Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Leitað að besta sáðgresinu
Mynd / sá
Fréttir 26. júní 2025

Leitað að besta sáðgresinu

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Tegund sáðgresis hefur mest áhrif á endingu en sláttutími mikil áhrif á heildaruppskeru og talsverð á fóðurgildi. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar á túngrösum.

Þóroddur Sveinsson, fyrrverandi tilraunastjóri við Landbúnaðarháskóla Íslands, hefur rannsakað hvað mögulega gæti verið besta sáðgresið og hvort unnt væri að auka endingu þess í túnum án þess að það komi mikið niður á magni og gæðum uppskerunnar.

Undirstaða hefðbundins landbúnaðar á Íslandi eru fjölær fóðurgrös og ræktun þeirra, segir Þóroddur í rannsóknargrein sem birt er í innblaði. Fóðurgildi og uppskera skipti þar miklu máli og þá sérstaklega í mjólkurframleiðslunni, þar sem kostað sé miklu til og kröfur eru um hátt afurðastig gripa. Kúabændur rækti því tún sín með innfluttu sáðgresi sem hafi sýnt sig hafa umtalsverða yfirburði fram yfir innfædd fóðurgrös.

Rétt tegund lykill að endingu

Þóroddur segir verkefnið hafa orðið til vegna fyrirspurna kúabænda um hvort þeir gætu aukið endingu sáðgresis í túnum sínum án þess að það kæmi mikið niður á magni og gæðum uppskeru. Þannig var stefnt að því að bæta árangur bænda í eigin ræktun á gróffóðri með því að hámarka gæði og magn uppskerunnar.

Borin voru saman eftirsóttustu fóðurgrösin og ending þeirra í túnum yfir sex ára tímabil. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur m.a. fram að það sem hafði mest áhrif á endingu var tegund sáðgresis. Sláttutíminn hafði marktæk en minni áhrif í sumum tegundum en ekki í öðrum. Sláttutíminn hafði aftur á móti mikil áhrif á heildaruppskeru sem og talsverð áhrif á fóðurgildið. Segir í niðurstöðum að óháð tegundum ætti að stefna á að taka fyrsta slátt við upphaf skriðs, sem sameini mikla uppskeru og hátt fóðurgildi. Æskilegast væri að taka aðeins tvo slætti á ári.

Sáðblöndur góður kostur

Þá kom í ljós að sáðblanda reyndist vera með mestu endinguna heilt yfir. Fyrstu árin voru vallarfoxgras og hávingull mest áberandi í blöndunni en síðasta árið bar mest á vallarsveifgrasinu úr blöndunni. Uppskera sáðblöndunar var ágæt, sem og fóðurgildið, yfir sex ára rannsóknartímabilið. Sáðblöndur eru því taldar vera góður kostur þegar stefnt er að endingu og ekki mjög tíðum sáðskiptum.

Leggur Þóroddur til í rannsóknargreininni að gerðar verði víðtækari tilraunir með blöndunarhlutföll milli tegunda. Álitlegar tegundir saman í blöndur segir hann vera vallarfoxgras, vallarrýgresi og rauðsmára, þar sem stefnt er að tíðum sáðskiptum, en bæta megi við góðu vallarsveifgrasi sé stefnt að lengri endingu.

Sjá nánar á síðum 38-9 í nýja Bændablaði sem kom út í dag

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...