Geitur fá ekki inni í afurðastöðvum
Til vandræða horfir að kjötafurðastöðvar taka ekki við afurðum geitfjárbænda og þurfa þeir sjálfir að annast slátrun og sölu afurða sinna.
Hákon Bjarki Harðarson, formaður deildar geitfjárbænda innan Bændasamtaka Íslands, segir afkomu geitfjárstofnsins þokkalega eftir sumarið.
„Afkoma geitanna sjálfra eftir sumarið er nokkuð góð, í það minnsta hér norðanlands. Kið koma mjög væn af fjalli,“ segir hann. Afkoma greinarinnar sé aftur á móti ekki eins og best væri á kosið. „Kjötafurðastöðvar taka ekki við afurðum bænda og því þurfa geitabændur sjálfir að vinna og selja sitt kjöt. Ætli bændur að auka verðmæti afurða sinna þurfa þeir að fjárfesta í vottaðri aðstöðu sem getur reynst mörgum erfitt,“ útskýrir Hákon.
Áhyggjur hafa verið af því um skeið meðal geitfjárbænda að þjónusta sláturhúsa fari versnandi gagnvart greininni. Dæmi voru t.d. um að sláturhús tæki geitur í slátrun eitt skipti að hausti, í tvær klukkustundir. Sláturhúsið á Hvammstanga tók þó geitur tvisvar til þrisvar yfir haustið en í Borgarnesi var staðan mun lakari, að sögn geitfjárbænda.
Þeirri spurningu var varpað fram innan deildar geitfjárbænda á Búnaðarþingi sl. vor af hverju kiðlingar færu ekki í stórgripasláturhús þar sem þeir væru í raun líkari kálfum en lömbum. Þar kom og fram að Sláturfélag Suðurlands (SS) taki ekki geitakjöt. Þá sé erfitt að vinna að framþróun geitfjárafurða ef geitakjöt sé hvergi í almennri sölu.
Brýnt að ná utan um skráningu
Inntur eftir fjölda geita í landinu nú um stundir segir hann ekki komnar tölur um ásettar geitur í haust. „En það er þó tilfinning mín að geitum fjölgi frekar en hitt,“ segir hann.
Á Búnaðarþingi sl. vor kom fram að um 2.300 geitur væru taldar vera í landinu. Fyrir nokkru var stofnað fagráð um geitfjárrækt. Er það talið nauðsynlegt til að stuðla að verndun íslenska geitfjárstofnsins og hugsað til að ná saman öllum þeim aðilum sem koma að því verkefni að standa vörð um íslensku geitina.
Hákon segir helstu áherslumál geitabænda sem stendur vera að ná utan um skráningu allra geita í landinu gegnum skýrsluhaldskerfið Heiðrúnu.
„Stjórn geitabænda hefur lagt fram beiðni til atvinnuvegaráðherra um að koma að þeim málum með okkur og gera Heiðrúnu gjaldfrjálsa fyrir notendur. Þar sem íslenska geitin er í útrýmingarhættu er það á ábyrgð stjórnvalda að koma stofninum úr útrýmingarhættu,“ segir hann.
Arfgerðargreiningar þörf
Einnig hafi verið óskað eftir styrk frá ríkinu til að hægt sé að arfgerðargreina geitastofninn, líkt og gert hefur verið í sauðfjárræktinni. „Það er mjög mikilvægt fyrir geitastofninn að komast að því hvort það leynist verndandi gen gegn riðu innan stofnsins. Í svona litlum stofni er það mikið högg fyrir stofninn ef þarf að skera niður heilu hjarðirnar komi upp riða í sauðfé líkt og gerðist í Skagafirði 2020,“ segir Hákon enn fremur.
