Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hernaðurinn gegn landinu
Lesendarýni 5. september 2018

Hernaðurinn gegn landinu

Á sínum tíma skrifaði einn af vitrustu mönnum þessa lands ádeilugrein með þessari fyrirsögn.
Þessi hernaður er sífellt að fá á sig nýjar myndir og er alltaf við lýði.
 
Jóhannes Geir Gíslason.
Nú er það nýjast að færa skuli stofnbrautina til Vestfjarða út fyrir Reykjanes.  Heimamenn annarra sveitarhluta hafa tekið undir þetta og kalla það sáttaleið í langvarandi skoðanaskiptum um hvar vegurinn eigi að liggja. Sáttaleið hverra er það? Fólkið á Reykjanesi í heild hefur ekki einu sinni verið spurt álits. 
 
Landbúnaður og búseta á Reykjanesi er í þeim hópi hér í sveit sem best stendur. Þar eru stór og staðarleg tún og utan þeirra votlendi með miklu fuglalífi og æðarvarpi. 
 
Yfir þetta vill nú fólk fara að leggja stofnbraut umferðar til Vestfjarða sem þó er lenging á þeirri sem er.  Það hefur verið bent á leiðir, sem eru stytting á nefndum vegi og þess er þörf.
 
Talsmenn vegar útfyrir Reykjanes virðast vera úr þeim hópi sem þykir engu þurfa að hlífa nema Teigsskógi. Teigsskógur er ágætur, en ekkert merkilegri en aðrir líkar hans hér í sveit, en honum er bara engin hætta búin verði farin leiðin sem styst er og oft hefur verið bent á, hún er ekki í gegnum Teigsskóg og ekki út fyrir Reykjanes. 
 
Talað var um hlutlausa úttekt og var fenginn Norðmaður til
 
Í reifun um ágæti vegar um Reykjanes og áfram yfir Þorskafjörð er miklaður glæsileiki brúar yfir fjörðinn og skoðun þaðan á fegurð náttúrunnar. Skárra er það nú hlutleysið! Verði þessi leið farin þarf að hefja vegabætur frá vegamótum við Skáldstaði. Sá vegur liggur gegnum skóginn á Barmahlíð, en honum má jafna við Teigsskóg. Hvar annars staðar ætti hann að liggja?
 
Það var atkvæðamaðurinn Guðjón Kristjánsson (Addi Kitta Gau), sem viðraði leiðina ,,Yfir firði, gegnum fjöll“. Það er mesta stytting leiðar sem hægt er að fá. Til að andmæla henni hefur verið sagt að svo vont sé efni í Hjallahálsi og Gufudalshálsi að gegnum þá sé ómögulegt að gera göng. Ég lít á þetta sem Grýlu og að nútíma tækni ráði við þann vanda. 
 
Vegurinn út fyrir Reykjanes yrði hryðjuverk
 
Fólkið sem stendur að hinu svokallaða hlutleysi og hefur kostað ókunnugan mann til að semja ályktun er skammsýnt og skoðar ekki alla þætti. Þessu fólki hefði verið nær að bjóða fram pening í að stytta veginn á þann hátt sem ég hefi hér lýst. Sú leið hefur verið nefnd fyrr, s.s. ég hefi einnig nefnt.
 
Nú er það svo að vegagerðarmenn hafa rekið augun í kletta í sunnanverðum Gufudalshálsi, sem þeir telja góða efnisnámu til vegagerðar. Hvort mun þá sá staður ekki góður til gangagerðar líka? Einnig er hann rétt hjá haftinu í Gufufirði sem fullyrða má, að sé gott vegastæði.
 
Auðvitað er gangagerð dýr og vegagerðarmönnum sem alltaf þurfa að horfa í kostnaðinn er vorkunn þó þeir bjóði hana ekki fyrst fram. 
 
Þeir kunna að leggja vegi. Nýi vegurinn fyrir Skálanes var skandall á náttúruvætti og sögu um ráð genginna kynslóða til að ,,laga í lappirnar“ á sér.
 
Dugað hefði minna til að bæta búsetuaðstöðu á Skálanesi, en vegurinn var gerður til að bæta leiðina til Vestfjarða. Þessi leið ,,Yfir firði, gegnum fjöll“ þverar báða Djúpafjörð og Gufufjörð. Í þeim báðum er grunnt á höftum sem ekki eru lakara vegastæði en haftið í Þorskafirði og auk þess samanlagt styttri og þar væri líka hægt að koma fyrir glæsilegri brú til að ,,skoða útsýnið af“.
 
