Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Töluvert bar á veiðarfærum og plasti eins og brúsum, flöskum og forhlöðum, en inn á milli mátti finna fatnað og glundur í glerflöskum.
Töluvert bar á veiðarfærum og plasti eins og brúsum, flöskum og forhlöðum, en inn á milli mátti finna fatnað og glundur í glerflöskum.
Fréttir 27. ágúst 2021

Um 4 tonn af rusli söfnuðust í 12 áburðarsekki

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

Hreinsun strandlengjunnar í Langanesbyggð, sem fram fór nýverið, skilaði um fjórum tonnum af rusli af ýmsum toga. Töluvert bar á veiðarfærum og plasti eins og brúsum, flöskum og forhlöðum, en inn á milli mátti finna fatnað og glundur í glerflöskum. Alls fylltust 12 áburðarsekkir auk þess sem settar voru upp hrúgur hér og hvar af drasli sem ekki þótti við hæfi að sóa sekkjum undir.

Þó svo að 4 tonn liggi í valnum eftir hreinsunina er ógrynni eftir af drasli í fjörum við Langanes að sögn Tómasar Knútssonar hjá Bláa hernum, en hann tók þátt í hreinsuninni ásamt vöskum hópi sjálfboðaliða, 22 að tölu. Verkefnið er samstarfsverkefni Langanesbyggðar og umhverfis­samtakanna Ocean Missions auk Veraldarvina og Bláa hersins, en hershöfðinginn Tómas var óvænt staddur í nærliggjandi sveitarfélagi þegar hreinsun fór fram. Hann dreif sig milli fjarða til að taka þátt.

Tómas Knútsson fer fyrir Bláa hernum en hann tók þátt í hreinsun strandlengjunnar við Langanes fyrr í þessum mánuði.

Blái herinn hefur unnið að hreinsun strandlengjunnar í 25 ár og í sumar hafa Tómas og félagar unnið ötullega að því að hreinsa fjörur á Reykjanesi með góðum árangri. Hann segir að verkefnin séu yfir 30 talsins þar um slóðir. Allt hráefnið sem hreinsað hefur verið var viktað og er það geymt. Vel yfir 10 tonn eru komin í geymslu og segir Tómas að farið verði yfir allt saman, það rannsakað og uppruna þess gerð góð skil.

„Reykjanesið verður plast­hreinasta strandlengja Íslands,“ segir hann.

Enn mikið eftir

Hreinsunin á Langanesi hófst við fuglaskoðunarskýlið á Ytra-Lóni og unnust að þessu sinni um tveir kílómetrar norður eftir nesinu.

„Það er gríðarlegt magn eftir af rusli í fjörum við Langanes,“ segir Tómas en hann fór óformlega vettvangsferð um svæðið með dróna. „Það er rík þörf á að taka þráðinn upp að nýju og halda áfram, því augljóslega rekur mikið af rusli af öllu tagi á land við Langanes,“ segir hann. Almennt telur Tómas að um eitt tonn af rusli sé á hverjum kílómetra í íslenskum fjörum og því blasi ærin verkefni við í hreinsunarstörfum.

Þörf á þjóðarátaki

Tómas segir að brýn þörf sé á þjóðarátaki í þessum efnum, almenningi sé vandinn vel kunnur og það sama megi segja um stjórnkerfið, þar sem peningarnir eru og ekki alltaf nægur vilji að sögn til að deila þeim út í verkefni af þessu tagi.

„Það yrði algjörlega frábært ef við Íslendingar tækjum af skarið og gerðum eitthvað stórt sem eftir yrði tekið. Framtíðin öskrar á lausnir, við verðum að hlúa eins vel að jörðinni okkar og kostur er, það er alveg ótækt að við höldum áfram að sýna henni þá óvirðingu sem við höfum gert fram til þessa,“ segir Tómas.

Komandi kynslóðir vilja hreinna og sjálfbærara umhverfi

Hann segir að sér hafi komið á óvart við hreinsun á Langanesi að þar stóð til að brenna öllu hráefni sem safnað var í fjörunni til húshitunar, enda felist í því verulegur sparnaður að brenna t.d. rekavið og plast.

„Ég velti fyrir mér hvort landeigendur séu með viðurkennda brennsluofna til húshitunar, að mínu mati kallar þetta á umræðu um slíkar brennslur. Við höfum um tíðina rætt hvað verður um allt ruslið og stundum er einhver feluleikur í gangi í þeim efnum. Staðreyndin er sú að með réttum hugsanagangi er hægt að endurvinna allt hráefni og þangað eigum við að mínu mati að stefna. Komandi kynslóðir vilja hreinna og sjálfbærara umhverfi og það eru bullandi tækifæri í að endurvinna fjörugóssið,“ segir Tómas.

Blái herinn hefur tekið þátt í yfir 30 verkefnum sem tengjast hreinsun strandlengju við Reykjanes. Myndin er tekin á Merkinesi á samnorræna strandhreinsideginum en Blái herinn sér um það samstarfsverkefni hér á landi.

Rúlluplast í mörgum litum

Þá bendir hann á að margir möguleikar séu fyrir hendi þegar kemur að endurvinnslu á plasti og nefnir sem dæmi rúlluplastið sem fáist í fjölmörgum litum. Einfaldara væri upp á endurvinnslu að hafa einn lit í boði og þykir sá hvíti langbestur að sögn kunnugra.

„Ég myndi vilja sjá þvotta/flokkunarstöð sem myndi gera allan plastúrgang meðfærilegri til að hann gæti öðlast betra endur­vinnsluferli,“segir Tómas.

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...

Norðlenskir bændur verðlaunaðir
Fréttir 1. maí 2024

Norðlenskir bændur verðlaunaðir

Bændur á þremur bæjum voru verðlaunaðir á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar ...

Rekstrarbati hjá Norðlenska Kjarnafæði
Fréttir 1. maí 2024

Rekstrarbati hjá Norðlenska Kjarnafæði

Hagnaður Kjarnafæðis Norð­lenska var 385,5 milljónir króna á síðasta ári fyrir s...

Engir hveitibrauðsdagar
Fréttir 30. apríl 2024

Engir hveitibrauðsdagar

Nýi matvælaráðherrann, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, segir of stutt vera eftir af...