Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Guðrún S. Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands.
Guðrún S. Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands.
Skoðun 25. júlí 2019

Því fylgir ábyrgð að eiga land

Höfundur: Guðrún S. Tryggvadóttir

Í byrjun mánaðarins kom út eigendastefna ríkisins  vegna jarða, landa, lóða og auðlinda í eigu þess. Frá 2012 hafa eignirnar verið á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytis en áður var það hjá ráðuneyti landbúnaðarmála.

Í  framhaldi af stefnumótunarvinnu ráðuneytisins var ákveðið að sameina jarðaumsýsluna og fasteignir ríkissjóðs undir nafni Ríkiseigna með það að markmiði að umsýsla þessara eigna ríkisins yrði samræmd, fagleg og hagkvæm. Það felur m.a. í sér núverandi nýtingu og framtíðarhagsmuni og nú hefur verið gefin út stefna sem ætlunin er að vinna eftir til frambúðar varðandi þetta efni.

Á málinu eru margar hliðar

Á sama tíma er verið að fjalla um uppkaup auðmanna á jörðum og sérstaklega jörðum sem búa yfir veiðiréttindum. Engin eiginleg stefna er til um jarðir í einkaeigu eða yfirhöfuð framtíðarsýn varðandi þetta land. Hvernig á að halda utan um að umsýsla þessara eigna í einkaeigu sé samræmd fagleg og hagkvæm? Það er að almannahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi um hvað verði um þetta land.   Vissulega má um það deila hvort eignarrétt megi skerða eða hvort að það komi einhverjum við hver afdrif lands í einkaeigu verða. Óneitanlega eru á þessu máli margar hliðar, en því má í það minnsta velta fyrir sér hvort að land eigi að lúta sömu lögmálum og hver önnur vara í viðskiptum. Land er takmörkuð stærð og hefur mismunandi kosti. Það kemur við hagsmuni hvers og eins hvernig því er ráðstafað og á því hafa menn skoðanir, hvort sem þeir eiga landið sjálfir eða ekki. 

Það er ekki alltaf auðvelt að selja jarðir í sveitunum, hvað þá að fá fyrir þær gott verð. Það er því ekki hægt annað en að setja sig í spor landeigandans sem fær kannski „tilboð sem ekki er hægt að hafna“ og horfa á þá hlið. En um leið verðum við að horfa á aðrar hliðar eins og samfélagið. Hvaða áhrif hafa uppkaup auðmanna á jörðum á samfélögin í sveitunum? Hvaða áhrif hefur það á landbúnað þegar jarðir hverfa úr landbúnaðarnotkun? Hvaða áhrif hefur það þegar kaupandi lands, selur öðrum, eða hverfur af sjónarsviðinu,  hvernig líta nýir eigendur á samkomulag um nýtingu landsins? Hvaða áhrif hefur það á matvælaöryggi þjóðarinnar ef við tökum  ekki afstöðu/mótum ekki stefnu um hvernig við ætlum að nýta landið til framleiðslu matvæla? Íslensk lög setja litlar skorður við viðskiptum með land, a.m.k. ef um er að ræða viðskipti innan EES. Það getur hreinlega þýtt að við töpum forræði yfir eigin landi bara með hugsunarleysi. Er það það sem við viljum?

Almennt strangari reglur um eignarhald lands á Norðurlöndunum

Í Noregi og Danmörku gilda almennt strangari skilyrði um eignarhald á bújörðum og fasteignum en hérlendis. Sérstaklega hvað varðar ábúðarskyldu á bújörðum í landbúnaðarnotum. Þessi skilyrði eru mismunandi milli þessara landa en í báðum þarf kaupandinn að sækja um leyfi til yfirvalda. Í Noregi þarf kaupandinn að uppfylla ákveðin skilyrði, m.a. hæfi til að yrkja landið, hvernig kaupin horfi við meðferð og nýtingu auðlinda, hvort markmið kaupanda fari saman við menningu og búsetu á svæðinu. Í stuttu máli hvort kaupandi sé talinn hæfur til að öðlast eignarrétt yfir því landi sem nýtt er til landbúnaðar.

Mikilvægt að varðveita ræktunarland

Í vinnslu er frumvarp um jarðakaup útlendinga hér á landi. En við þurfum líka að hugsa um jarðasöfnun innlendra aðila. Í umfjöllun um notkun og nýtingu jarða, landa, lóða og auðlinda, hvort sem um er að ræða í einkaeigu eða eigu ríkisins, hlýtur það að vera markmið okkar að framtíðarhagsmuna verði gætt. Líkur benda til að eftirspurn eftir ræktunarlandi eigi eftir að aukast til að fæða jarðarbúa, það hlýtur því að verða mikilvægt að varðveita ræktunarland. Við verðum líka að gæta þess að farið verði eftir aðstæðum t.d. hvað varðar búsetuskyldu eftir landsvæðum. Þar hlýtur að verða að gera sem skynsamlegastar kröfur hvað það varðar. Við þurfum að hugsa langt fram í tímann og gera áætlanir um hvernig afkomendur okkar eiga að geta haft möguleika á að lifa á og með þessu landi löngu eftir okkar dag. Við Íslendingar erum kannski ekki sterkust á svellinu þegar að því kemur að gera langtímaplön. En við verðum!

Tími til aðgerða

Stjórnvöld þurfa að gera upp við sig hvort það er raunverulegur áhugi á að setja um þetta stífari lagaramma en hann þarf að taka til bæði innlendra og erlendra aðila. Tíminn flýgur og æ fleiri jarðir fara í eigu auðmanna með tilheyrandi óvissu og afleiðingum fyrir viðkomandi landsvæði, afleiðingum sem kannski koma fyrst fram eftir áratugi. Málið er búið að vera til umfjöllunar hjá stjórnsýslunni í mörg ár. Nú er kominn tími til aðgerða.

Landbúnaður mun aldrei keppa við auðmenn um jarðeignir. Það hefur aldrei verið þannig og mun aldrei verða þannig. Maturinn yrði einfaldlega alltof dýr ef það ætti að gerast. Ef vilji stendur til að hafa landbúnað í landinu þá þarf að setja stífari reglur um þessi mál, byggðar á hugsun til lengri tíma.

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...