Þá er annað. Vegur yfir Þorskafjörð í mynni spillir því að haldist byggð í Djúpadal, hann situr eftir með fjallvegi á báða vegu.
 
Landið má ekkert við því að spillt sé búsetuskilyrðum. Byggðareyðing = vannýting, vanhirða lands.
Frægt varð þegar ráðherrann Ögmundur Jónasson vildi viðra og ræða í Vesturbyggð möguleikana á vegabótum með bið eftir þeim. Fólkið sagði takk og sýndi allt saman ráðherranum í afturendana. Í útvarps- og sjónvarpsviðtölum á eftir sagðist fólkið vilja láglendisveg strax, annars yrði áfram óbyggilegt. Þá var nýbættur vegurinn yfir Klettsháls með ráðum að vestan. Vestbyggjar litu kannski á hann sem láglendisveg.
 
Síðan þetta gerðist er víst u.þ.b. liðinn fresturinn, sem Ögmundur talaði um. Teigsskógur hefur dugað vel til rifrildis. Hann er á láglendi.
 
Heyrt hefi ég á tal fólks að betur mundu Reykhólar settir með viðskipti við ferðamennskuna ef aðalumferðin væri nær. Þetta kalla ég stórvarasaman hugsunarhátt. Reykhólar sem þéttbýli hefur byggst upp á þeim forsendum sem þar eru til staðar. Vanti sjoppu við veginn þá kemur hún þar sem hann er.
 Reykjanes og Reykhólar með er friðsælt svæði, hæfilega fjarlægt skarkalanum. Af því yrði stórskaði að fá hann þar í gegn. Dreifbýli byggðarinnar allt er ekki síður mikilvægt svæðinu í heild en Reykhólar einir.
 
Verkstæði, veitinga- og gistiþjónusta eru bæði í þéttbýlinu og dreifðu byggðinni. Vanti meira slíkt kemur það eftir þörfum. Fólk ferðast á eigin vegum á eigin farartækjum. Vegvísa þarf til að finna þessa þjónustustaði. Fólk ferðast til að koma sér út úr skarkalanum og sækist ekkert eftir því að flytja hann með sér og dvelja við hann. 
 
Byggðin hefur nóg af friðsælum afviknum stöðum m.a. Hallsteinsnes og þar með Teigsskóg. Til slíkra staða þarf ódýrari vegarslóða en stofnbrautin er. Þannig fyrirkomulag þekkir maður frá Norðurlöndum og Evrópu. 
 
Heyrt hefur maður og séð fögnuð manna í nýlegum skrifum og málflutningi um þessa Reykjanesbraut að nú hækki hagur Strympu og tímabært sé að koma Reykhólum á kortið. 
 
Þetta er bull og vanhugsað blaður, heilaþvottur einhverra gróðafíkla, sem hrífa fólk. Reykhólar sem þéttbýli eru á kortinu á eigin náttúrulegum forsendum, jafn nauðsynlegt dreifbýlinu eins og það umhirðu landsins. Maður hefur nóg séð af vanhirðingu lands af þeim sökum að grasbítana vantar.
 
Þessi veglína sem ég hefi hér fjallað um ,,Yfir firði, gegnum fjöll“ er ekki með í samanburðaryfirliti Vegagerðarinnar, sem ég hefi séð um möguleika. 
 
Þessi leið kemur ef fólk vill að leiðin styttist. Hvað sem gert verður fyrr verður bráðabirgðaráð. Þau verða oft furðu langlíf ef notuð eru.
 
Ég var unglingur þegar bratta brekkan í Ódrjúgshálsi var gerð. Hana gerði ráðagóður ýtumaður, sem sá að fjárveitingin dygði ekki yrði farið eftir gerðri fyrirmælingu. Bráðabirgðasneiðingurinn er nú að verða sjötugur. Þá var ég ungur. Nú er ég gamall, safngripur sem nálgast dysina.
 
Jóhannes Geir Gíslason
fyrrum bóndi í héraðinu.
Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?
Lesendarýni 20. mars 2024

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?

Mikill fjöldi ótímabærra dauðsfalla á síðustu misserum hefur ekki farið fram hjá...

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker
Lesendarýni 14. mars 2024

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker

Óbyggðanefnd tók til meðferðarsvæði 12, með því að fjármálaráðuneytinu var tilky...

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?
Lesendarýni 13. mars 2024

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?

Í Samráðsgátt stjórnvalda lágu fyrir skemmstu til umsagnar drög að reglugerð um ...