Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Í kjölfar salmonellusmits í fjósinu í Fellshlíð hafa verið settar hömlur á flutning gripa og landbúnaðartækja frá bænum.
Í kjölfar salmonellusmits í fjósinu í Fellshlíð hafa verið settar hömlur á flutning gripa og landbúnaðartækja frá bænum.
Mynd / ál
Fréttir 26. júní 2025

Smitvarnir í Fellshlíð

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Fyrr í þessum mánuði greindi Matvælastofnun (MAST) frá því að salmonella hefði greinst á kúabúinu Fellshlíð í Eyjafirði.

Elín Margrét Stefánsdóttir, bóndi í Fellshlíð, segir að salmonellusmitið hafi uppgötvast í kjölfar þess að sonur hennar veiktist. „Hann var hérna í nokkra daga og veiktist stuttu eftir að hann fór aftur suður. Hann fór á bráðamóttökuna og var greindur með salmonellu,“ segir Elín.

„Þegar sonur okkar var hérna var ein kýrin í fjósinu aflífuð eftir að hafa verið veik og þreif hann upp eftir hana,“ bendir Elín á. Þegar hann greindist með salmonellu tilkynnti hann MAST um smitið án þess að gruna að hann hafi smitast hér. „Svo veiktist önnur kýr og fórum við fram á að það yrði tekið sýni úr henni, sem reyndist jákvætt fyrir salmonellu.“ Elín furðar sig á að ekki hafi farið í gang sjálfkrafa ferlar hjá opinberum aðilum þó svo að sonur hennar hafi greinst með salmonellu, heldur hafi bændurnir sjálfir haft frumkvæði að frekari rannsóknum.

Þrjú jákvæð sýni

„Hjá okkur voru tekin þrjú sýni, úr tveim kúm og einum kálfi, sem reyndust jákvæð. Síðan þá hafa ekki verið meiri veikindi. Núna er farið af stað ferli til að útiloka að það sé eitthvað meira.“ Elín segir þær smitvarnir sem fylgja ekki vera stórkostlega íþyngjandi. „Við megum ekki selja gripi eða slátra nema með leyfi frá MAST.

Það sem okkur finnst verst er að við erum líka í flutningsbanni á hrossum því þetta getur smitast milli dýrategunda. Við getum því ekki farið í hestaferðir í sumar nema með leyfi MAST,“ segir Elín, en hún bendir á að hestamennska sé mikið áhugamál þeirra hjóna. „Nú eru sýnatökur úr hrossunum í ferli og það fer eftir niðurstöðunum úr því hvort við fáum að fara eitthvað með þau.“

Salmonellusýkingin þýðir jafnframt takmarkanir á umferð landbúnaðartækja á bænum. „Við erum að kaupa þjónustu verktaka í heyskap og erum sjálf í smá verktöku. Þetta kostar heilmikil þrif og sótthreinsun á öllum vélum og tækjum sem þarf að vera undir eftirliti MAST,“ segir Elín. Þrátt fyrir áðurnefnt óhagræði segir hún mestu furðu hversu jákvæðir landbúnaðarverktakarnir eru fyrir því að koma til þeirra, enda eru þau með allan búnað til þrifa.

Hundleiðinlegt mál

Áður en hægt er að lýsa kúabúið í Fellshlíð laust við sjúkdóminn þarf að taka endurtekin sýni með 30 daga millibili sem þurfa öll að reynast neikvæð. „Það voru tekin handahófssýni úr stíum, vatni, fóðri og öðru slíku. Þau reyndist öll neikvæð,“ segir Elín. Einu jákvæðu sýnin á bænum hafi því verið úr áðurnefndum þremur skepnum. Ef fram fer sem horfir geta bændurnir horft fram á að öllum takmörkunum verði aflétt í lok sumars.

Aðspurð segir Elín engar skýringar hafa fengist á því hvernig smitið barst í Fellshlíð. Hún viðurkennir enn fremur að atburðarás undanfarna vikna hafi tekið á bændurna persónulega. „Auðvitað gerir það það. Þetta er hundleiðinlegt mál.“ Í fréttatilkynningu MAST er sérstaklega tekið fram að engin hætta stafi af neyslu mjólkur frá búinu eftir gerilsneyðingu.

Skylt efni: salmonellusmit

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...