Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Nanna býr á Miðhóli í Rangárvallasýslu ásamt sambýlismanni sínum, Guðmundi Garðarssyni frá Hólmi í Austur-Landeyjum, og börnum, Esju Sigríði, 14 ára og Jóni 8 ára. Mæðginin Nanna og Jón eru hér í útreiðatúr. Nanna situr Jónsson frá Ásmundarstöðum og Jón er á Pabbastelpu frá Ásmundarstöðum.
Nanna býr á Miðhóli í Rangárvallasýslu ásamt sambýlismanni sínum, Guðmundi Garðarssyni frá Hólmi í Austur-Landeyjum, og börnum, Esju Sigríði, 14 ára og Jóni 8 ára. Mæðginin Nanna og Jón eru hér í útreiðatúr. Nanna situr Jónsson frá Ásmundarstöðum og Jón er á Pabbastelpu frá Ásmundarstöðum.
Mynd / ÁL
Viðtal 21. mars 2023

Hugfangin af hestinum

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Nanna Jónsdóttir var kjörin nýr formaður deildar hrossabænda hjá Bændasamtökunum á búgreinaþingi. Hún er uppalin á Ásmundarstöðum í Rangárvallasýslu, en býr og stundar hrossarækt á Miðhóli þar skammt frá. Hún hefur komið að ýmsu er við kemur hestum, starfrækt hestasumarbúðir og sinnt stóðhestahaldi ásamt því að hafa komið að uppbyggingu á vatnsbrettaþjálfun.

„Ég hef alltaf verið hugfangin af hestinum okkar og aldrei vikið frá því að stunda hestamennsku. Ég kenni hross mín við Ásmundarstaði og var þátttakandi í hrossarækt foreldra minna, Sigríðar Sveinsdóttur og Jóns Á. Jóhannssonar. Núna er ég með mína eigin ræktun sem byggist á þeirra stofni. Hrossarækt er án efa með því skemmtilegra sem hægt er að stunda, maður er fljótur að sjá uppskeruna og árangurinn. Ég legg mikið upp úr því að kynnast ræktuninni minni vel og sér í lagi hryssunum áður en ég set þær í ræktun. Ég hef í gegnum tíðina ýmist reynt að ríða þeim og þjálfa upp að vissu marki áður en þær fara í dóm eða taka við þeim eftir dóm og fara helst með þær í allavega eina hestaferð. Frelsið sem við njótum hér á landi til að ferðast á hestum vítt og breitt um landið er ómetanlegt og mikilvægt bæði fyrir hesta og menn. Okkur ber að vernda gamlar reið- og þjóðleiðir fyrir komandi kynslóðir og hestamennskuna í heild sinni. Fátt toppar það að ríða út í náttúru landsins í góðra vina hópi á fallegu sumarkvöldi.“

Nanna segir fjölbreytni hestamennskunnar heillandi.

„Hestamennska hefur marga anga og getur verið margs konar, hvort sem er fyrir áhugamenn eða fólk í atvinnustarfsemi. 

Henni fylgja svo mörg afleidd störf. Í raun gerum við okkur ekki grein fyrir hvað hesturinn spilar stóran þátt í mörgum rekstri og tengist fjölbreyttri atvinnustarfsemi beint og óbeint enda er engin yfirsýn yfir það hjá stjórnvöldum. Til að mynda er hestamennskan flokkuð meðal hinna ýmsu atvinnugreina innan Hagstofunnar sem skekkir heildarmyndina því innan flestra þessara flokka er ekki yfirsýn yfir hve stór hluti tilheyri nákvæmlega hestinum.“

Höfuðstöð hestsins

Upprunaættbók íslenska hestsins, WorldFengur, er Nönnu ofarlega í huga. „Ég tel algjörlega tímabært að uppfæra ættbókina og alla umgjörð kringum hana. Í WorldFeng eru öll íslensk hross í heiminum skráð í miðlægan gagnagrunn sem ég tel vera lykilinn og undirstaða alls er við kemur hrossarækt. Það er afar mikilvægt að við öxlum ábyrgð sem upprunaland íslenska hestsins með öflugu utanumhaldi en í góðu samstarfi á alþjóðavísu.“

Nanna telur þörf á að marka formlega framtíðarstefnu um hlutverk íslenska hestsins á heimsvísu. „Sem upprunaland þurfum við að vera í leiðtogahlutverki og í því samhengi þá velti ég fyrir mér hvort ekki sé tímabært að koma á laggirnar mögulegum höfuðstöðvum íslenska hestsins hérlendis. Ef bara er horft í það að ríflega 10% ferðamanna koma til landsins vegna hestsins í afþreyingarskyni, þá ætti vel að vera grundvöllur fyrir því.

