Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Eggjabúið er við Ulefoss. Á bænum er líka blómarækt í gróðurhúsum, krá og bændaverslun
Eggjabúið er við Ulefoss. Á bænum er líka blómarækt í gróðurhúsum, krá og bændaverslun
Mynd / Aðsendar
Fréttir 2. ágúst 2023

Ungur Íslendingur eggjabóndi í Noregi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Ólafur Lindgren Sigurðsson tekur við eggjabúi í Noregi í haust. Hann segir bankann hafa verið viljugan til að lána, þar sem afkoma búsins er góð.

Ólafur Lindgren Sigurðsson og Victoria Bjune taka við eggjabúi í Þelamörk í Noregi í haust. Ólafur á ættir að rekja til Landeyjanna.

Ólafur, sem er 25 ára, hefur dvalið löngum stundum á Krossi í Landeyjum þar sem pabbi hans er kúabóndi. Hann er þó alinn upp að mestu í Noregi, hjá norskri móður sinni. Ólafur hefur alltaf viljað vera bóndi og stefndi um tíma að því að taka við búi föður síns. Victoria, unnusta Ólafar, hafði ekki áhuga á að flytja frá Noregi og settu þau því stefnuna á að hefja búskap þar í landi.

Fjármögnun mikil vinna

Ólafur segir mikla vinnu liggja að baki fjármögnun á jörðinni, en hann þurfti að eiga fyrir þriðjungi kaupverðsins. „Það sem hjálpaði okkur er að það eru svo góðar tekjur af búinu,“ segir Ólafur, sem gerði lánastofnanir viljugri til að fjármagna. Hann telur að ekki fengist fyrirgreiðsla fyrir kaupum á jafndýru búi með verri afkomumöguleika.

Enn fremur er seljandinn tengdur Ólafi fjölskylduböndum og seldi unga parinu á lægra verði en á almennum markaði. „Hann vildi að við tækjum við. Hann var búinn að segja að ef við tækjum ekki við, þá myndi hann ekki selja,“ segir Ólafur, en fráfarandi bóndi er 74 ára gamall. Ólafur og Victoria taka formlega við búinu 1. september næstkomandi.

7.500 lausagönguhænur

Bærinn er staðsettur við Ulefoss, sem aftur er skammt frá Skien í Þelamörk, í sunnanverðum Noregi. Á búinu eru 7.500 hænur og er uppistaða búrekstursins eggjaframleiðsla. Á jörðinni eru einnig gróðurhús sem eru notuð til að rækta blóm á vorin. Þau eru með litla sjálfsafgreiðsluverslun þar sem fólk getur keypt afurðirnar af bænum. „Fólk kemur inn og tekur það sem það vill fá. Þau skrifa niður hvað þau taka og borga annaðhvort í síma eða með peningum,“ segir Ólafur. Búðin er smá og er staðsett í gömlu útihúsi á bænum. Þar að auki eru þau með litla krá.

Dagleg störf eggjabóndans

Núna eru þau gjarnan með fráfarandi bónda í almennum störfum. Dagleg bústörf felast meðal annars í því að fara í hænsnahúsin á morgnana og tína saman þau egg sem hafa dottið úr hreiðrunum. Hænurnar ganga lausar og verpa almennt í varpkassa og rúlla eggin þá niður á færiband. Þaðan fara eggin í rými þar sem þau eru með aðstöðu til að flokka og pakka afurðunum í neytendapakkningar. Stærstu eggin eru seld heima á bæ, á meðan flest eru seld í verslunum í gegnum bændasamlagið Nortura.

Góð aðstaða er til að flokka og pakka eggjunum.

Nokkurt ræktarland fylgir jörðinni, sem er leigt út. Ólafur segir ekki mikinn pening fást úr ræktun korns þessi misserin, en er áhugasamur um að stunda slíka ræktun síðar. Ólafur mun einnig taka yfir snjómoksturinn á svæðinu, sem fráfarandi bóndi hefur sinnt til þessa. Ólafur segir að það sé gott að vera bóndi í Noregi, þó hlutirnir gætu alltaf verið betri. „Þetta eru þokkaleg laun, en mættu alveg vera meiri þegar maður sér hversu marga tíma maður er að vinna.“ Hann viðurkennir að starf bóndans sé líka lífsstíll.

Aðspurður um frekari samanburð á búrekstri á Íslandi og í Noregi, segir Ólafur að veðrið sé óneitanlega mildara hjá honum, á meðan á Íslandi sé oft rok og rigning. Þegar Bændablaðið ræddi við Ólaf var 30 gráðu hiti, sem hann sagði að væri reyndar fullmikið af því góða.

Skylt efni: eggjaframleiðsla

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...