Stjórnvaldssekt felld úr gildi
Kúabændur á Vesturlandi sem voru kærðir fyrir að tryggja nautgripum sínum ekki lögmæta útivist á grónu landi sumarið 2023 þurfa ekki að greiða sekt.
Málið snýr að stjórnvaldssekt sem Matvælastofnun (MAST) lagði á bændur vegna brots á reglum um útivist nautgripa. Eftirlitsmaður MAST heimsótti búið þann 4. september 2023 og komst að því að mjólkurkýrnar höfðu ekki farið út, sem er brot á lögum um velferð dýra. Kúabændurnir sögðust hafa gripið til þess ráðs þar sem þau hefðu fest kaup á kúabúinu nokkrum mánuðum áður og fjárhagsskuldbindingar voru mjög miklar. Þetta sumar var erfitt til fóðuröflunar vegna langvarandi rigninga með langri þurrkatíð í kjölfarið. Því treystu þau sér ekki til að setja kýrnar á beit og minnka heyforða næsta vetrar. Jafnframt efuðust þau um hvort dýravelferð væri fólgin í því að setja hámjólka kýr á brennda mela.
Kúabændurnir mótmæltu sektinni og töldu að jafnræðis hefði ekki verið gætt. MAST staðfesti sektina en lækkaði hana úr 540.000 kr. í 350.000 kr. Eftir endurupptöku málsins staðfesti ráðuneytið ákvörðunina, en bændurnir töldu að MAST hefði ekki farið að lögum við meðferð málsins og að misrétti hefði verið viðkomandi öðrum búum. MAST hafnaði þessum ásökunum og taldi að fjárhagslegar ástæður gæfu ekki réttlætingu fyrir brotinu.
Í athugasemdum bændanna við umsögn MAST er bent á að eftirlit stofnunarinnar sé sennilega ómarkvisst ef eingöngu þrjú af 58 kúabúum í umdæminu hafi verið sektuð. Bændurnir telja önnur starfssystkin sín hafa orðið fyrir sömu veðurfarslegu aðstæðum, en komist hjá sektum þar sem hægt var að benda á ummerki eftir útivist geldneyta. Á umræddum bæ hafi kvígur og geldkýr verið fluttar í úthaga með kerru.
Í úrskurði ráðuneytisins kemur fram að af gögnum málsins verði ekki séð með skýrum hætti hvaða upplýsingar bændurnir fengu við eftirlit umræddan dag, hvort veittur hafi verið frestur til úrbóta eða hvaða leiðsögn bændurnir fengu að öðru leyti. Samkvæmt leiðbeiningaskyldu sem kveðið er á um í stjórnsýslulögum ber stjórnvaldi ekki aðeins skylda til að svara fyrirspurnum, heldur leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði.
Enn fremur hafði MAST ekki skilað öllum gögnum til ráðuneytisins þegar þess var óskað þar sem voru mikilvægar upplýsingar um málsatvik. Sá vafi sem er í málinu varðandi málsatvik og leiðbeiningar til bændanna er metinn þeim í hag.
