir Jóhann, „beiddist hann að mega sjá öxina, gekk þangað sem hún lá, kyssti á hana og sagði: „Þetta er blessaður réttlætisvöndur sem ég hef forþénað með mínum syndum.““

Þegar Friðrik kraup við höggstokkinn átti hann enn orð fyrir hópinn, þessa á annað hundrað bændur og vinnumenn sem stóðu í hring um hólinn. Hann lagði höfuðið á stokkinn og sagði lágt: „Ó, minn Jesús, ég leggst á þín náðarbrjóst!“ Höfuðið fór af í fyrsta höggi. Stuttu síðar var Agnes Magnúsdóttir einnig hrifin burt úr þessum heimi með öxi. Bæði voru þau dysjuð á staðnum að öllum viðstöddum og höfuðin sett á stangir og látin snúa að alfaraleið. Verklaun sín gaf Guðmundur Ketilsson fátækum á Vatnsnesi.

Vetur í stofunni
Líf og starf 26. janúar 2026

Vetur í stofunni

Að ýmsu er að hyggja til að halda pottaplöntum heilbrigðum og fallegum yfir vetr...

Öxin kysst
Líf og starf 26. janúar 2026

Öxin kysst

Þann 12. janúar voru 195 ár liðin frá því að Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigur...

Enn lengur á Biðstofunni, takk!
Líf og starf 16. janúar 2026

Enn lengur á Biðstofunni, takk!

Nú er að hefjast ein skemmtilegasta sjónvarpsveisla ársins með Evrópumótinu í ha...

Að missa af síðustu lestinni
Líf og starf 30. desember 2025

Að missa af síðustu lestinni

6 pör spiluðu alslemmu í spili dagsins, 14 fóru í hálfslemmu en nokkur létu duga...

Fjölmargir krýndir í yngri flokkum
Líf og starf 30. desember 2025

Fjölmargir krýndir í yngri flokkum

Dagana 29. og 30. nóvember fóru fram tvö Íslandsmót. Annars vegar Íslandsmót ein...

Myndflöturinn logar
Líf og starf 28. desember 2025

Myndflöturinn logar

Bjart er yfir sýningu Eggerts Péturssonar í Hafnarborg. Sýningin heitir Roði en ...

Feðgin skrifa um réttir á Íslandi
Líf og starf 28. desember 2025

Feðgin skrifa um réttir á Íslandi

Feðginin Anna Fjóla og pabbi hennar, Gísli B. Björnsson, eru nú á fullum krafti ...

Húsfreyjan í Ytri-Hlíð lyfti grettistaki
Líf og starf 28. desember 2025

Húsfreyjan í Ytri-Hlíð lyfti grettistaki

Vopnfirðingurinn Oddný Aðalbjörg Methúsalemsdóttir vann á sinni tíð ötullega að ...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f