Einnig væri mikilvægt að slíkar höfuðstöðvar kæmu að því að halda utan um um allt er viðkemur hestinum okkar.

Síðan eigum við að sjálfsögðu að vera með stöðug augu á kynbótakerfinu og þróun þess, umgjörð og utanumhald, skoða það með gagnrýnum en sanngjörnum augum með hliðsjón af öllum öngum; sýnenda, ræktenda, starfsmanna, áhorfenda og dómara – þar reynir á virkni Fagráðs.“

Nanna hefur verið í samstarfi við Evu Dyröy og komið að þjálfun hrossa í vatnsbrettaþjálfun ásamt stóðhestahaldi. Hér er stóðhesturinn Adrían frá Garðshorni á brettinu.

Tryggja þarf fjármuni í utanumhald

Deild hrossabænda er þriðja fjölmennasta deild Bændasamtakanna. Nanna segir mikilvægt að hrossabændur og ræktendur sameinist innan búgreinadeildarinnar. „Ég tel þó að ansi margir séu ekki skráðir í deildina en eiga vonandi eftir að skrá sig á næstu misserum.

Vægi hrossabænda innan samtakanna eykst væntanlega í ljósi fjöldans og reynir þá enn meira á bæði okkur í stjórn búgreinadeildarinnar og einnig á stjórn Bændasamtaka Íslands að koma hrossaræktinni að í búvörusamningum, m.a. til að festa í sessi deild hrossabænda innan BÍ.“Hún segir að tryggja þurfi aðkomu hrossabænda að búvörusamningum.

„Þá er ég ekki að tala um að við eigum að fara inn í styrkjakerfið eins og aðrar búgreinar heldur þarf að tryggja fjármuni í utanumhald vegna íslenska hestakynsins svo hægt sé að öðlast betri yfirsýn, svo við getum sinnt leiðtogahlutverki okkar og í umgjörð og utanumhald er því við kemur. Greinin byggir á arfleifð íslenskrar menningar og ég tel að hestamennskan eigi eftir að halda áfram að vaxa og dafna um ókomna tíð.

Það var mikil innspýting á sínum tíma þegar Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, hrinti af stað átaksverkefni í uppbyggingu á reiðhöllum um land allt sem olli algjörri byltingu á aðstöðu og reiðmennsku. Nú tel ég að það sé kominn tími til að marka framtíðarsýn í samstarfi við stjórnvöld og koma íslenska hestinum á föst fjárframlög frá ríkinu. Áhugavert væri jafnframt að skoða lækkun á virðisaukaskatti eins og stundum hefur verið umræða um og var ein af niðurstöðum skýrslu sem unnin var árið 2009 fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Lækkun á virðisauka í 11% skatthlutfall gæti verið mikill hvati fyrir greinina innanlands eins og stjórnvöld gerðu til að mynda fyrir ferðaþjónustuna vegna sölu á gistiþjónustu með góðum árangri. Einnig er afar mikilvægt að hafa næga fjármuni eyrnamerkta í rannsóknir. Það er til dæmis tímaspursmál hvenær við þurfum að svara hver efri þyngdarmörk á knöpum séu fyrir okkar hestakyn og þá þurfum við að vera með þekkingu á reiðum höndum.“

Hinn nýi formaður búgreinadeildar hrossabænda mun leggja mikið upp úr því að taka samtal við grasrótina og kalla eftir skoðunum félagsmanna í beinum samtölum og fundarherferðum.

Vill vera í virku samtali við félagsmenn

Nanna telur mikil tækifæri felast í aukinni nýliðun í hestamennskunni. „Það er í raun og veru átak sem stöðugt þarf að sinna enda samkeppnin mikil. Við þurfum að sjálfsögðu að passa upp á stofnvernd íslenska hestsins og viðhalda erfðabreidd hans.

Ein af stóru áskorunum sem stjórn búgreinadeildar hrossabænda stendur frammi fyrir er að fá fleiri félagsmenn inn til að sameina krafta sína innan Bændasamtakanna sem ég bind miklar vonir við að verði – sér í lagi ef við fáum aðkomu að búvörusamningum.

Einnig mun ég leggja mikið upp úr því að taka samtal við grasrótina og kalla eftir skoðunum félagsmanna, hvort sem er í beinum samtölum eða fundarherferðum. Síðan verður vonandi hægt að nýta Bændatorgið innan BÍ til þess að vera í virku samtali við félagsmenn.“

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt